Halldóra Jónsdóttir fæddist í Neskaupstað 5. september 1941. Hún lést á Landspítalanum í Fossvogi 24. júní 2009. Foreldrar hennar voru Jón Sigurðsson, f. 1. nóvember 1911, d. 29. mars 1948, og Unnur Zoega, f. 25. maí 1915, d. 30. ágúst 2006. Systur Halldóru eru Guðný, f. 2. júlí 1934, Steinunn, f. 27. desember 1942, og Unnur, f. 12. júní 1945. Halldóra trúlofaðist 17. júní 1959 Gunnari Jónssyni vélstjóra, f. 18. maí 1941, og giftist honum síðan í Reykjavík 5. september 1962. Börn Halldóru og Gunnars eru: 1) Jón bifreiðastjóri, f. 14. mars 1960, fyrrverandi sambýliskona er Elín María Guðjónsdóttir, f. 10. ágúst 1962, dóttir þeirra er Halldóra bókmenntafræðingur, f. 6. september 1980. Sambýliskona Elísabet Kristmannsdóttir, f. 26. ágúst 1961. Börn þeirra eru Gunnar laganemi, f. 15. júní 1987, og Davíð, f. 26. júní 1995. 2) Sigurbjörg myndlistarmaður, f. 21 júní 1963, fyrrverandi sambýlismaður Ottó Sigurðsson múrari, f. 11. apríl 1954, dóttir þeirra er Ragnheiður sjúkraþjálfi, f. 8. maí 1987. Sambýlismaður er Vidar Borgersen lögfræðingur, f. 17. október 1963. 3) Steinar lögregluvarðstjóri, f. 12. febrúar 1969, kvæntur Kolbrúnu Axelsdóttur húsmóður, f. 20. apríl 1968, börn þeirra Elísabet Ýrr flugnemi, f. 21. október 1993, Steinar Gunnar, f. 28. júní 2000, og Tómas Axel, f. 9. nóvember 2001. Halldóra starfaði fyrst við Sjúkrahúsið í Neskaupstað. Síðan starfaði hún fyrir Póst og síma sem símadama í nokkur ár. Þá sinnti hún húsmóðurstörfum og uppeldi barna ásamt því að sinna tilfallandi vinnu. Halldóra starfaði sem skrifstofumaður við Lífeyrissjóð Austurlands til margra ára. Tók hún síðar próf sem læknaritari og starfaði í framhaldi af því sem læknaritari við Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað. Halldóra og Gunnar fluttust árið 1995 til Stöðvarfjarðar og síðar Breiðdalsvíkur og bjuggu þar í ein átta ár. Þar starfaði Halldóra við fiskvinnslu. Árið 2002 fluttust Halldóra og Gunnar aftur í Neskaupsstað. Halldóra stundaði hestamennsku af mikilli ástríðu ásamt eiginmanni sínum, börnum og barnabörnum. Fjölskyldan stundar m.a. hrossarækt sem Halldóra lagði grunninn að. Halldóra verður jarðsungin frá Norðfjarðarkirkju í dag, 3. júlí, og hefst athöfnin klukkan 14.
Við mamma vorum alla tíð mjög náin og var hún virkur þátttakandi í lífi mínu og fjölskyldu minnar allt fram til síðasta dags. Hún var alltaf til taks og hélt þétt utan um fjölskylduna. Mamma var sú sem ég gat alltaf leitað til og alltaf veitti hún mér þann stuðning og hvatningu sem þurfti á að halda. Mamma setti alltaf fjölskylduna í fyrsta sæti og alltof oft fram fyrir sjálfa sig. Í dauðastríðinu, meira að segja, huggaði hún okkur og hvatti til dáða á sama tíma og hún tók örlögum sínum með reisn. Þegar ég lít yfir farinn veg get ég ekki annað en minnst mömmu með djúpu þakklæti og ást. Það kemur svo margt upp í hugann, allt frá því ég var barn og hún hlúði að okkur systkinunum með einstakri umhyggju og ástúð. Eins hvatninguna og þann eldmóð sem hún smitaði mann af. Hún kenndi mér að umgangast dýrin af virðingu og var einstaklega hjálpsöm við að ala upp alla hundana, hestana og öll hin dýrin sem við höfum átt og annast. Samband mömmu við hundana hennar, Ræsu og Elvis, var líka einstakt og veittu þau henni mikla lífsfyllingu. Nú fær hún að hitta þau aftur og verða eflaust fagnaðarfundir. Þá minnist ég allra skemmtilegu ferðalaganna sem þau pabbi fóru með okkur systkinin í og síðar ferðalögin sem þau fóru í með mér og minni eigin fjölskyldu. Það var ómetanlegt að hafa þau með í þau ferðalög, enda ekki hægt að hugsa sér þægilegri og skemmtilegri ferðafélaga en mömmu og pabba. Mamma var mikill húmoristi og get séð fyndnu hliðarnar á lífinu. Hlóum við oft saman og höfðum gaman. Þegar ég var við nám fyrir nokkrum árum urðum við fyrir erfiðum áföllum og veikindum í fjölskyldunni. Við bjuggum þá fyrir norðan en ég var við nám í Reykjavík. Þá ók mamma strax norður um nóttina sem henni bárust fregnirnar. Tók hún þá við heimilinu í marga mánuði sem varð til þess að ég gat klárað nám mitt og snúið aftur heim að því loknu. Eins kom pabbi þegar hann var í landi og verður þeirra aðstoð seint að fullu þakkað. Þetta lýsir mömmu einstaklega vel og hennar hlýja persónuleika en ótal önnur svipuð dæmi eru til um hana og þau hjónin.
Mamma og pabbi kynntust ung og hófu snemma búskap. Þau giftu sig strax átján ára gömul. Þeirra hjónaband var innilegt og gott. Mamma var dugleg og samviskusöm og sannur vinur þeirra vina sinna sem gæddir voru sömu dyggðum. Hún ól okkur systkinin upp í kristinni trú, þó án allra öfga, þar sem hún lagði áherslu á samkennd og samhyggð og ekki síst í garð þeirra er minna máttu sín.
Þegar ég lít nú til baka sé ég að þessar dyggðir voru rauði þráðurinn í lífi mömmu. Hún lagði sig fram um að rækta fjölskyldutengslin, sinna barnabörnunum og okkur systkinunum og mökum okkar en hún gleymdi stundum sjálfri sér. Lífið var henni oft erfitt og háði hún sínar baráttur sem voru oft á tíðum erfiðar. Hún átti góða og trúa vini sem stóðu með henni á erfiðum stundum og eins öfugt en mamma var sífellt að aðstoða einhverja sem áttu bágt.
Mamma var laghent og listhneigð. Hún prjónaði mikið og vel og eftir hana liggja óteljandi fallegar flíkur og munir sem munu fylgja okkur um ókomna tíð. Hún kenndi meira að segja níu ára gömlum syni mínum að prjóna og eins að lesa en þau tvö voru einstaklega náin og samrýnd og mun pilturinn svo sannarlega búa vel að því í framtíðinni að eiga ömmu sem kennara, sálusorgara og besta vin. Mamma var góður hestamaður og lagði hún grunninn að þeirri hrossarækt sem við fjölskyldan fáumst við í dag. Hún var stolt af hestunum sínum og hún ljómaði þegar hún fékk myndirnar af síðasta móti þar sem Elísabet Ýrr, barnabarn hennar, vann mikil afrek á hryssunni Von, sem mamma átti. Hún fylgdist stolt með barnabörnum sínum og hvatti þau óspart til góðra verka. Hún var líka svo stolt af fyrsta barnabarnabarni sínu, honum Þorvaldi litla og talaði mikið um hann. Mamma sýndi líka fósturbörnum okkar mikla hlýju og umhyggju og kom fram við þau eins og sín eigin barnabörn. Eiga þau henni margt að þakka. Mamma las mikið og smitaði mig strax af því er ég var á ungaaldri. Við skiptumst mikið á bókum og ræddum innihald þeirra. Mamma hafði ákveðnar skoðanir en var málefnaleg og réttsýn. Hún var ekki bara góð mamma heldur líka góður vinur.
Veikindi mömmu báru brátt að en einkenndust svolítið af röngum sjúkdómsgreiningum og sinnuleysi þeirra er leitað var til í upphafi. Það vekur óneitanlega hjá manni áhyggjur af því hvernig málum er háttað varðandi heilbrigðismál á Austurlandi. Það hefði svo sem litlu getað breytt í þessu tilfelli enda veikindin það alvarleg að örlögunum varð ekki hnikað. Þó erum við innilega þakklát fyrir þá umönnun sem mamma fékk, bæði á Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað sem og á Lungnadeild Landspítalans í Fossvogi. Eins erum við afskaplega þakklát fyrir þá auðsýndu samúð og stuðning sem sveitungar okkar og vinir hafa sýnt okkur fjölskyldunni á þessum erfiðu tímum.
Það lykillinn að hamingju og dyggð að elska örlög sín. Þetta spakmæli kemur upp í huga mér eftir að hafa fylgt móður minni síðustu skrefin í þessu lífi og kvatt hana við dánarbeðið. Sú reisn, það æðruleysi og kjarkur sem mamma sýndi sannfærði mig enn frekar um hversu sterkur persónuleiki hún var og eins hversu mikil áhrif hún hafði á sjálfan mig og þá stefnu sem ég valdi mér í lífinu. Það hvetur mig enn frekar áfram til góðra verka. Það kenndi mér líka að það er óþarfi að óttast dauðann sem óneitanlega er hluti af lífinu. Mikið voðalega á ég eftir að sakna þín mamma mín en ég veit að þú ert í góðum höndum. Þakka þér fyrir allt.
Steinar Gunnarsson
Samleið okkar varaði í rúmlega 60 ár. Það hefði verið gaman ef sú tækni sem til er í dag hefði verið til þá, ekki aðeins kassamyndavélar sem voru þó til á fæstum heimilum. Þá hefði ég örugglega síðustu daga skoðað myndirnar af sporum okkar í sandinum og leik í fjörunni. Hann var ekki fjölmennur krakkaskarinn í miðbænum" en hann var samheldin og samhentur. Fjarlægðin á milli heimilanna var ekki löng og leikvangurinn milli fjalls og fjöru og margt var brallað. Hátíðarstundir voru þegar við fengum að fara í bíó og alltaf var Roger Rogers og Trigger uppáhalds myndirnar. Enda voru leikir okkar tengdir því önnur okkar hestur og hin knapi. Kannski var það í þessum leikjum okkar að þú varst svona mikill hestaaðdáandi!
Ekki voru síðri samskipti okkar við sjóinn, bátar af öllum tegundum, prammar, árabátar og skektur, eiginlega allt sem flotið gat notuðum við til að veiða á. Stundum tókum við bátana ófrjálsri hendi og fengum þá bátabann næstu skipti.
Ég held að óhætt sé að segja að ekki hafi borið skugga á vináttu okkar þó langt væri frá og við værum sammála um alla hluti; ég gæti þó nefnt einn hlut sem ekki varð þó óvinskapur en það var þegar þið stelpurnar vilduð leika með dúkkulísur. Að klippa út úr haframjölspökkum karla og konur, klippa svo út föt á þessar fígúrur úr ýmsum tímaritum. Ég var sennilega aldrei góð í hlutverkaleik, en mikið gátum við lesið saman og þær voru ófáar stundirnar sem við eyddum á háloftinu Steininum við lestur.
Með kvæði GB þakka ég þér elsku Dóra mín alla vináttuna sem varaði alltof stutt.
Elsku Gunnar, Jonni, Sigurbjörg, Steinar og fjölskyldur, hugur minn er hjá ykkur og bið þann sem stjórnaði að mínu mati alltof skjótri brottför minnar elskulegu vinkonu að hugga ykkur.
Vinur þinn er þér allt
Hann er akur sálarinnar, þar sem samúð þinni er
sáð og gleði þín uppskorin.
Hann er brauð þitt
og arineldur
Þú kemur til hans svangur og í leit að friði.
Þegar vinur þinn talar,
þá andmælir þú honum
óttalaust, eða ert honum samþykkur
af heilum hug
Og þegar hann þegir,
þá skiljið
þið hvor annan
Því að í þögulli vináttu
ykkar verða allar
hugsanir,
allar langanir og
allar vonir ykkar til
og þeirra er notið
í gleði, sem krefst einskis
Kahil Gibran.
Kveðja þín,
Elma.
Það voru slæm tíðindi þegar ég heyrði að Dóra frænka væri orðin talsvert lasin, en ekki óraði mig fyrir því að hún ætti svo stutt eftir og raun bar vitni. Hún háði stutta en hetjulega baráttu við illvígt mein og tók örlögum sínum af mikilli reisn í faðmi fjölskyldu sinnar þann 24. júní sl.
Mig langar að minnast frænku minnar í örfáum orðum enda hafði hún oft passað mig sem lítinn gutta. Fyrst kemur upp í hugann hvað hún Dóra var skemmtileg. Sérstaklega þótti manni gott að koma til Dóru og Gunnars, því þá fékk maður gjarnan Cocoa Puffs í morgunmat. Dóra tók lítinn frænda sinn undir verndarvæng sinn þegar Steinar varð aðeins of eigingjarn á mömmu sína og passaði upp á mig þegar sjónvarpið var að sýna of ljótar bíómyndir.
En Dóra var í mínum augum skemmtilegur grallari. Hún hneykslaðist oft skemmtilega eins og þær systurnar allar en aldrei var langt í brosið. Mér er minnisstætt þegar hún sendi mig inn í herbergi til Steinars og bað mig að sækja þangað mjög skemmtilega bók, í gylltri kilju. Ég fór og sótti bókina en sá strax að hún var slegin málmi sem líktist gulli og framan á henni var mynd af fáklæddri konu. Ég í sakleysi mínu opnaði bókina áður en ég færði Dóru hana og fékk samstundis rafstraum. Eftir nokkrar tilraunir heyrði ég hláturinn í Dóru og fór sjálfur að skellihlæja yfir heimskunni í mér. En þetta var henni líkt.
Nú er dagurinn á enda kominn hjá henni frænku og það veit ég að henni hefur verið tekið fagnandi í faðmi foreldra sinna og vina á hinum staðnum. Guð blessi minningu hennar. Gunnari, Jonna, Sigurbjörgu, Steinari og aðstandendum þeirra votta ég mína dýpstu samúð.
Kári Kárason