Björg Jónsdóttir fæddist á Rauðabergi á Mýrum þann 14. september 1922. Hún lést á Hjúkrunardeild Heilbrigðisstofnunar Suðausturlands Hornafirði þann 8. apríl s.l. Foreldrar hennar voru hjónin Halldóra Guðmundsdóttir húsmóðir, f. í Hoffelli 1.6. 1901, d. 4.8. 1985 og Jón Jónsson Malmquist bóndi, síðast í Akurnesi, f. á Kleifarstekk í Breiðdal 12.10. 1888, d. 26.3. 1956. Systkini Bjargar eru: Hallgerður, f. 27.5. 1920, d. 17.6. 2001, Guðmundur, f. 26.1. 1924, Skúli, f. 11.1. 1926, Anna, f. 10.8. 1927, Unnur, f. 25.1. 1929, Egill,f. 14.12.1930, d. 12.7. 2008, Þóra Ingibjörg, f. 28.5. 1933, Hanna, f. 5.10. 1937, Pétur Haukur, f. 2.11. 1939, Droplaug, f. 27.11. 1943 og Ragnar, f. 5.7. 1946. Björg giftist þann 23.12.1948 Þórólfi Einarssyni bónda á Meðalfelli f. 3.10. 1901, d. 12.8.1968. Foreldrar hans voru hjónin Einar Þorleifsson, f. 22.9.1867, d. 31.12.1918 og Jóhanna Sigríður Snjólfsdóttir, f. 21.6.1868, d. 16.10.1958. Börn Bjargar og Þórólfs eru: 1) Einar Jóhann, 16.4.1949. Maki 1, Sigrún Ellen Einarsdóttir, f. 28.2.1951, þau skildu. Börn þeirra eru: a) Rakel Þóra, f. 27.8.1970, maki Sævar Guðmundsson, f. 5.7.1971, eiga þau tvo syni. b) Eydís Dóra, f. 29.6.1972, maki Halldór Bragi Gíslason, f. 17.2.1971, eiga þau fjögur börn. c) Þórólfur Örn, f. 7.3.1975. d) Aðalheiður Dagmar, f. 23.10.1979, maki Ágúst Ragnar Reynisson, f. 16.6.1983, eiga þau tvö börn. Maki 2, Emily Mary Rossiter, f. 10.9.1968. Börn þeirra eru: e) Þórdís María, f. 14.6.2000, f) Kjartan Jóhann, f. 1.12.2003. 2) Vilborg, f. 28.5.1953. Maki Úlfar Konráð Jónsson, f. 30.9.1950, þau skildu. Börn þeirra eru: a) Bergþóra Fjóla, f. 8.9.1970, maki Kristmann Einarsson, f. 28.4.1975, eiga þau þrjú börn. b) Valgerður Hanna, f. 7.11.1971, maki Andrés Einarsson, f. 26.2.1969, eiga þau þrjá syni. c) María Ingibjörg, f. 15.1.1978, maki Vilhjálmur Vagn Steinarsson, f. 9.10.1974, eiga þau tvær dætur. d) Anna Jóna, f. 5.8.1981, á hún eina dóttur. Björg og Þórólfur hófu búskap að Meðalfelli árið 1948 og bjuggu þar með hefðbundinn búskap. Björg vann jöfnum höndum við búskapinn og barnauppeldi. Á sumrin var margt um manninn, því þá komu börn ættingja úr höfuðborginni í sumarvist til þeirra. Björg var virk í kvenfélaginu Vöku í Nesjum og var hún heiðursfélagi í dansklúbbnum Takti á Hornafirði. Eftir að Þórólfur lést hélt hún búskap áfram ásamt syni sínum og fjölskyldu hans, einnig starfaði hún við hin ýmsu störf. Árið 1997 fluttist Björg út á Höfn og dvaldist síðustu ár ævi sinnar á Hjúkrunardeild H.S.S.A á Hornafirði. Útför Bjargar fer fram í Bjarnaneskirkju í dag og hefst athöfnin kl: 14.
Vilhelm Steinsen
Ein af þeim sterku persónum sem voru svo ríkjandi þegar ég ólst upp var Björg frænka mín á Meðalfelli. Hún var frekar lágvaxin en hnellin kona hress og með frekar stórar hendur. Þessum stóru höndum munaði ekki mikið um að keyra mjólkurbrúsunum í hjólbörum niður á brúsapall, moka skán úr fjárhúsunum, mjólka kýrnar og baka pönnukökur þegar gesti bar að garði. Hún virtist alltaf hafa tíma fyrir allt og alla.
Alls staðar þar sem hún kom var alltaf mikið hlegið og spjallað. Eftir að amma mín í Akurnesi dó þá kom Björg stundum í Akurnes og tók til í kringum bræður sína. Þeir voru frekar stressaðir og fannst hún fara ansi geyst í þessar tiltektir. En eins og hún sagði svo oft hvurslags er þetta
Björg hafði afskaplega gaman að skemmta sér en hún notaði aldrei áfengi. Hún sagði að það færi beint upp í hausinn á sér og það vildi hún alls ekki. Ég tók hana stundum með á sveitaböllin sem voru svo allsráðandi á þeim tíma. Hún mætti þá jafnan í upphlutnum sínum og vakti athygli frægustu hljómsveita á þessum tíma fyrir glaðværð glæsileika og danssveiflu.
Ég er þakklát fyrir að hafa haft mikil og góð samskipti við Björgu frænku mína. Ég sé það í dag að með því að taka það sem lífið hefur uppá að bjóða með dugnaði og gleði, kemur manni ansi langt. Elsku Jói og Bodda við á Seljavöllum sendum ykkur og fjölskyldum ykkar okkar innilegustu samúðarkveðjur og biðjum guð að styrkja ykkur öll.
Valgerður Egilsdóttir