Óskar Ingólfsson fæddist í Hafnarfirði 10. desember 1954. Hann andaðist á gjörgæsludeild Landspítala 10. ágúst 2009. Foreldrar hans eru Anna Dóra Ágústsdóttir, f. 13.11. 1930 og Ingólfur Halldórsson, f. 8.1. 1930. Systur Óskars eru Jóna, f. 3.9. 1959 og Ólöf María, f. 12.6. 1962. Óskar var kvæntur Noru Sue Kornblueh, f. í Huntington í New York-ríki í Bandaríkjunum 18.7. 1951, d. 2.5. 2008. Synir þeirra eru Mikhael Aaron, f. 28.2.1982 og Aron Ingi, f. 19.4. 1988. Óskar lærði á klarinett hjá Vilhjálmi Guðjónssyni og Gunnari Egilson í Tónlistarskólanum í Reykjavík 1970-1974. Stúdent frá Menntaskólanum við Hamrahlíð 1974. Framhaldsnám við Royal College of Music í London hjá John McCaw. Starfaði við tónlistarkennslu í ýmsum tónlistarkólum og stundaði hljóðfæraleik í Sinfóníuhljómsveit Íslands, Íslensku óperunni, Þjóðleikhúsinu og Borgarleikhúsinu frá 1980. Frumflutti fjölda íslenskra tónverka. Deildarstjóri tónlistarsviðs RÚV frá 1997-2003. Forstöðumaður Zen á Íslandi-Nátthaga frá 1999 og tók prestsvígslu í því félagi í október 2008. Í stjórn Félags íslenskra tónlistarmanna 1993-1995. Framkvæmdastjóri Norrænna músíkdaga í Reykjavík 1995-1996. Í stjórn Listahátíðar í Reykjavík frá 1995-98. Formaður í verkefnavalsnefnd Sinfóníuhljómsveitar Íslands 2004-2007. Tók við stöðu aðstoðarskólastjóra Tónlistarskólans í Reykjavík haustið 2003. Útför Óskars verður gerð frá Fossvogskirkju í dag, 20. ágúst, og hefst athöfnin klukkan 13.

Oftar en ekki virðist lífið líkast fjarstæðukenndum draumi sem maður muni dag nokkurn vakna upp frá í öðrum og skiljanlegri heimi. Fregnin af skyndilegu og ótímabæru andláti góðs vinar míns til margra áratuga, Óskars Ingólfssonar, orkaði þannig á mig.
Fyrstu minningar mínar af Óskari eru úr tónlistarsögutímum í Tónlistarskólanum í Reykjavík snemma á áttunda áratug síðustu aldar. Ég tók eftir manni, nálægt mér í aldri, sem stafaði af einhverju upphöfnu og skáldlegu. Ári eða tveimur síðar, á vormánuðum 1974, hófust svo kynni okkar. Hann hafði brennandi áhuga á tónlist og skáldskap og ræddi um hvort tveggja á heillandi hátt. Aldrei var tilgangur lífsins langt undan og hvernig hægt væri að ná þeim markmiðum sem okkur hefðu verið sett af forsjóninni. Um það hafði hann jafnan hugmyndir og fyrirætlanir þótt þær tækju nokkrum breytingum þegar árin liðu eins og verða vill.
Að hausti hvarf Óskar til náms á Englandi næstu fjögur árin. Við hittumst helst á sumrin, yfirleitt ekki nema einu sinni eða tvisvar hvert ár. Oft var ég þá gestur á heimili foreldra Óskars í Keflavík. Gjarnan sátum við ásamt fjölskyldu hans og ræddum eilífðarmálin og allt þaðan af skemmra heilu næturnar og fram á miðjan morgun. Síðan var farið í göngu út í hinn bjarta sumarmorgun; tilveran var full af eftirvæntingu, krafti, áformum og vondraumum, eitt endalaust tilhlökkunarefni. Þetta eru ógleymanlegar stundir og gáfu hugblæinn í vináttu okkar æ síðan. Þar var Óskar sumarmaður.
Óskar kom heim að loknu klarínettunámi sínu 1978. Þá var ég farinn af landi brott til náms og starfa í um áratug. Við sáumst því ekki oftar en áður en vinátta okkar hélst söm og jöfn og við héldum sama munstrinu eftir að ég var alkominn heim. Vinátta hans var traust og það var alltaf gott og sérstakt að hitta hann. Og ekki breyttist það eftir að hann eignaðist elskulega eiginkonu sína Nóru heitna og synina tvo, en fjölskyldan var honum einstaklega dýrmæt og hann hafði hana í hávegum.
Óskar bar með sér mjög hlýjan andblæ, nokkuð sem ég kannaðist við úr foreldrahúsum hans. Hann var glaðvær í viðmóti og hafði næmt auga fyrir því skoplega í mannlífinu. Gat hann beitt fyrir sig hárfínni en hressandi stríðni þegar sá gállinn var á honum. Hann var maður stórra og ólmra tilfinninga sem honum tókst þó að fara mjög vel með og var alltaf að aga. Óskar hafði ríka réttlætiskennd sem náði langt út fyrir hann sjálfan og tók hann það nærri sér þegar henni var misboðið þótt hann léti lítið á því bera. Hann var djarfur að leggja út á nýjar brautir þegar honum fannst það tímabært. Að því leyti var hann breytilegur og nokkuð draumkenndur, líkt og lífið sjálft. En það sem hann tók sér fyrir hendur hellti hann sér út í af miklu afli á meðan á því stóð og hafði fyrir því ríkulegan persónulegan metnað. Engu að síður var á sama tíma rými í hjarta hans til að víkja óbeðinn góðu að öðrum, rétta hjálparhönd og láta gott af sér leiða. Þess fékk ég að njóta alla okkar vinskapartíð. Og svo er um marga fleiri.
Þó að Óskar hafi ekki eytt jafn mörgum stundum í klarínettuna undanfarinn hálfan annan áratug og var áður, klarínettan hafi stundum vikið alveg fyrir öðrum önnum, þá er ekki vafi í huga mínum að vinur minn var klarínettuleikari fyrst og fremst. Ég átti allt eins von á því að öllum að óvörum mundi lúðurinn hans dásamlegur vera aftur kominn í forgang og Óskar blása sem aldrei fyrr. Ótal skipta minnist ég þar sem hann spilaði undravel. Þar skipar sérstakan sess er hann flutti ásamt vinum sínum klarínettukvintett Mozarts á vegum Kammermúsíkklúbbsins. Flutningurinn var yndislegur og sýndi svo ekki var um að villast hvers Óskar var megnugur. Ég átti þá ósk að fá að heyra hann af og til leika þetta og önnur dýrðarverk klarínettunnar. Þeirri ósk varð mér því miður ekki af, frekar en svo mörgu öðru í þessum hverfula heimi.
Þegar góður og gegn maður verður bráðkvaddur langt um aldur fram er það ómældur skaði fyrir samfélagið og óvegin sorg fyrir þá er næst honum standa. Andlát Óskars er enn sárara í ljósi þess áfalls sem hann og fjölskylda hans hafði nýverið staðið af sér. Í Óskari fór maður fullur af lífsvilja og þrótti og jafn staðráðinn í að gegna sínum miklu skyldum og hugðarefnum sem hann hafði nokkru sinni verið. Hans verður sárt saknað. En söknuðurinn er vog á gildi þess gengna. Fyrir það ber að þakka.
Við Anna og börnin vottum sonum hans og fjölskyldu allri okkar dýpstu samúð og biðjum almættið að vaka yfir þeim.

Guðmundur Hafsteinsson.

Það var eins og drægi fyrir sólu þegar okkur hjónum bárust þau hörmulegu tíðindi að kær vinur og samstarfsmaður til margra ára, Óskar Ingólfsson klarinettleikari, hefði látist þá um morguninn eftir að hafa hnigið fyrirvaralaust niður kvöldið áður. Nú leita minningarnar fram, bjartar minningar um hlýtt bros, glettnisleg augnatillit, alúð og áhuga og umfram allt jákvætt hugarfar manns sem tókst á við hvert verkefni fullviss um að hægt væri að leysa það vel.

Bryndís kona mín minnist hans ekki síst sem skemmtilegs og úrræðagóðs samstarfsmanns við Tónlistarskólann í Reykjavík, en einnig sem góðs félaga úr Sinfóníuhljómsveitinni og Þjóðleikhúsinu.

Minningar mínar um Óskar tengjast flestar leikhúsinu enda hef ég sem tónlistarstjóri aftur og aftur leitað til hans þegar sett hefur verið saman hljómsveit. Leiðir okkar lágu fyrst saman fyrir meira en tuttugu árum þegar Óskar tók sæti síns góða kennara, Gunnars Egilson, í litlu hljómsveitinni í Landi míns föður aftast á sviðinu í Iðnó. Næst minnist ég skemmtilegrar samvinnu okkar og nokkurra fleiri tónlistarmanna þegar við frumfluttum balletttónlist Þorkels Sigurbjörnssonar, Af mönnum, með Íslenska dansflokknum í Gamla bíói á Listahátíð sumarið 1988. Síðan höfum við margoft setið saman í gryfjunni í Þjóðleikhúsinu og uppi á sviðinu og tekist á við margs konar tónlist svo sem My Fair Lady, West Side Story og Dýrin í Hálsaskógi. Alltaf var Óskar til staðar, traustur og skapgóður. Leikhúsgestir nutu leiftrandi skemmtilegs klarinettleiks hans, félagarnir smituðust af leikgleðinni og hljómsveitarstjórinn fékk uppörvandi bros þegar þess var þörf. Sérlega minnisstætt er samstarf okkar í Fiðlaranum á þakinu. Þar mæddi mikið á hljóðfæraleikurunum sex og hlutverk klarinettleikarans var afar krefjandi og skemmtilegt. Það jók líka á ánægjuna að eiginkonur okkar Óskars voru með okkur í hljómsveitinni, mín fiðluleikarinn og hans sellóleikarinn.

Ég gleymi ekki hvað það gladdi mig á sínum tíma þegar ég frétti að Óskar og Nora Kornblueh sellóleikari væru að rugla saman reitum. Svo skemmtilega vildi til að nokkrum árum áður hafði ég kynnst Noru úti í Boston þegar vinkonur okkar, Helga Þórarinsdóttir og Laufey Sigurðardóttir, sem voru í hljóðfæranámi hjá sama kennara og Nora, settu saman frábæra kammersveit fyrir mig, byrjandann í hljómsveitarstjórnarnámi, til að spreyta mig á. Í þeim hópi var líka annar sellóleikari, Richard Talkowsky, sem líkt og Nora settist hér að og gaf okkur af list sinni í mörg ár. Richard var mikill vinur þeirra hjóna og það er erfitt að skilja að þau hafi nú öll þrjú verið hrifin frá okkur á aðeins tveimur árum.

Eftir nokkra daga mun Þjóðleikhúsið óma af hljóðfæraleik og söng þegar fjör færist í Kardemommubæinn á ný. Þá verður Óskars sárt saknað úr Bæjarhljómsveitinni.

Við Bryndís munum ekki gleyma brosinu hans Óskars. Við sendum sonunum tveimur, Mikhael Aaroni og Aroni Inga, sem og öðrum ættingjum hugheilar samúðarkveðjur.

Jóhann G. Jóhannsson tónlistarstjóri Þjóðleikhússins.

Sjaka-sjaka er orðið sem við notum þegar músíkin gneistar. Hún ryður sér fram, allri kurteisi sleppt, takturinn ágengur og tónninn logandi, fer alla leið, til skiptis bullandi heit og nístingsköld, kolsvört eða flennihvít, alltaf við það að springa. Ekkert miðjumoð, ekkert aðeins eða til hálfs. Nei sjaka-sjaka er allur pakkinn, ekkert undanskilið.

Þannig líka spilar Óskar þegar hann er bestur, hlaupandi öfganna á milli, frá hæstu tónum niður á þá dýpstu, úr því mýksta yfir í það harðasta, úr því undurveika yfir í það sterkasta, allt á örskotsstundu. Hvernig hann fléttar línurnar þar á milli er undrunarvert, og svo bara glottir hann þegar hann er búinn: Var það ekki svona sem þú vildir það?

Heyri hann galdra mig til sín í Rotundum hans Snorra á miðnæturkonsertinum í Háskólabíói, eða fljúga á milli himinskauta í Rauðum þræði þegar við vorum með Dansflokknum í Þjóðleikhúsinu. Þvílík keyrsla, drengur! Aftur og marginnis fékk ég að skrifa fyrir hann, og það þurfti aldrei nein orð. Hann vissi alltaf hvernig maður vildi að þetta hljómaði. Fraseringarnar, blæbrigðin, stígandin, úrlausnin, allt þetta var honum bara eiginlegt, nóg bara að láta hann fá nóturnar, hann bara skildi þetta.

Tríóið þeirra Nóru, Skara og Snorra var einstakt, átti sér engan líka. Þau kölluðu það Kaldalónstríóið, fyrst í gríni en svo festist það. Var svo heppinn að fá að fylgja þeim á hljómleikaferðalagi í Svíþjóð. Göran Bergendal skipulagði þetta og kynnti tónlistina. Ekkert smá prógramm: Brunnu beggja kinna björt ljós eftir Guðmund Hafsteins, Fremur hvítt en himinblátt eftir Atla Heimi og Tríóið mitt, skrifað sérstaklega fyrir hópinn. Allt hörku krefjandi músík, spannar frá kvikindislega flóknum kontrapunkti yfir í svartnættis sjaka-sjaka. Sem betur fer þó fyrir áheyrendur spilaði Nóra fallega Dansinn hans Snorra á milli verka, falleg og geislandi, undursamlega mjúkt.

Fékk Óskar með mér í leikhúsið þegar ég vann þar sem mest, oftast líka Nóru ef þau höfðu pössun fyrir strákana. Pétur Gautur, Stór og smár, Marmari, Rhodymenia, gæti nefnt fleira. Músíkin yfir og allt um kring, klarínettið og sellóið í svífandi línum, tvinnast um tónsviðin, núna meira sundur en saman, en svo strax aftur meira sem eitt en tvö. Nóra gefur hláturinn og gleðina, Óskar spennuna og kraftinn. Þau tvö, þau tvö saman, fallegasta parið.

Veit eiginlega ekki hvernig þetta orð varð til, bara hefur rétta hljóminn þegar skýrt er kveðið að: Sjaka- sjaka. Nóra og Snorri eru með okkur í þessu, vita nákvæmlega þegar eitthvað nær því að vera sjaka-sjaka. Erfitt að kveðja, það er bara ekki hægt, samt veifar maður á ströndinni, horfir á eftir farinu yfir sundið, veit að verður tekið á móti þér í mjúkum faðmlögum. Sjaka-sjaka, blítt, viðkvæmt, alltaf og alltaf. Vertu sæll, kæri vinur.




Hjálmar.

Sæl, elskan, (með sérstakri áherslu á skan"), hvað segirðu?" Þannig heilsaði Skari. Alltaf. Kveðjunni fylgdi stórt bros og opinn faðmur. Alltaf. Og ég hélt að það yrði alltaf þannig. Óskar sá í gegnum mann og las af næmni það sem ekki var hægt að setja í orð. Fyrir rúmum 30 árum var Skari við nám í London. Við hittumst yfir síld á Hótel Borg í jólafríinu hans á Íslandi og hann sá að vinkonan átti í erfiðleikum með að ákvarða næsta skref í lífinu. Þarna var ákveðið að stúlkan yrði að fara og læra í London. Óskar var ekki að tvínóna við hlutina heldur skrautritaði lofgerðarbréf í tónlistarskóla borgarinnar þannig að henni stóðu allar dyr opnar. Já, Skari sendi mig til London og fyrir það verð ég eilíflega þakklát. Ég deildi fyrsta árinu í yndislegum félagsskap hans og Snorra Sigfúsar. Bíó langt fram á nætur, chicken vindaloo svo sterkt að svitinn rann í dropum ofaní diskana (indverski þjónninn kom reglulega að borðinu okkar og spurði kankvís: 'ot enough"?), endalausar pælingar á St. Luke's Road, lófalestur, I Ching, Requiem eftir Brahms.

Á sameiginlegri vegferð eftir nám eru margar ógleymanlegar stundir, þ.á.m. þegar við elduðum ásamt fjölskyldunum nokkrar einstakar máltíðir saman, en þar reis ferill Óskars hæst þegar hann var sendur út að tína hundasúrur í salatið. Hann leit á þann verknað sem einn af kúlínarískum hápunktum sínum enda oft vitnað til hans síðan. Síðasta samverustundin var á Reykjavíkurveginum í júlí sl., ég fékk ómótstæðilegan kaffisopa úr nýmöluðum baunum og var leyst út með súkkulaði frá Berlín. Þeirri stund mun ég aldrei gleyma ekki frekar en öllum hinum.

Elsku Óskar, takk fyrir samfylgdina. Innilegar samúðarkveðjur til sonanna, fjölskyldunnar allrar og vina. Hvíl í friði, minn kæri.

Anna Guðný Guðmundsdóttir

Ég feta einstigið
gegnum tímalausan tíma
stend kyrr
umvafinn
laufkrónum trjánna

Hneigi höfuð
í átt til eikarinnar
sjö sinnum
skynja styrk hennar
og aldagamla visku

Held áfram
hiklaust
feigðarför
yfir steinlagða brúna
gegnum dyngju drekans

Fossinn fellur hvítari
steinninn svartari
söngur drekans
drynur í eyrum

Ég fylgi hinni fornu slóð
inn í helli einsetumannsins
sit kyrr
tvær ár
tærar
flæða niður fjallshlíðar
andlits sem hrópar
hljóðlausu hljóði

Fossinn fellur hvítari
steinninn svartari
söngur drekans
drynur í eyrum

Á meðan jörðin skelfur
og himnarnir hrynja
leggst ég niður
líkt og tígurinn
sem um fjöllin flakkar
og fel mig
Guði

Úr ljóðasveignum: Hellir einsetumannsins

Sverrir Guðjónsson.



Sofið er ástaraugað þitt,(
sem aldrei brást að mætti mínu;(
mest hef eg dáðst að brosi þínu,(
andi þinn sást þar allt með sitt.
/
Slokknaði fagurt lista ljós.(
Snjókólgudaga hríðir harðar
(til heljar draga blómann jarðar.(
Fyrst deyr í haga rauðust rós.

(Jónas Hallgrímsson.)



Brosið hans Óskars og minningin um drenginn góða er ómetanlegur fjársjóður sem gott er að eiga.
Hafðu þökk fyrir vináttuna og allar góðu stundirnar elsku vinur. Guð veri með þér, drengjunum þínum og öllum þeim sem nú syrgja þig.





Sigurður Ingvi Snorrason