Aðalbjörn Úlfarsson fæddist á Vattarnesi við Reyðarfjörð 21. október 1928. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Skjólgarði á Hornafirði mánudaginn 18. maí 2009. Foreldrar hans voru Úlfar Kjartansson, f. 26. nóvember 1895, d. 22. mars 1985, og María Ingibjörg Halldórsdóttir, f. 16. september 1897, d. 29. september 1939. Systkini Aðalbjörns voru: 1) Kjartan, f. 11. maí 1917, d. 12. maí 1917. 2) Halldóra Hansína, f. 2. október 1918, d. 20. ágúst 2000. 3) Jón Karl, f. 8. nóvember 1920. 4) Eygerður, f. 4. nóvember 1922, d. 15. maí 1982. 5) Indíana Björg, f. 27. apríl 1924, d. 25. september 2008. 6) Bjarni Sigurður, f. 28. júlí 1926. 7) Steinunn Sigurbjörg, f. 25. apríl 1931. 8) Kjartan Konráð, f. 10. júní 1935. 9) Hreinn, f. 29. september 1937. 10) María Úlfheiður, f. 21. júní 1939. Á unglingsárum lauk Aðalbjörn námi frá Alþýðuskólanum á Eiðum og seinna matsveinsnámi við Sjómannaskólann en líf hans varð síðan líf hins íslenska farandverkamanns sem flutti sig til milli verstöðva eftir því sem atvinnutækifærin gáfust. Oftast var hann þá við fiskvinnslu á Eskifirði eða í Vestmannaeyjum en hann var einnig matsveinn á fiskiskipum og starfaði um tíma á strandferðaskipum Skipaútgerðar ríkisins. Aðalbjörn flutti til Hornafjarðar árið 1973 og þar bjó hann eftir það og starfaði við frystihúsið á Höfn svo lengi sem heilsan leyfði. Ungur byrjaði Aðalbjörn að setja saman ljóð og vísur og ljóðagerð var alla tíð hans helsta tómstundagaman. Á síðustu dögum ævi sinnar sá Aðalbjörn draum sinn verða að veruleika er hann fékk í hendur fyrsta eintakið af ljóðabókinni sinni sem nú er á lokastigi vinnslu og mun koma út í sumar. Útför Aðalbjörns fer fram frá Hafnarkirkju í Hornafirði í dag, 23. maí, kl. 10.30.

Nú hefur hann Alli Bjössi frændi minn fengið hvíldina. Alli var sjöunda barn afa og ömmu á Vattarnesi við Reyðarfjörð. Það hlýtur að hafa verið oft erfitt að alast upp á svo afskekktum stað sem Vattarnes er, þó svo á nesinu hafi byggst upp nokkrir bæir sem höfðu mikið samband. Öll aðföng sjóleiðis á vetrum og systkinin send í póstferðir inn á Fáskrúðsfjörð á sumrin. Oft hafa Vattarnesskriðurnar vakið ótta barnanna vitandi um slys í þeim fyrr á árum. Mamma mín tók við æskuheimili sínu að Dagsbrún mjög ung þegar amma féll frá aðeins 42 ára gömul og búin að fæða 11 börn, þá var Alli Bjössi aðeins 11 ára og önnur fjögur yngri. Alli talaði um að mamma hefði haft heitar hendur og örugglega umvafði hún hendur hans eins og hinna systkinanna.

Minningar mínar um Alla Bjössa eru einungis hlýjar og góðar. Hann kom oft heim bæði þegar við bjuggum í Keflavík á Sólvallagötuna og síðar í Hafnarfjörðinn.

Alli frændi var þeim gáfum gæddur að hafa góða frásagnarhæfileika og kunnum við systurnar óspart að nýta okkur þá þegar hann kom að heimsækja okkur. Hann var varla kominn inn úr dyrunum þegar við kipptum honum inn til okkar og sögustundin hófst. Alltaf varð ný og ný saga til, aldrei sú sama og oftast voru þær af álfum, tröllum og einhverjum vættum að austan. Hann fékk áhugasama áheyrendur og efldist við hverja setningu.

Alli hlustaði mikið á harmonikutónlist og hélt upp á Toralf Tollefsen, norskan harmonikkuleikara. Tónlist var honum í blóð borin eins og svo mörgum í okkar fjölskyldu.

Alli var mjög ættfróður og alltaf var hægt að sækja í brunn hjá honum þegar um þau mál var að ræða. Hann aflaði sér upplýsinga um ættina sína og það er ómetanlegt að eiga það allt handskrifað af honum.

Ófá eru ljóðin sem hann setti saman á undanförnum árum og er mér afar minnisstætt erfiljóð sem hann samdi um móður mína og kom með á jarðarfarardegi hennar.

Alli varð áttræður í október og gladdist hann mikið yfir þeim degi, þeim sem heimsóttu hann og fyrir allt sem fyrir hann var gert þann dag. Genginn er góður drengur og frændi. Guð blessi minningu hans.

María Aðalsteinsdóttir.

Okkur langar með örfáum orðum að minnast yndislegs frænda og vinar, Aðalbjörns Úlfarssonar, eða Alla frænda eins og við kölluðum hann. Það er ómetanlegt að fá tækifæri til að kynnast eins heilsteyptum manni eins og hann var. Heiðarleiki, kærleikur og drenglyndi einkenndi hann alla tíð og hann bar hag fjölskyldu sinnar mjög fyrir brjósti. Alli var mjög trúaður maður og lifði samkvæmt því. Hann var einlægur í trú sinni og enginn efi var í hans huga hverjir biðu hans handan þessa lífs og myndu taka á móti honum þegar kallið kæmi. Þessi einlægi styrkur og ró sem einkenndu hann hefur áhrif á okkur hin og við áttum okkur á því hversu miklu máli það skiptir að tala um, bæði lífið og dauðann. Á liðnu hausti varð Alli áttræður og hélt glæsilega veislu fyrir vini og ættingja. Þetta var ógleymanleg stund, en það sem gerði hana óvenjulega var að vinir hans mættu með harmonikku og spiluðu og sungu ljóð eftir hann. Alli hafði alltaf unun af harmonikkutónlist og því var þetta kærkomin stund. Ljóðin hans skipta sennilega hundruðum og í vetur vann hann í að flokka þau og skipuleggja, því að hann ákvað að gefa út ljóðabók. Yndislega falleg bók sem við fengum tækifæri til að lesa saman og skoða. Þetta er ómetanlegt fyrir okkur öll. Við kveðjum kæran frænda með virðingu og þökk.

Þóra Jóna, Sigfús, Júlíus, Þórey og fjölskylda.