Þuríður Sigurðardóttir frá Reykjahlíð, fæddist 19. desember 1913. Hún lést 27. september 2009 Þuríður Sigurðardóttir var fædd í Reykjahlíð í Mývatnssveit. Foreldrar hennar voru Sigurður Einarsson, f. 19. nóvember 1884 í Svartárkoti, d. 21. nóvember 1954, bóndi í Reykjahlíð og kona hans, Jónasína Hólmfríður Jónsdóttir, f. 16. nóvember 1878, d. 1. desember 1943. Systkini Þuríðar voru Laufey Jónína, f. 27. mars 1910, d. 4. október 1993, -M. 11. ágúst 1949 Þorbergur Sigurdór Magnússon f. 25. ág. 1906, d. 10. okt. 1990, Svava f. 13. maí 1912, d. 5. sept. 1989, Baldur f. 31. maí 1915, d. 25. Júní 1915, Baldur f. 31 júlí, d. 29. janúar 1990 , bóndi í Reykjahlíð, -K. 26. júní 1947 Þorbjörg Helga Finnsdóttir f. 15. júlí 1916 á Jarðlangsstöðum, d. 13. apr. 1996, Guðrún f. 13. apríl 1918, d. 26. október 1995 hótelstjóri í Hótel Reykjahlíð, Jón Bjartmar f. 20. maí 1920, d. 15. sept. 1990, bóndi í Reykjahlíð, Bryndís f. 26. des. 1923, d. 29. maí 1947. Farskóli var hefðbundin menntun þess tíma í Mývatnssveit og síðan fór hún í Þinghússkólann á Skútustöðum. Þuríður fór í eldri deild Laugaskóla 1933. Kennaraskólann í Reykjavík og þaðan útskrifaðist Þuríður sem kennari 1939. Leiðin lá aftur í heimahagana þar sem Þuríður kenndi 1939 til 1943. Þuríður kenndi við St. Jósefsskóla í Hafnarfirði 1945 til 46. Við Melaskólann frá 1946 til 1986. Eftir að hún hætti kennslu færði hún sig yfir í svokallað athvarf sem starfrækt var í tenglum við skólann og hjálpaði þar nemendum við heimanám. Útför Þuríðar fer fram frá Reykjahlíðarkirkju laugardaginn 10. október og hefst athöfnin kl. 14.
Látin er móðursystir mín Þuríður Sigurðardóttir kennari frá Reykjahlíð, í hárri elli.Hún var fædd í Reykjahlíð þann 19. desember 1913 og ólst þar upp í sjö systkina hópi en alls voru systkinin átta. Í Reykjahlíð bjuggu þá fjórar fjölskyldur í stóru steinhúsi sem byggt hafði verið fáeinum árum áður. Húsráðendur voru systkini, afkomendur Einars Friðrikssonar sem fæddur var í Hrappstaðaseli í Bárðardal og konu hans Guðrúnar Jónsdóttur frá Baldursheimi í Mývatnssveit, sem flust höfðu í Reykjahlíð 1895 úr Svartárkoti. Móðir hennar Jónasína Hólmfríður Jónsdóttir var langafabarn Jóns Þorsteinssonar prests í Reykjahlíð sem Reykjahlíðarættin er rakin frá.
Eftir hefðbundna uppfræðslu þess tíma í Mývatnssveit, farskóla og þinghússkólann á Skútustöðum fór Þuríður 1933 í eldri deild Laugaskóla sem þá var framhaldsskóli og mörg ungmenni á norðurlandi áttu kost á að sækja. Upp úr þeirri dvöl varð úr að hún fór til náms í Kennaraskólanum í Reykjavík og þaðan útskrifaðist Þuríður sem kennari 1939. Leiðin lá aftur í heimahagana þar sem Þuríður kenndi ungmennum sveitarinnar 1939 til 1943. Jónasína móðir hennar veiktist af krabbameini og dvaldist þá lengi á sjúkrahúsinu á Akureyri. Þuríður sagði þá lausri stöðu sinni sem kennari í Mývatnssveit til að geta verið hjá móður sinni á meðan hún lá banaleguna en Jónasína lést 1943.
Ekki var aftur laus staða fyrir Þuríði í Mývatnssveit á þessum tíma og úr varð að hún flutti til Reykjavíkur og kenndi við St. Jósefsskóla í Hafnarfirði 1945 til 46. Við Melaskólann fékk Þuríður stöðu 1946, sá skóli varð síðan starfsvettvangur Þuríðar alla tíð síðan eða allt til 1986. Eftir að hún hætti kennslu færði hún sig yfir í svokallað athvarf sem starfrækt var í tenglum við skólann og hjálpaði þar nemendum við heimanám.Þuríður starfaði við barnakennslu í tæpa fimm áratugi og þeir eru því orðnir margir sem hún hefur átt þátt í að uppfræða. Hún hafði gott lag á að halda uppi aga án þess að hækka róminn. Hafði þann sið að stilla sér upp út í horni á áberandi stað með kennarabókina í annarri hendi og pennann í hinni, svo virtist sem allt væri fært til bókar. Fljótlega misstu ólátabelgirnir kjarkinn hver af öðrum og ró komst á í bekknum. Margir nemendur hennar héldu tryggð við hana fram á það síðasta, sendu henni jólakveðjur og árnaðaróskir á merkisafmælum. Kveðjurnar glöddu hana mjög og fyrir þær ber að þakka.
Þuríður hafði yndi af ferðalögum, var farin að ferðast til útlanda á þeim árum þegar það var ekki algengt. Þær systur Þuríður og Svava fóru m.a. í langa ferð um meginland Evrópu upp úr 1950. Hugur Þuríðar var hins vegar alltaf í Mývatnssveit og þangað fór hún öll sumur. Systur hennar Svava og Guðrún ráku þá Hótel Reykjahlíð. Hótelið var einnig heimili systranna og Jóns Bjartmars bróður þeirra og auk hótelreksturs var þar stundaður hefðbundinn búskapur. Þar tók Þuríður til hendinni bæði innan húss sem utan á hverju ári. Þuríður var því vinnandi allt árið um kring enda af dugnaðarfólki komin. Einar afi hennar var blindur síðustu árin en lagði sitt af mörkum m.a. með því að prjóna á veturna fyrir öll heimilin og veiða silung á sumrin. Þeim veiðum var þannig hagað að hann réri og vitjaði um netin en eitthvert barnið fór með til að segja honum til um stefnu og staðsetningar. Guðrún amma hennar vann öll erfiðustu störfin þótt vinnukonur og dætur hennar væru á heimilinu, prjónaði á meðan hún lá banaleguna og dó með prjónana í höndunum. Lengi vel fór Þuríður norður í Reykjahlíð á öllum stórhátíðum auk sumarferðanna en eftir að systkini hennar voru fallin frá, lögðust þær ferðir af.
Fyrir níu árum varð Þuríður fyrir því óláni að detta heima hjá sér og lærbrotna og átti ekki afturkvæmt, til dvalar, í íbúðina sína á Kaplaskjólsveginum þar sem heimili hennar hafði verið í fjörutíu ár. Hún valdi að fara á dvalarheimilið Grund og var þar í tæpan áratug.Andlegu atgervi hélt Þuríður mikið til fram að andlátinu, hélt dagbók til hinstu stundar. Ég hef það eftir starfsfólki á Grund að hún hafi rúllað upp spurningakeppnunum sem haldnar voru vikulega. Við áttum löng samtöl þessi ár sem hún dvaldi á Grund og fljótlega vorum við komin norður í Mývatnssveit, Þuríður sagði frá og ég hlustaði. Hún dró upp mynd af lífinu í sveitinni sinni og Reykjahlíð, sagði frá leikjum barnanna en þau voru mörg í því húsi. Sagði frá búsakaparháttum, hátíðisdögum, væntingum, gleði og sorgum. Fram á völlinn komu margir sem nú eru gengnir, suma hafði ég þekkt, öðrum vissi ég deili á. Þessar stundir eru nú að baki, með Þuríði eru horfin síðustu tengslin við þennan tíma.
Þegar aldraður einstaklingur fellur frá, glatast með honum hluti af sögunni, ekki bara hið ósagða orð heldur einnig þær myndir sem sá hinn sami geymir í hugskoti sínu. Á níutíu og fimm árum höfðu orðið margar breytingar í þeirri sveit og ekki allt að hennar skapi. Þuríður vildi muna Reykjahlíð og sveitina sína eins og hún var í hennar huga og sýndi því algert tómlæti ef reynt var að leiða samtalið að einhverju þar, sem sumir mundu kalla framfarir. Hins vegar fylgdist hún vel með Mývetningum og örlögum þeirra í gleði og sorg. Hún átti ekki orðið gott með að lesa undir það síðasta og hlustaði helst á útvarpið. Heimsóknir og símtöl vina og skyldfólks voru henni því afskaplega dýrmætar. Mér segir svo hugur að starfsfólkið á Grund muni minnast Þuríðar um alllanga hríð. Hún hafði búið ein í marga áratugi og komið sér upp ákveðnum siðum um æði margt og lét sér ekki einu sinni detta í hug að aðlagast þeim takti sem sleginn var á Grund. Í þeim efnum sem það fór ekki saman varð að finna aðrar lausnir.
Undirritaður varð þeirrar gæfu aðnjótandi að kynnast Þuríði náið. Fyrsta áratuginn minn bjó hún hjá foreldrum mínum í Sörlaskjóli og tók þá mikinn þátt í uppeldinu. Fljótlega varð það að venju að senda mig norður í Reykjahlíð til sumardvalar og þá tók hún við móðurhlutverkinu þar ásamt Svövu systur sinni. Löngu seinna eftir að Laufey móðir mín lést, tók Þuríður á vissan hátt við ömmuhlutverkinu í hugum dætra minna. Fyrir þær stundir sem við áttum saman, sem nú eru hluti af okkar minningarsjóði erum við afskaplega þakklát, við fjölskyldan kveðjum hana klökkum huga. Árin á Grund voru orðin æði mörg og frænka var orðin þreytt undir það síðasta. Í dag verður hún lögð til hinstu hvíldar í Reykjahlíð. Þreytta sál, sofðu rótt. Gefi þér Guð sinn frið, góða nótt.
Sigurður Jónas Þorbergsson