Guðbjartur Þórir Oddsson fæddist á Flateyri við Önundarfjörð 20. mars 1925. Hann lést á heilbrigðisstofnuninni á Hvammstanga 12. ágúst sl. Foreldrar hans voru Vilhelmína Jónsdóttir, f. í Tungu í Arnarfirði. 28.5. 1902, d. 5.7. 1979 og Oddur Valgeir Gísli Guðmundsson, f. í Stapadal í Tálknafirði 9.1. 1902, d. 7.3. 1964. Systkini: Tómas Högni, f. 1924, Jón Hafsteinn, f. 1926, d. 2007, Áróra Bryndís, f. 1927, Guðmundur Ármann, f. 1929, Sigurbjörg, f. 1930, Guðrún Sigþrúður, f. 1931, Guðmunda Matthildur, f. 1933, Ingunn, f. 1935, Benjamín Gunnar, f. 1936, d. 1995 og Friðrik Svanur, f. 1937. Guðbjartur kvæntist árið 1948 Kristínu Ólafsdóttur matráðskonu, og bjuggu þau fyrstu árin í Bolungarvík, en fluttust síðan til Reykjavíkur. Guðbjartur og Kristín skildu 1975. Börn þeirra: 1) Vilhelm Valgeir, f. 1948, m. Guðrún Ragnarsd. Synir a) Oddur Þór, m. Anett Blischke, b) Vilhelm, m. Sólveig Hulda Benjamínsd. og c) Fannar. 2) Ólöf María, f. 1950, m. Jónas Pétur Sigurðsson. Dætur a) Kristín, m. Guðmundur Sigurðsson, og b) Margrét, m. Karl Grétar Karlsson. 3) Svanur, f. 1951, m. Ólöf Magnúsd. Dætur a) Katrín Edda, m. Björn, f. Björnsson, b) Sunna Rós, m. Axel Helgason., c) Birta Ósk, m. Sigfinnur Gunnarsson., og d) Bylgja Rún, m. Andri Örn Arnarson. 4) Þröstur, f. 1952, m. Patiwat Dipien. 5) Þríburar, f. 19.9. 1953, létust sama dag. 6) Guðrún, f. 1955, m. Bjarni Albertsson. Börn Guðbjartur Atli, m. Anna Grabowska, Guðjón Páll, Auður Erla, og Kristinn Snær. 7) Unnur, f. 1956, m. Garðar Benediktsson. Börn: a) Hálfdán Ólafur, m. Arndís Pétursdóttir, b) Benedikt Ágúst, c) Branddís Jóna, m. Þorvaldur Ó. Karlsson, og d) Guðlaug Björg, m. Jónatan I. Jónsson. 8) Kristín Þóra, f. 1960, m. Sigurður S. Jónsson. Sonur Stefán Þór. 9) Birna, f. 1962, m. Sölvi Rúnar Sólbergsson. Synir a) Snævar Sölvi, b) Tómas Rúnar, m. Rebekka Líf Karlsd., og c) Bergþór Örn. Dóttir Guðbjartar og Önnu Ágústsdóttur er Bára, f. 1962, m. Jón Haukdal Kristjánsson. Synir Kristján Haukdal, og Frímann Haukdal. Dóttir Guðbjartar og Oddnýjar Sigurðardóttur er Sif Ásthildur, f. 1972. Börn Andreas Máni og Anna Marín. Stjúpsonur Guðbjartar er Örn Guðjónsson, f. 1945 m. Sigurósk Garðarsd. Börn Guðjón Páll, Garðar Smári m. Nína Björg Sveinsd., og Leo Jarl, m. Sveiney Bjarnad. Langafabörnin eru 28. Á 19. aldursári fluttist Guðbjartur til Keflavíkur og stundaði þar sjómennsku þar til hann hóf nám í málaraiðn hjá Magnúsi Sæmundssyni í Reykjavík 1946. Eftir það vann hann allan sinn starfsaldur sem málari víða um land, þótti hann góður fagmaður og var annálaður fyrir snyrtimennsku. Guðbjartur var mjög listfengur og eru til eftir hann mörg málverk og skreytingar. Guðbjartur dvaldist síðustu ellefu ár ævinnar á Heilbrigðisstofnunni á Hvammstanga. Útför Guðbjartar fer fram frá Hvammstangakirkju í dag, 21. ágúst, og hefst athöfnin kl. 14.
Ferðalag með ykkur mömmu og við systurnar í aftursætinu í einhverri af amerísku drossíunum þínum, bryðjandi Kóngabrjóstsykur og súpandi Spur með lakkrísröri og mikil kátína en úbbs... ef það kom Súi í kallinn (Súi, funheit fjölskylduskapsveifla, kennd við Súgandafjörð) þá sló þögn á hópinn í aftursætinu uns formælingar og uppnefningar voru yfirstaðnar yfir þessum eða hinum mannfjanda að sunnan sem kunni sko ekkert að keyra úti á landi en mig grunar að ökusnilli þín hafi ekki verið gríðarleg því oftar en ekki sló kagganum niður og gat kom á bensíntankinn og urðum við systur að tyggja Wrigleys tyggjó í gríð og erg sem nýttist til að fylla upp í gatið til að redda bílskrjóðnum að næsta bílaverkstæði.
Og yndislegir sunnudagsmorgnar í Konráðshúsi á Blönduósi, við feðginin að dunda okkur við að teikna og lita, ég nýkomin úr sunnudagaskólanum í rauða sparikjólnum, þú ilmandi af Old Spice í nýstraujaðri hvítri skyrtu, mamma við Rafha eldavélina með Carmen rúllur í hárinu og húsið angandi af steiktu lambalæri og grænu Hreinol. Við gleymdum stund og stað við teikningarnar og ég horfði á með lotningu hve snjall þú varst með blýantinn. Þú varst sannarlega hetjan mín. Og ég man þegar mér fannst móðir mín heldur tunguhvöss og hvefsin, horfðir þú á mig með hlýju bliki í augum og straukst svo undurblítt um vanga minn og þá var allt gleymt. Ég vildi óska að drengurinn minn, hann Stefán Þór, hefði fengið að kynnast barngæsku þinni áður en þú hvarfst inn tómið sem alzheimer sjúkdómurinn er.
Þú varst matmaður mikill, vel rúnnaður á alla kanta og ansi lunkinn varstu að finna lykilinn góða sem gekk að búrskápnum sem geymdi jólasmákökubaksturinn, 15 sortir alls í gömlum Mackintoshdollum. Ýmsir fjölskyldumeðlimir áttu það til að laumast í smákökur og mjólkurglas að næturlagi og varst þú þar fremstur í flokki.
Minningarnar tengdar þér eru einnig ljúfsárar og biðin og söknuðurinn að þú kæmir nú bráðum heim eru ofarlega í huga og sú mynd kemur sterkt upp í huganum er við bjuggum á Reykjaskóla í Hrútafirði og við hnátutáturnar þínar sitjandi við eldhúsgluggann seint að vetrarkveldi og fylgdumst grannt með hverju bílljósi niður heiðina og út fjörðinn, hvort þau myndu nú beygja niður afleggjarann og andvörp og vonbrigði ef þau héldu áfram en hvílík fagnaðarlæti og spenningur greip okkur þegar bílljósin sveigðu í rétta átt og við áttum von á þér færandi hendi með eitthvað smáræði að sunnan til að gleðja barnshjartað en best var náttúrlega að fá þig sjálfan heim. Það var í þér ákveðið eirðarleysi og aldrei dvalið lengi á sama stað og mamma fluttist búferlum með okkur systkinin ansi oft til að reyna að halda fjölskyldunni saman, sem gekk svo ekki síðar meir. Þú áttir erfitt með að gangast undir þau lög og reglur sem gilda í samfélaginu og hvarfst bara ef eitthvað kom upp á og birtist svo aftur eftir nokkra mánuði eða ár eins og þú hefðir bara skroppið út í búð að kaupa mjólk en þú gast verið svo yndislega ljúfur og gefandi að þér fyrirgafst mikið.
Kristín Þóra Guðbjartsdóttir