Svava Hansdóttir fæddist á Meiribakka í Skálavík 28. desember 1921. Hún lést á öldrunardeild sjúkrahússins á Ísafirði 18. júlí 2009. Foreldrar Svövu voru Jón Einarsson sjómaður og Ingibjörg Magnúsdóttir verkakona. Fósturforeldrar hennar voru Gísli Jósepsson og Hallbera Jónasdóttir sem bjuggu á Kroppstöðum í Skálavík. Svava giftist 6. desember 1941 Hallbirni Guðmundsyni sjómanni, f. 16. júní 1916, d. 3. júlí 1991. Börn Svövu og Hallbjörns eru: 1) Guðmundur Valgeir sjómaður, f. 24. júní 1942, maki Þóra Þórðardóttir kennari, þau eiga átta börn. Þau búa á Suðureyri. 2) Gísli sjómaður, f. 18. júlí 1943, maki Málfríður Sigurðardóttir, þau eignuðust fjögur börn, en eitt dó ungt. Þau búa á Akranesi. 3) Róbert vélstjóri, f. 14. júní 1945, maki Ósk Bára Bjarnadóttir, þau eiga þrjú börn og búa í Keflavík. 4) Valgerður verkakona, f. 3. september 1947, maki Kristján Gretar Schmidt, þau eiga tvær dætur og búa á Suðureyri. Svava var í Skálavík fyrstu árin en flutti svo til Bolungarvíkur sjö ára gömul og gekk þar í skóla. Sem ung kona fór hún í vist í Húnavatnssýslu, síðar til Reykjavíkur og víðar. Svava og Hallbjörn bjuggu fyrstu búskaparár sín í Bolungarvík en mest af sínum búskap bjuggu þau á Suðureyri. Ásamt húsmóðurstörfum og barnauppeldi vann Svava við fiskvinnslu og í þvottahúsi. Eftir að Hallbjörn lést bjó Svava að mestu hjá dóttur sinn og tengdasyni, hún hélt þó sitt eigið heimili að Hjallavegi 2 allt þar til hún flutti á öldrunardeild sjúkrahússins á Ísafirði fyrir tveimur árum. Útför Svövu fer fram frá Suðureyrarkirkju í dag, 24. júlí, klukkan 14.

Mig  langar að minnast hálfsystur minnar sem lést 18. júlí sl. Hún var 18 árum eldri en ég, við vorum samfeðra. Ég minnist þess að pabbi hafi sagt mér frá henni þegar ég var smástelpa. Tíminn leið og ekkert varð að því að við hittumst. Við vorum báðar aldar upp hjá fósturforeldrum, Svava frá nokkra vikna aldri en ég frá 7 ára aldri á sitthvorum landshlutanum. En svo gerist það að ég fer vestur á Ísafjörð á ættarmót hjá föðurfólki okkar að ég ákveð að nú skuli ég hafa samband við Svövu systir. Og ég hringdi í hana og spurði hvort ég mætti koma í heimsókn með manni mínum og dóttur. Hún bauð okkur að koma inná Suðureyri til sín sem við gerðum.

Það var tilfinningarík stund þegar við hittumst þarna í fyrsta sinn og vorum við báðar mjög feimnar. En var þetta upphaf af góðu sambandi okkar á milli sem entist alla tíð. Við nutum þess að spjalla og fara í gönguferðir. Hún kom ýmist til mín suður eða ég til hennar vestur og hélt þá til í litla húsinu hennar sem var yndislegt.  Okkur þótti svo vænt hvor um aðra og það var svo gott að eignast systir á eldri árum. Ég kynntist börnum hennar og tengdafólki og sérstaklega Völu dóttir hennar sem var svo séstaklega umhyggjusöm við mömmu sína alla tíð. En þar hefur hún búið meira og minna síðustu árin. Svava mín gat verið svo kát og svo söngelsk að ég naut þess að vera nálægt henni. Og ég sakna hennar mikið  en ég skil líka að hún var orðin mikið veik og orðin 87 ára gömul og fegin að fá hvíldina.

Ég vil þakka henni fyirir allar yndislegu stundirnar sem við áttum saman. Hvíl í friði kæra systir.

Svanhildur Jónsdóttir