Guðlaugur var ættaður úr Svefneyjum á Breiðafirði og var sonur Jóns Ólafsssonar f. 5.9.1867 og Svanfríðar Sólbjartsdóttur f. 30.9.1903 , hann átti eina systur Bergþóru (Beggu) f.23.12.1946 nú búsetta í Bandaríkjunum. Guðlaugur lætur eftir sig einn son Svan Gunnar f. 21.8.1961 giftur Inese Babre f. 20.5 1968 en hann á 4 börn Öldu f. 18.1.1985 í sambúð með Jóhanni Fannari Óskarsson 11.5.1982 og Tinnu f. 28.4 1989 unnusti hennar er Kristinn Gísli Sigurjónsson f. 31.3.1989 úr fyrra hjónabandi en Alísu Helgu f. 12.3. 2003 og Mikaellu Rós f. 21.3.1993 úr núverandi sambúð. Guðlaugur vann við ýmis þjónustustörf ungur að aldri en fljótlega beindist áhugi hans að þeirri iðngrein sem hann starfaði lengst við . Hann lærði til rakara hjá Jóannesi rakara í Aðalstrætinu. Síðar fór Guðlaugur til Kaupmannahafnar og lærði hárgreiðslu hjá konuglega hárgreiðslumeistaranum á Strikinu. Þar að auki lá leið hans m. a. til Parísar og New York þar sem hann nam nýjustu vinnubrögð í faginu. Um 1960 kom hann til Íslands og vann óslitið til ársins 2006 á rakara- og hárgreiðslustofunni að Kirkjutorgi 6 fyrir utan eitt ár er hann starfaði í Keflavík.

Vinur minn og nágranni til næstum 20 ára er fallinn frá.  Svo litríkur og áberandi sem hann var á götum Kvosarinnar, sem hann vildi helst ekki yfirgefa, nema ef til stóð ferðalag til fjarlægra stórborga. En þótt Gulli, eins og hann var alla jafna kallaður, væri vinamargur og kunnur af mörgum, þá voru ekki margir sem höfðu aðgengi að persónulegri sögu hans. Ég verð honum ævarandi þakklát fyrir að treysta mér fyrir sér á þessum árum og veita mér innsýn í lífshlaup sem hann vildi því miður ekki að fært yrði á spjöld sögunnar í formi ævisögu.

Árin sem við deildum við Kirkjutorgið mótuðust af gagnkvæmum greiðum, eftirliti með leigjendum og köttum, lyklapössun og skiptum á snjómokstri fyrir kaffibolla eða líkjörsglas. Örfáum sólarvöfflum deildum við í bakgarðinum og ef svo bar undir tárum og hlátri.

Gulla heimsóttu margir, ekki bara á stofuna heldur líka á heimili hans. Hann var réttsýnn maður og einstaklega vandur að virðingu sinni. Trygglyndi hans við þá sem unnu trúnað hans og traust virtist óendanlegt og birtist best í því hvernig hann reyndist fyrrverandi tengdadóttur sinni í veikindum hennar fyrir nokkrum árum. Ekki síður var umburðarlyndi Gulla gagnvart fordómum og þekkingarleysi annarra eftirtektarvert.

Eitt sinn þegar við vorum á leið heim eftir leikhúsferð brást hann við ljótum athugasemdum drukkinna ungmenna og rudda við Austurvöll einfaldlega með því að sveifla hendinni á sinn sérstaka hátt, hnykkja ögn til höfðinu og segja eilítið mæðulega: Láttu þetta ekkert á þig fá. Mikið ósköp er vanþekking þeirra dapurleg.

Við fráfall Gulla ylja mér minningar um setur við eldhúsborðið og hádegisverði á Jónfrúnni þessi síðustu ár, en þó sérstaklega dansinn sem við stigum í bakgarðinum við Kirkjutorgið á fimmtugsafmæli mínu fyrir ekki svo ýkja löngu síðan. Gulli var þar kominn sem sérstakur heiðursgestur veislunnar og það var nákvæmlega þar sem kaflinn sem við skrifuðum í lífssögu hvors annars hófst og honum lauk.

Ég votta Svan og stelpunum innilega samúð mína og vænti þess að minningar um Gulla, síbrosandi með flott gleraugu, í litríkum skyrtum og hring á hverjum fingri, fylgi þeim og okkur vinum hans og kunningjum um ókomna tíð.

Hólmfríður Garðarsdóttir