Björg Jónsdóttir fæddist á Rauðabergi á Mýrum þann 14. september 1922. Hún lést á Hjúkrunardeild Heilbrigðisstofnunar Suðausturlands Hornafirði þann 8. apríl s.l. Foreldrar hennar voru hjónin Halldóra Guðmundsdóttir húsmóðir, f. í Hoffelli 1.6. 1901, d. 4.8. 1985 og Jón Jónsson Malmquist bóndi, síðast í Akurnesi, f. á Kleifarstekk í Breiðdal 12.10. 1888, d. 26.3. 1956. Systkini Bjargar eru: Hallgerður, f. 27.5. 1920, d. 17.6. 2001, Guðmundur, f. 26.1. 1924, Skúli, f. 11.1. 1926, Anna, f. 10.8. 1927, Unnur, f. 25.1. 1929, Egill,f. 14.12.1930, d. 12.7. 2008, Þóra Ingibjörg, f. 28.5. 1933, Hanna, f. 5.10. 1937, Pétur Haukur, f. 2.11. 1939, Droplaug, f. 27.11. 1943 og Ragnar, f. 5.7. 1946. Björg giftist þann 23.12.1948 Þórólfi Einarssyni bónda á Meðalfelli f. 3.10. 1901, d. 12.8.1968. Foreldrar hans voru hjónin Einar Þorleifsson, f. 22.9.1867, d. 31.12.1918 og Jóhanna Sigríður Snjólfsdóttir, f. 21.6.1868, d. 16.10.1958. Börn Bjargar og Þórólfs eru: 1) Einar Jóhann, 16.4.1949. Maki 1, Sigrún Ellen Einarsdóttir, f. 28.2.1951, þau skildu. Börn þeirra eru: a) Rakel Þóra, f. 27.8.1970, maki Sævar Guðmundsson, f. 5.7.1971, eiga þau tvo syni. b) Eydís Dóra, f. 29.6.1972, maki Halldór Bragi Gíslason, f. 17.2.1971, eiga þau fjögur börn. c) Þórólfur Örn, f. 7.3.1975. d) Aðalheiður Dagmar, f. 23.10.1979, maki Ágúst Ragnar Reynisson, f. 16.6.1983, eiga þau tvö börn. Maki 2, Emily Mary Rossiter, f. 10.9.1968. Börn þeirra eru: e) Þórdís María, f. 14.6.2000, f) Kjartan Jóhann, f. 1.12.2003. 2) Vilborg, f. 28.5.1953. Maki Úlfar Konráð Jónsson, f. 30.9.1950, þau skildu. Börn þeirra eru: a) Bergþóra Fjóla, f. 8.9.1970, maki Kristmann Einarsson, f. 28.4.1975, eiga þau þrjú börn. b) Valgerður Hanna, f. 7.11.1971, maki Andrés Einarsson, f. 26.2.1969, eiga þau þrjá syni. c) María Ingibjörg, f. 15.1.1978, maki Vilhjálmur Vagn Steinarsson, f. 9.10.1974, eiga þau tvær dætur. d) Anna Jóna, f. 5.8.1981, á hún eina dóttur. Björg og Þórólfur hófu búskap að Meðalfelli árið 1948 og bjuggu þar með hefðbundinn búskap. Björg vann jöfnum höndum við búskapinn og barnauppeldi. Á sumrin var margt um manninn, því þá komu börn ættingja úr höfuðborginni í sumarvist til þeirra. Björg var virk í kvenfélaginu Vöku í Nesjum og var hún heiðursfélagi í dansklúbbnum Takti á Hornafirði. Eftir að Þórólfur lést hélt hún búskap áfram ásamt syni sínum og fjölskyldu hans, einnig starfaði hún við hin ýmsu störf. Árið 1997 fluttist Björg út á Höfn og dvaldist síðustu ár ævi sinnar á Hjúkrunardeild H.S.S.A á Hornafirði. Útför Bjargar fer fram í Bjarnaneskirkju í dag og hefst athöfnin kl: 14.

Snemma sumars 1967 var einn af farþegum í þristi Flugfélags Íslands til Hornafjarðar sjö ára drengur á leið í sveit að Meðalfelli, hjá ömmubróður sínum og konu hans. Sveitin var græn og vegurinn rykugur. Við stálbogabrúna á Laxá stóð gömul kirkja. Leiðin lá upp með Laxá, um hraunið og heim í hlað. Móttökur Bjargar og Olla voru þannig að drengnum fannst hann kominn í öruggan faðm. Olli kenndi stráksa að spila Kasínu og Þjóf. Oftast vann Olli en stundum stráksi. Sumarið eftir féll Þórólfur frá um aldur fram. Engu að síður var ávallt sami faðmurinn sem tók við stráknum þegar hann kom í sveitina, unglingnum sem kom í heimsókn um páskana og unga manninum sem kom til að njóta áramótanna að Meðalfelli.Dagarnir hjá Björgu á Meðalfelli voru öðruvísi. Frá því hænurnar í kjallaranum vöktu mannskapinn þar til farið var í háttinn. Þar var mjólkað á höndum. Úti í haga. Flutningur mjólkurbrúsa var með hjólbörum. Það var skipst á að keyra og styðja við brúsann. Dekkið rann í öðru hjólfari vegarins en sá sem studdi brúsann gekk í hinu farinu. Í minningunni var alltaf sól og á eftir mátti treysta á kaffisopa og eina dellu.  Það var ekki hægt annað en að læra ýmislegt nytsamlegt af Björgu. Þegar hún var spurð eitt sinn hvað henni hafi þótt mikilvægasta breytingin á sinni löngu ævi, svaraði hún Ætli það hafi ekki verið þegar við fengum skó og maður varð þurr á fótunum. Þetta svar hefur oft verið hermt þegar ungt fólk nútímans þykist vanta eitthvað. Nægjusemi mátti læra af samvistum við Björgu. Hún sýndi með verkum sínum að ekki þýðir að gefast upp þótt móti blási, manneskjan getur það sem hún ætlar sér, jafnvel þó hún sé lágvaxin bóndakona sem hefur haft fyrir hverjum hlut í sínu lífi. Gæska og gleði voru eiginleikar Bjargar Jónsdóttur frá Hoffelli. Eitt sinn var jólunum frestað á Meðalfelli, því verkefni dagsins, að taka aðeins neðan af eldhússkápunum lauk ekki fyrr en á níunda tímanum á aðfangadagskvöld. Það voru sannarlega eftirminnileg jól. Á jóladag var svo stungið út úr annarri krónni í fjárhúsunum. Þetta var nú meiri viskan, sagði Björg og hló dátt í eldhúsinu að verki loknu. En það var einmitt í eldhúsinu á Meðalfelli sem notið var samvista, hláturs og spjalls við frændfólk og vini.Fyrir kom að Björg tilkynnti að nú væri kominn tími til að fara á bæi. Þá var ekki gengið eftir veginum. Farið var niður hæðir, eða út yfir á, það var fljótlegra. Af því mátti læra að ekki þarf alltaf að fara troðnar slóðir. Önnur leið er stundum fljótar farin og þar má sjá margt nýtt. Björg átti sögur um flest kennileiti. En það var ekki bara gengið um tún og byggt ból. Björg leiddi eina ferð inn með Þverárgili og yfir að Þveit. Ein jólin lá leiðin upp í Lón. Inn Laxárdal og fram Endalausadal. Að Efra Firði komu tveir mjög þreyttir göngugarpar í svarta myrkri um kvöldmat.Minningarnar um samvistir við Björgu á Meðalfelli eru mér kærar. Það sem ég lærði af henni hefur styrkt mig og ég reyni að kynna næstu kynslóð gæskuna og skynsemina hennar Bjargar á Meðalfelli.

Vilhelm Steinsen

Ein af þeim sterku persónum sem voru svo ríkjandi þegar ég ólst upp var Björg frænka mín á Meðalfelli. Hún var frekar lágvaxin en hnellin kona hress og með frekar stórar hendur. Þessum stóru höndum munaði ekki mikið um að keyra mjólkurbrúsunum í hjólbörum niður á brúsapall, moka skán úr fjárhúsunum, mjólka kýrnar og baka pönnukökur þegar gesti bar að garði. Hún virtist alltaf hafa tíma fyrir allt og alla.

Alls staðar þar sem hún kom var alltaf mikið hlegið og spjallað. Eftir að amma mín í Akurnesi dó þá kom Björg stundum í Akurnes og tók til í kringum bræður sína. Þeir voru frekar stressaðir og fannst hún fara ansi geyst í þessar tiltektir. En eins og hún sagði svo oft hvurslags er þetta

Björg hafði afskaplega gaman að skemmta sér en hún notaði aldrei áfengi. Hún sagði að það færi beint upp í hausinn á sér og það vildi hún alls ekki. Ég tók hana stundum með á sveitaböllin sem voru svo allsráðandi á þeim tíma. Hún mætti þá jafnan í upphlutnum sínum og vakti athygli frægustu hljómsveita á þessum tíma fyrir glaðværð glæsileika og danssveiflu.

Ég er þakklát fyrir að hafa haft mikil og góð samskipti við Björgu frænku mína. Ég sé það í dag að með því að taka það sem lífið hefur uppá að bjóða með dugnaði og gleði, kemur manni ansi langt. Elsku Jói og Bodda við á Seljavöllum sendum ykkur og fjölskyldum ykkar  okkar innilegustu samúðarkveðjur og biðjum guð að styrkja ykkur öll.

Valgerður Egilsdóttir