Reinhardt Ágúst Reinhardtsson fæddist í Reykjavík 15. apríl 1943. Hann lést á heimili sínu, Grenibyggð 27 í Mosfellsbæ, 7. júní sl. Foreldrar hans voru Ólöf Guðlaug Önundardóttir frá Skálum á Langanesi og Reinhardt Ágúst Reinhardtsson frá Norðfirði. Börn þeirra eru Kristján Gunnsteinn, f. 1936, Reinhardt Ágúst, f. 1943, Önundur Þór, f. 1947 og Erna Guðrún, f. 1948. Reinhardt eignaðist þrjú börn. Sonur hans og Ragnheiðar Ingibjargar Halldórsdóttur er Halldór, f. 6. júní 1961, kvæntur Þórönnu Andrésdóttur, börn þeirra eru Andrés Þór, f. 1982, og Ragnheiður Ingibjörg, f. 1986, dóttir hennar Lilja María Finnbogadóttir, f. 2008. Reinhardt kvæntist 1965 Sigrúnu Lindu Kvaran, f. í Reykjavík 3. maí 1948. Dætur þeirra eru: 1) Linda Björk, f. 22 nóvember 1965, í sambúð með Höskuldi Björnssyni. Börn hennar eru a) Hannes Þór, f. 1984, í sambúð með Önnu Þorsteinsdóttur, sonur þeirra Sigurður Þór, f. 2005, b) Hildur Rún, f. 1988, dóttir hennar er Andrea Björk Hafsteinsdóttir, f. 2007 og c) Sunna Lind, f. 1994. 2) Kolbrún, f. 29. ágúst 1970, gift Tómasi Þráinssyni. Börn hennar og Aðalsteins Ingimarssonar eru: a) Logi Már, f. 1989, hann á Óðin Fannar, f. 2007, b) Anton Orri, f. 1991, c) Hafdís Birta, f. 1995, og d) Ingimar Reinhardt, f. 1999. Sonur Kolbrúnar og Tómasar er Egill Úlfar, f. 2007. Reinhardt ólst upp á Fálkagötunni í Vesturbænum til 7 ára aldurs en þá fluttu foreldrar hans í Kópavoginn þar sem hann sleit barnsskónum á Nýbýlaveginum. Hann rak ásamt föður sínum og eldri bróður Efnalaug Austurbæjar til margra ára þar sem fjölskyldan starfaði frá árunum 1961 til 1979. Reinhardt hóf snemma störf sem sneru að leikhúsi og starfaði við áhugaleikhús á yngri árum þar sem hann kynntist konu sinni Sigrúnu Lindu. Hann var tæknimaður og leiksviðsstjóri í Þjóðleikhúsinu frá árinu 1966 til 2004 eða næstum 40 ár. Hann var snjall hugmyndasmiður og leysti ýmsar þrautir sem sneru að leikbrellum í leikhúsinu. Hann starfaði um tíma í prentsmiðju Alþýðublaðsins og við sölumennsku hjá Prenthúsinu. Reinhardt var mikill áhugamaður um fótbolta og stundaði þá íþrótt langt fram á fullorðinsár, fyrst sem leikmaður en síðar sem þjálfari og stjórnandi. Hann var einn af stofnendum og stjórnendum Íþróttafélags Kópavogs, sem síðar rann saman við HK í Kópavogi og vinsæll bæði í leik og starfi. Hann var í skátahreyfingunni sem ungur piltur og starfaði þar síðustu árin sem sveitaforingi fram til 22 ára aldurs. Hann var mikill áhugamaður um ferðalög og íslenska náttúru og voru útilegur á sumrin stór þáttur í lífi fjölskyldunnar. Fróðleiksfús um land og þjóð, var vel máli farinn og lagði áherslu á vandað mál. Hann hafði einnig góða söngrödd. Hann var dýravinur og átti alltaf einhver gæludýr og hundarnir voru hans yndi. Var alltaf til reiðu ef eitthvað bjátaði á og tilbúinn að rétta hjálparhönd. Hann var fjölskyldumaður og vinur vina sinna. Reinhardt verður jarðsunginn frá Fossvogskirkju í dag, 22. júní, og hefst athöfnin kl. 13.

'Í dag kveðjum við þig elsku frændi.

Sunnudagurinn 7. júní verður okkur ávallt minnisstæður, þegar við fengum upphringingu og okkur tilkynnt um andlát þitt. Þetta var mikið reiðarslag fyrir okkur systurnar. Þegar slíkur atburður gerist finnur maður hversu vanmáttugur  maður er þegar dauðinn er annarsvegar. Þá fer maður að hugsa um þær samverustundir sem við áttum saman áður fyrr og hversu oft við skemmtum okkur og höfðum gaman og hversu mikið við litum upp til þín og í okkar huga varst alltaf svo kátur og blíður við okkur systurnar.

Okkar fyrstu minningar af Hadda frænda var flotti bíllinn hans sem var meira að segja með plötuspilara sem þótti nú aldeilis flott í þá daga. Það voru margar ferðirnar sem voru farnar um landið þvert og endilangt undir öruggri handleiðslu Hadda frænda og bræðra hans.

Einnig eigum við góðar minningar frá barnæsku þegar Haddi frændi bauð okkur tvíburasystrunum á sýningar í Þjóðleikhúsinu, þá vorum við eins og prúðbúnar prinsessur og fengum meira að segja að sitja uppi á svölum eins og fína fólkið og í hléinu var farið baksviðs og hitt allt leikhúsfólkið.

Haddi frændi gat verið drífandi, sérstaklega þegar hann vildi ná fjölskyldunni saman. Á síðasta ári var í fyrsta sinn haldið ættarmót sem Haddi stóð fyrir og tókst það mjög vel.

Með þessum fáu orðum viljum við kveðja þig elsku frændi.

Í bljúgri bæn og þökk til þín,
sem þekkir mig og verkin mín.
Ég leita þín, Guð, leiddu mig,
og lýstu mér um ævistig.

Ég reika oft á rangri leið,
sú rétta virðist aldrei greið.
Ég geri margt sem miður fer,
og man svo sjaldan eftir þér.

Sú ein er bæn í brjósti mér,
ég betur kunni þjóna þér.
Því veit mér feta veginn þinn
og verðir þú æ Drottinn minn.
(Pétur Þórarinsson.)


Elsku Sigrún, Linda, Kolla, Halldór og fjölskylda, megi Guð vera með ykkur og gefa ykkur styrk á þessum erfiða tíma.

Anna og Ólöf Kristjánsdætur.

Haddi minn.

Þegar mér bárust þær fregnir  að þú værir farinn, brá mér ílla við. Þeim tíma sem þú eyddir í okkur pollana frá 11 ára til 18 ára  verður seint með orðum lýst. Þannig var að á þessum tíma æfðu ca. 40-50 drengir á Vallagerðinu með UBK.  Og þegar þið vinirnir Grétar Norðfjörð og fl. stofnuðuð ÍK, fækkaði heldur betur á Vallagerðinu og fjölgaði á Heiðavellinum, í óþökk flestra gamalla sparkfræðinga.

En það ótrúlega fórnfúsa starf sem þið ynntuð af hendi og ekki síst þú, elsku kallinn minn, verður seint metið til fjár, margur hefur fengið Fálkaorðu fyrir minna síðan. Við Drengirnir þínir, sem svo oft vorum kallaðir, erum enn þann dag í dag stoltir af þessum uppeldisárum.

Þú sagðir eitt sinn við mig er ég var ca 15 -16 ára og við á leiðinni, í enn eina úrslitakeppnina: Siggi minn, draumurinn er að skila heilu liði upp í meistaraflokk ÍK.

Guð minn góður! Hvað geta margir yngriflokkaþjálfarar státað af því að skila af  sér 9 mönnum úr 5 fl. í mfl.  sem léku allt frá 50 mfl. leikjum til 200 og eitthvað.

En ekki síst Haddi minn langar mig, hann Sigga þinn, að þakka þér og Sigrúnu fyrir að hafa gert mig að betri persónu en ella hefði orðið og ég veit að ég mæli fyrir munn margra okkar strákanna með að þau skilaboð þín, um að vinnusemi, sjálfboðastarf og þúsund aðrir smáir hlutir í uppeldinu þínu við okkur hafa gert okkur alla að betri mönnum.

Virðing fyrir félaginu var þér sérstaklega hjartfólgin, það tekst ekki mörgum persónum að gera nýstofnaðan klúbb með nánast eingöngu yngriflokka að einu virðulegasta stórveldi á íslandi.

Ha! mundi margur segja. En hvað hafa mörg félög leikið það eftir ÍK að eiga ALLA flokka í úrslitum, hvað þá að eiga tvo til þrjá flokka í útslitum ÖLL árin sem félagið var til?

Að seinustu, Haddi minn, langar mig að þakka þér fyrir þessi skemmtilegu ár sem þú vissulega gafst mér og vonandi flestum okkar strákanna, megirðu finna frið á nýja staðnum þínum.

Kveðja

Siggi.