Óskar Erlendsson fæddist á Akureyri 5. júní 1952. Hann lést á lyflækningadeild FSA 16. september 2009. Foreldrar hans eru Erlendur Snæbjörnsson, f. í Svartárkoti í Bárðdælahreppi 4. nóvember 1916, d. 12. júlí 2001, og Hrefna Jónsdóttir, f. á Pálmholti í Arnarneshreppi í Eyjafirði 24. maí 1926. Systkini Óskars eru Sólveig, f. 17. desember 1945, Jón, f. 16. júní, d. 22. apríl 1996, Guðrún, f. 23. nóvember 1949, Lovísa, f. 24. janúar 1951, Snæbjörn, f. 17. september 1956, og Hörður, f. 16. október 1965. Óskar giftist Hafdísi Steingrímsdóttur, f. 23. september 1956, d. 18. maí 2006. Synir þeirra eru: 1) Elvar, f. 29. janúar 1976, kvæntur Fjólu Björk Karlsdóttur, f. 2. febrúar 1981, dætur þeirra eru Ásta Þórunn, f. 13. nóvember 2002, og Ellý Sveinbjörg, f. 14. janúar 2009. 2) Erlendur Ari, f. 21. desember 1976, í sambúð með Örnu Bryndísi Baldvinsdóttur, f. 2. júlí 1985. Börn Erlends eru Hafdís Brynja, f. 18. apríl 2000, og Elvar Snær f, 13. nóvember 2004. Óskar útskrifaðist 1973 sem kjötiðnaðarmaður og tók svo eina önn í framhaldinu í Slakteriskolen í Roskilde, Danmörku. Hann starfaði í fjörutíu ár hjá Kjötiðnaðarstöð KEA sem síðar varð Norðlenska matborðið. Óskar var virkur í félagsstarfi Skíðafélags Akureyrar og unglingaráði Þórs í knattspyrnu, þar sem hann var m.a. formaður unglingaráðsins. Útför Óskars fór fram frá Akureyrarkirkju 22. september.

Ástkær tengdafaðir minn er látinn, og það langt um aldur fram. Ég minnist hans sem orkumikils og skemmtilegs manns sem hafði undurblítt og hlýtt viðmót. Manni sem gaf mikið af sér til allra þeirra sem umgengust hann og var vel liðinn bæði hjá fjölskyldu, vinum og samstarfsmönnum.

Þegar ég kom inn í fjölskylduna fyrir um 11 árum síðan var mér strax tekið vel og ávallt boðin velkomin á heimilið. Til marks um það var mér strax sagt að bjarga mér sjálf um það sem mig langaði í úr ísskápnum og að handklæðin voru geymd í skápnum undir vaskinum inni á baði. Tengdaforeldrar mínir sáu t.d. til þess að það væri  til gul mjólk handa nýju viðbótinni á heimilinu, þótt allir aðrir drukku bláa mjólk, svo hugulsöm og vinaleg voru þau. Matarboðin og brauðterturnar eru einnig ofarlega í huga. Betri kokkar eru vandfundnir, en tengdaforeldrar mínir voru bæði snillingar í matar-, sósu- og brauðtertugerð. Skemmtilegustu boðin voru þó jólaboðin með hangikjötinu, hvítu sósunni, kartöflunum og harðsoðnum eggjum - en það var eitt af þeim hlutum sem ég lærði að meta að hafa á matarborðum um jólin og þær stundir sem ég mun sakna einna mest.

Margt hefur á daga okkar drifið síðastliðin 11 ár. Góðir tímar og erfiðir tímar eru fastir liðir í fjölskyldulífi fólks og er hér engin undantekning á.

Tengdamóðir mín, eiginkona Óskars, var bráðkvödd fyrir þremur árum og ríkti mikil sorg í fjölskyldunni. Ég trúi því að þau hafi nú sameinast á himni og séu jafn hamingjusöm og þau voru hér á jörðu.

Ég kveð því í hinsta sinn kæran mann sem ég var svo lánsöm að fá að kynnast og er honum þakklát fyrir þann yndislega eiginmann sem ég á og þann kærleik sem hann gaf barnabörnum sínum.

Hvíl í friði og góða ferð.

Þín tengdadóttir,

Fjóla Karls.