Guðmundur Páll Þorvaldsson fæddist á Sólvangi í Hafnarfirði 30. september 1960. Hann lést á heimili sínu, Furuvöllum 14 í Hafnarfirði, 13. desember 2008. Foreldrar hans voru Jóna Júlía Valsteinsdóttir frá Ytra-Krossanesi við Akureyri, f. 28.7. 1920, d. 29.1. 2005, og Þorvaldur Ásmundsson frá Litla-Árskógssandi við Eyjafjörð, f. 19.7. 1920, d. 27.8. 1985. Systkini Guðmundar eru Henning, d. 2006, Birna Friðrika, Valdís Ólöf og Sigurbjartur Ágúst. Guðmundur kvæntist hinn 5. nóvember 1983 Helgu Aðalbjörgu Þórðardóttur hárgreiðslumeistara og tollfulltrúa, f. 27.8. 1963. Foreldrar hennar eru Sólrún Gunnarsdóttir og Þórður Pálmason. Börn Guðmundar og Helgu eru: 1) Þóra Dröfn, f. 25.1. 1984, unnusti Tryggvi Vilmundarson, f. 1.7. 1986, börn Þóru eru Jakob Darri og Markús Blær, og 2) Þórður Rafn, f. 7.3. 1989. Guðmundur lærði blikksmíði og starfaði við þá iðn í nokkur ár. Þá lærði hann húsasmíði hjá Henning og vann síðan með bræðrum sínum við húsasmíðar í fjölmörg ár og síðustu árin hjá Agli Árnasyni hf. Hann bjó lengst af í Hafnarfirði, að undanskildum árunum 1995 til 1998 þegar hann bjó ásamt fjölskyldu sinni í Danmörku. Útför Guðmundar Páls verður gerð frá Hafnarfjarðarkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.
Elsku pabbi minn... Ég trúi því ekki að það sé liðið hálft ár síðan þú yfirgafst þennan heim, ég hugsa til þín á hverjum degi og sakna þín alveg óendanlega mikið. Það er svo margt sem mig langar að segja, en ég veit ekki hvar á að byrja. Við gerðum alla tíð svo mikið saman fjölskyldan. Þegar við fluttum til Danmerkur, þú fórst út á undan okkur hinum, svo fannst mér og Tóta við vera svo lengi að keyra frá Köben og niður á suður Jótland að við héldum að við værum vilt, en þú sagðir „krakkar mínir, við erum alveg að verða komin heim í heiðardalinn“ eftir þessa ferð höfum við alltaf notað þessa setningu. Svo var það náttúrulega þegar ég varð 17 ára,og fékk bílprófið mitt, bað mamma mig um að skutla sér að sækja þig í vinnuna í Egil Árnason (á lagernum) og ég gerði það að sjálfsögðu, þegar við svo loks komum til þín baðs þú mig að labba með þér fyrir hornið og réttir mér bíllykla, ég var ekkert alveg að fatta strax hvað var í gangi og spurði hvort ég ætti ekki að skutla þér heim og láta þig svo fá lykilinn aftur. Þá sagðirðu við mig, nei elskan, þetta er þinn bíll, til hamingju með afmælið. Vá hvað ég varð alveg trítilóð, ég vissi ekkert hvert ég ætlaði. Svona get ég haldið áfram endalaus, með margar frábærar sögur.
En elsku pabbi minn, ég sakna þín alveg svakalega og Jakob Darri og Markús Blær eru alltaf að tala um þig, um leið og Markús sér myndina af þér, þá segir hann „afi“. Það er svakalega erfitt að vera eftir án þín, en við lærum að lifa með þessu, það er stór hluti hjarta míns sem er alveg dofinn og sá hluti mun ávallt vera það. Þú varst og ert okkur allt elsku pabbi, þú lifir áfram með okkur, ert alltaf hjá okkur og hjálpar okkur í gegnum lífið.
Dagur rís með hækkandi sól
og fjarar út að kveldi.
Guð faðir minn sem okkur ól
hefur slökkt á lífsins eldi.
Far þú í friði kæri minn
við fáumst við sorg í okkar taugum.
Nú kveðjum við þig í síðasta sinn
sölt tár vætla niður úr augum.
Hver þú varst vér ekki gleymum
þó sorgin víst sé stór.
Góðar minningar ávallt geymum
um ljúflinginn sem fór.
Þú efstur ávallt verður í
hug okkar og hjörtum.
Og veitir okkur styrk á ný
á degi sem á nóttum svörtum.
Á morgun kemur dagur anna
og jörðin söm við sig.
Í amstri dagsins við eigum sanna
minningu um þig
(Tryggvi Vilmundarson.)
Ég elska þig, elsku pabbi minn og þú munt alltaf lifa í minningu minni.
Þín dóttir
Þóra Dröfn Guðmundsdóttir