Sigurbjörn Pálmason fæddist á Hvammstanga 19. október 1965. Hann lést á heimili sínu, Vesturbrún 17 í Reykjavík, sunnudaginn 28. júní sl. Foreldrar hans eru Pálmi Jónsson, f. 10. febrúar 1917 og Ingibjörg Daníelsdóttir, f. 3. mars 1922. Systkini Sigurbjörns eru Hjálmar, f. 31. júlí 1945, maki Guðlaug Sigurðardóttir, f. 22. febr. 1947, þau eiga 2 börn. Gylfi, f. 9. nóv. 1946, hann á 5 börn, Hólmgeir, f. 14. jan. 1947, maki Ingibjörg Þorláksdóttir, f. 6. sept. 1947, þau eiga 7 börn, Reynir, f. 20. des. 1949, d. 23. apríl 1967, Bergþór, f. 27. ágúst 1951, maki Sigrún Marinósdóttir, f. 29. júlí 1951, þau eiga 4 börn. Ásgerður, f. 8. júlí 1955, maki Guðjón S. Gústafsson, f. 28. júlí 1958, þau eiga 6 börn, og Svanhildur, f. 4. júlí 1956, maki Sigurður Ámundason, f. 20. júní 1954, þau eiga 6 börn. Sigurbjörn bjó á Bergsstöðum á Vatnsnesi fyrstu 7 ár ævi sinnar, en fluttist þá til Reykjavíkur með foreldrum sínum. 19 ára fluttist hann að Sólheimum í Grímsnesi. Síðustu ár ævi sinnar bjó Sigurbjörn á sambýlinu Vesturbrún 17 í Reykjavík. Útför Sigurbjörns fer fram frá Grensáskirkju í dag, 3. júlí og hefst athöfnin klukkan 15.

Það er alltaf jafn erfitt að horfa á eftir þeim sem manni þykir vænt um.
Bjössi var einstakur, svo góður og hlýr. Alltaf fékk ég knús og rembingskoss á kinnina þegar ég mætti í vinnuna eða í heimsókn.  Við starfsfólkið á Vesturbrún töluðum um það, að ef  illa lá á manni, þá var eins og að Bjössi skynjaði  það og hann kom og knúsað mann extra mikið og stundum sat hann hjá manni  heilu kvöldin og hélt í höndina á manni og kyssti.
Bjössi hugsaði alltaf fyrst og fremst um hin fjögur sem bjuggu með honum. Hann var ómögulegur ef einhvert þeirra var veikur eða í ferðalagi. Einu sinni, þegar Sigga var lögð inn á sjúkrahús, róaðist hann ekki fyrr en hann var búinn að fara að heimsækja hana og var það yndisleg upplifun að sjá hann tárast og knúsa Siggu sína að sér þegar hann sá að hún var hress og leið ekki illa. Það var númer eitt, tvö og þrjú hjá honum, að engum liði illa.
Bjössi átti líka einstaka fjölskyldu sem hann talaði mikið um. Við spjölluðum stundum á kvöldin þegar hann var búinn að hátta og kominn upp í rúm. Þá benti hann mér iðulega á myndir af fjölskyldu sinni og sagði mér nöfnin á þeim og hvað þau væru að gera. Hann elskaði að tala um Begga, bróður sinn og var alltaf mikil spenna þegar hann var að fara að hitta hann sem og foreldra sína og fjölskyldu.
Það verður skrítið að koma á Vesturbrún,  þar sem  enginn Bjössi  verður til að taka á móti mér með opinn faðminn. Hann Bjössi minn var yndislegur og hans verður sárt saknað.
Ég þakka Bjössa fyrir allt. Ég stend ríkari eftir að hafa fengið að kynnast þessum einstaka manni og mun hann alltaf eiga sérstakan stað í hjarta mínu.
Ég votta fjölskyldu Bjössa og öllum á Vesturbrún 17 mína dýpstu samúð.
Minningin um yndislegan og góðan mann lifir.

Rakel Margrét Viggósdóttir