Margrét Hjartardóttir fæddist 28. júlí 1913 á Skarði, Skarðsströnd, Dalasýslu. Hún lést á Hrafnistu í Reykjavík 27. ágúst 2009. Foreldrar hennar voru Ása Egilsdóttir f.17.6.1886 í Köldukinn, Haukadal, d.1.7.1931 og Hjörtur Jónsson f.14.12.1889 á Barmi, Skarðsströnd, d.22.2.1918. Systkini Margrétar voru Kristján f.23.9.1906, d.31.3.1998 (sammæðra), Benedikt f.4.2.1909, d.7.2.1990, Jóhanna f.24.8.1911, d.27.12.1998, Friðrik f.7.8.1912, d.24.12.1985 og Jón Sigurður f.12.9.1917, d.9.12.1996. Margrét giftist árið 1937 Steingrími Jóni Guðjónssyni umsjónarmanni Landspítalans en hann var fæddur á Litlu Brekku í Geiradal, 30.11.1906, d.25.7.1977, sonur hjónanna Guðjóns Jónssonar frá Hjöllum í Gufudalssveit f.8.2.1870, d.7.4.1949 og Guðrúnar Magnúsdóttur frá Tungugröf í Kirkjubólshreppi, Steingrímsfirði, f.21.1.1877, d. 2.11.1953. Margrét og Steingrímur eignuðust fjóra syni en þeir eru: 1) Jón Magnús f.1940, d.2007. Hann var kvæntur Ellu G. Nielsen en þau slitu samvistum. Börn þeirra: 1) Súsanna Mary f.1961. 2) Eva Margrét f.1962. 3) Jan Steen f.1963. 4) Reynir Harald f.1967.  5) Jón Steingrímur f.1970. Seinni eiginkona Jóns Magnúsar er Guðrún Hugborg Marinósdóttir. Börn þeirra: 1) Ása Gróa f.1977.  2) Fjóla f.1979, d.1979. 3) Þórir f.1982. Fósturdóttir Jóns Magnúsar er Rósa Jónasd. f.1971 sem Guðrún átti áður. 2) Helgi Hólmsteinn f.1944, kvæntur Valgerði Halldórsdóttur, börn þeirra: 1) Halldór f.1965, 2) Margrét Gróa f.1967. 3) Heiðrún f. 1970 4) Steingrímur f.1978. 5) Friðrik f.1981. 3) Þorsteinn f.1947. Hann var kvæntur Sigríði Önnu Þorgrímsdóttur en þau slitu samvistum. Börn þeirra: 1) Aðalheiður Lind f.1966. 2) Steinunn Björk f.1970. 3) Steingrímur Jón f.1975. 4) Skapti f.1977. 5) Margrét f.1977. 4) Guðjón f.1949. Hann var kvæntur Björgu Þorsteinsd. en þau slitu samvistum. Börn þeirra: 1) Margrét f.1975. 2) Berglind f.1980. 3) Steingrímur Jón f.1983. Guðjón kvæntist Margréti Hvannberg en þau slitu samvistum. Guðjón er kvæntur Jóhönnu Sigtryggsdóttur. Hennar börn eru Jara Kristina Thomasdóttir f.1976 og Stefán Peter Thomasson f.1978. Langömmubörn og langalangömmubörn Margrétar eru í dag 39 börn. Margrét ólst upp í Purkey á Breiðafirði hjá fósturforeldrum sínum, þeim Jóni Jónssyni bónda og konu hans Helgu Finnsdóttur frá Skorravík á Fellsströnd, Dalasýslu. Margrét fluttist um tvítugt til Reykjavíkur og réði sig í vist hjá hjónunum Þorsteini Jónssyni rithöfundi og Gróu Árnadóttur, til heimilis að Bárugötu 6. Auk húsmóðurstarfa sinna starfaði hún með manni sínum að rekstri Vogaþvottahússins í Gnoðarvogi í Reykjavík, sem þau ráku um árabil. Eiginmaður Margrétar, Steingrímur,  lést af slysförum þann 25. júlí 1977. Margrét tók virkan þátt í félagsstarfi eldri borgara, safnaðarstarfi Dómkirkjunnar og stuðningsaðstoð Rauða kross Íslands auk heimilishjálpar, svo lengi sem heilsan leyfði. Hún bjó síðustu æviár sín á Hrafnistu í Reykjavík, þar sem hún lést 27. ágúst s.l. Útför Margrétar fer fram frá Dómkirkjunni í dag, 4. september og hefst athöfnin kl. 15:00.

Ég minnist Margrétar hvað hún var blíð og fáguð í framkomu. Ég kynntist henni á áttunda ártugnum þegar við fjölskyldan bjuggum á Öldugötunni og hún á Bárugötunni. Hún hafði svo góða nærveru og fallegt bros. Hún sagði mér frá starfi sínu í Kvennanefnd Dómkirkjunnar og það var úr að hún kynnti mig fyrir þeim góðu konum og því frábæra starfi sem þær unnu. Við Margrét hittumst því á kirkjuloftinu í Dómkirkjunni á veturna þegar starf  nefndarinnar var þar með miklum blóma. Það var kraftur í konunum þarna og mikið af fallegum munum urðu til. Allt var þetta gert til fjáröflunar fyrir Dómkirkjuna og þeir voru vinsælir jólabasararnir sem haldnir voru í mörg ár. Eins og páskasalan, þar sem seldar voru dýrindis kökur og tertur,  ásamt handgerðum skrautblómum, sem Ingibjörg Guðmundsdóttir kenndi okkur svo meistaralega vel að gera. Þetta voru skemmtilegir tímar.

Þó langt sé liðið síðan ég sá Margréti síðast, þá sé ég hana ljóslifandi fyrir mér með sitt fallega andlit og hlýja bros og er þakklát fyrir að átt hana fyrir samferðakonu. Ég sendi aðstandendum innilegar samúðarkveðjur.

Kolbrún Þórhallsdóttir.