Linda Wendel fæddist í Reykjavík 10. janúar 1940. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Skógarbæ 28. júní 2009. Foreldrar hennar voru Andrés Wendel verkamaður, f. 6. júní 1907, d. 1. mars 1994, og Borghild Wendel (fædd Stöyva) saumakona, f. 26. apríl 1908, d. 19. janúar 1994. Linda giftist Agnari Ingólfssyni prófessor 25. desember 1962,. Börn þeirra eru 1) Torfi ljósmyndari, f. 14. október 1968, kvæntur Elvu Kristinsdóttir, f. 7. mars 1972. Börn þeirra eru Axel Örn, f. 25. maí 1994, og Anna Cara, f. 18. apríl 2002. Áður átti Torfi soninn Gunnar Pál, f. 2. janúar 1988, með Andreu Gunnarsdóttur. 2) Ingi líffræðingur, f. 11. janúar 1971, kvæntur Laura May-Collado, f. 7. maí 1971. Dóttir þeirra er Amelie Melkorka, f. 20. júní 2006. Systir Lindu er Marianna Wendel, f. 1943. Linda ólst upp í Reykjavík. Hún hóf nám í norsku við Háskóla Íslands að loknu stúdentsprófi 1960, en frá 1961 starfaði Linda sem meinatæknir, með nokkrum hléum, lengst af hjá Rannsóknastöðinni á Keldum og frá 1974 hjá Hjartavernd, uns hún varð að láta af störfum árið 2001 vegna heilsubrests. Um skeið starfaði hún sem aðstoðarmaður við Fuglafræðideild (Bird Division) Michigan-háskóla, og síðar sem aðstoðarmaður við Líffræðideild Massachusetts-háskóla. Auk þess vann Linda af og til sem aðstoðarmaður eiginmanns síns, bæði á Íslandi og í rannsóknarleiðöngrum hans til Alaska, Washington-ríkis, Chile, Argentínu, Nýja- Sjálands og Ástralíu. Síðustu árin hlaut Linda góða umönnun á dagvistunarheimilinu Hlíðarbæ, og frá 2007 á Hjúkrunarheimilinu Skógarbæ. Útför Lindu fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 3. júlí og hefst athöfnin kl. 13.
Leiðir okkar lágu saman á Rannsóknarstofu Hjartaverndar í aldarfjórðung. Vinnustaðurinn var ekki mannmargur og starfsliðið stöðugt. Þetta skapaði góðan heimilsanda og vináttu sem hefur reynst okkur gott veganesti. Í því átti Linda stóran skerf með ósérhlífni, hugmyndaauðgi og hlýrri nærveru. Það var sama hvort var í starfi eða leik, hún var alltaf boðin og búin. Starfið lék henni í hendi, rösk og úrræðagóð og einstaklega samvinnuþýð.
Linda var listunnandi og var tíður gestur á tónleikum og öðrum listviðburðum. Hún hafði áhuga á bókmenntum og kynnti fyrir okkur ýmsa höfunda sem höfðu hrifið hana. Þau hjón Linda og Agnar voru óvenju víðförul og hún fræddi okkur um merka staði og náttúrufyrirbrigði í fjarlægum heimsálfum. Við nutum í ríkum mæli færni hennar í matargerð bæði fyrir vinnustað og í glæsilegum heimboðum, að ógleymdum uppskriftunum hennar. Hún var nokkrum sinnum vinningshafi í matargerðarsamkeppni en það segir sína sögu. Þá voru ekki síðri hæfileikar hennar í fatasaumi. Smekkurinn brást ekki. Hann var persónulegur og agaður bæði í formi og litum. Fötin sín hannaði hún og saumaði að mestu leyti sjálf og bar þau glæsilega. Auk þess saumaði hún fyrir vini og ættingja. Hjálpsemi hennar var takmarkalítil. Heimili þeirra Agnars er einstaklega hlýlegt og smekklegt og allt fer svo vel. Þar er unun að koma. Þau hjón voru einstakir gestgjafar.
Margt mætti telja til að fylla út í myndina af Lindu. Væntumþykjan er minnisverðust. Það voru ólýsanlega sár vonbrigði þegar bera fór á óviðráðanlegum sjúkdómi, alsheimer, þegar hún var enn á besta aldri. Það var erfið reynsla að finna þessa öflugu öðlings manneskju hverfa smátt og smátt frá eigin vitund. Það skilur enginn að óreyndu.
Minningarnar um Lindu munu fylgja okkur og fyrir þær erum við þakklát.
Með innilegum samúðarkveðjum til Agnars, Maríönnu, Torfa, Inga og fjölskyldna þeirra.
Fyrir hönd Hjartaverndarhópsins.
Edda Emilsdóttir