Sigurður Jóhann Ringsted fæddist að Sigtúnum á Kljáströnd í Höfðahverfi í Grýtubakkahreppi í S-Þingeyjarsýslu 29. október 1921. Hann lést á dvalarheimilinu Hlíð á Akureyri 6. júní sl. Foreldrar hans voru Sigurður Gísli Ringsted skipstjóri að Sigtúnum á Kljáströnd, f. 1.1. 1880, d. 30.11. 1950, og Guðríður Gunnarsdóttir húsfreyja að Sigtúnum, f. 6.9. 1881, d. 9.1. 1967. Sigurður Gísli var sonur Jóhanns Sigurðar Ringsted sjómanns á Seyðisfirði, f. 16.12. 1846, d. 11.10. 1896, og konu hans Sigríðar Gísladóttur, f. 22.10. 1845, d. 22.9. 1923. Guðríður var dóttir Ólafs Gunnars Gunnarssonar útvegsbónda í Görðum í Höfðahverfi, f. 12.5. 1848, d. 1.12. 1927, og konu hans Önnu Petreu Pétursdóttur Hjaltested, f. 30.8. 1846, d. 27.11. 1937. Systkini Sigurðar: Guðmundur, f. 17.10. 1911, d. 1937. Baldvin Gunnar, f. 23.10. 1917, d. 1990, kona hans var Ágústa Sigurðardóttir (látin), þau eignuðust 5 börn. Haraldur, f. 5.10. 1919, maki Jakobína Stefánsdóttir, þau eiga 3 börn. Elín, f. 17.7. 1924, maki Magnús Daníelsson, þau eiga 6 börn. Sigurður kvæntist 9.1. 1949 Huldu Haraldsdóttur, f. 11.2. 1930. Foreldrar hennar voru Haraldur Jónsson málarameistari á Akureyri, f. 3.4. 1906, d. 8.9. 1984, og Dagmar Jensdóttir, f. 9.7. 1911, d. 17.12. 1995. Fósturmóðir Huldu og eiginkona Haraldar var Anna Guðný Jensdóttir, f. 21.5. 1905, d. 24.9. 1980. Börn Sigurðar og Huldu eru: 1) Sigurður Gísli, f. 1.3. 1949, maki Sigrún Skarphéðinsdóttir, þau eiga 2 börn og 8 barnabörn. 2) Haraldur Gauti, f. 18.12. 1950, hann á þrjú börn og 5 barnabörn. 3) Guðmundur Geir, f. 29.12. 1951, hann á 2 börn og 3 barnabörn. 4) Anna Guðný, f. 19. júlí 1954, maki (látinn 2008) Sveinn Þorgeirsson, þau eiga 2 börn. 5) Pétur Gunnar, f. 25.1. 1960, maki Sigríður Þórólfsdóttir, þau eiga 4 börn. 6) Huld, f. 2.8. 1962, maki Hallgrímur Guðmundsson, þau eiga 7 börn. Sigurður var bankaritari hjá Landsbanka Íslands á Akureyri 1946-1958 og aðalféhirðir þar til 1965. Hann var útibússtjóri Iðnaðarbanka Íslands á Akureyri frá stofnun útibúsins 1965 til 1986 og formaður framkvæmdanefndar íbúðabygginga fyrir aldraða á Akureyri 1987-1991. Sigurður sat í kjörstjórn Akureyrar 1956-1988, í stjórn Síldarverksmiðjunnar í Krossanesi 1985-1991, og formaður stangaveiðifélagsins Flúða á Akureyri 1972-2003. Sigurður var virkur félagi í Lionsklúbbi Akureyrar frá 1962 og umdæmisstjóri 109-B 1978 og 1979, og hlaut hann Melwin Jones heiðursverðlaun, Lions International 1988. Sigurður gekk í Frímúrararegluna 1958 og gegndi þar ýmsum trúnaðarstörfum. Útför Sigurðar fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 22 júní, kl. 13.30.

Kveðja frá Lionsklúbbi Akureyrar.

Nú er hann allur aldursforseti Lionsklúbbs Akureyrar, Sigurður Ringsted, sem fæddist 29. október 1921 og lést 6. júní sl. Hann gekk í klúbbinn 19. janúar 1961 og hefur því verið lengst starfandi allra félaga í klúbbnum okkar fyrr og síðar.

Sigurður gegndi embættum formanns og gjaldkera í klúbbnum og starfaði ennfremur í hinum ýmsu nefndum. Hann átti frábæra fundarsókn og var virkur félagi fram á síðasta starfsár.

Starfsárið 1978-1979 var hann umdæmisstjóri í Lionsumdæmi 109-B.

Á árinu 1987 var hann sæmdur mesta virðingartákni hreyfingarinnar, Melvin Jones orðunni, fyrir velunnin störf í þágu Lionshreyfingarinnar.

Nú kveðjum við einn af okkar bestu klúbbfélögum með söknuði og um leið sendum við eftirlifandi konu hans, Huldu Haraldsdóttur, og öllum afkomendum þeirra okkar innilegustu samúðarkveðjur.

F.h. Lionsklúbbs Akureyrar

Páll Guðlaugsson, formaður.