Þórdís Pálsdóttir fæddist í Hvarfi í Víðidal V-Hún. 25. apríl 1927. Hún andaðist á dvalarheimilinu Grund 27. mars sl. Foreldrar hennar voru Elísabet Ágústa Gísladóttir húsfreyja í Hvarfi, f. 26. sept. 1904, d. 1. jan. 1989, og Páll Vídalín Guðmundsson bóndi í Hvarfi, f. 3. apríl 1897, d. 11. nóv. 1971. Þórdís átti þrjú systkini, Kristínu, f. 4. júní 1925, d. 13. febr. 1933, Guðmund, f. 6. júní 1931, og Gísla Unnstein, f. 21. júlí 1936, d. 21. des. 2006, kvæntur Guðríði Haraldsdóttur, f. 24. febr. 1932. Þórdís giftist Jóni Bergssyni, f. 16. nóv. 1927, syni Bergs Jónssonar, f. 24. sept. 1989, d. 18. okt. 1953, og Guðbjargar Lilju Jónsdóttur, f. 10. júlí 1903, d. 18. mars 1932. Börn Þórdísar og Jóns eru: 1) Guðbjörg Lilja Jónsdóttir, f. 15. júní 1951, maki Snorri Guðmundsson, f. 2. sept. 1951, börn þeirra eru: a) Jón Þór Andrésson, f. 23. júní 1969, sonur Andrésar Andréssonar, f. 15. febr. 1951, maki Erla Erlendsdóttir, f. 16. sept. 1974, börn þeirra eru Erlendur Óskarsson, f. 5. jan. 1998, og óskírður Jónsson, f. 2. febr. 2009. b) Guðmundur, f. 16. sept. 1977, maki Pála Gunnarsdóttir, f. 22. jan. 1982, börn þeirra eru Anna Lilja, f. 14. maí 1999, móðir er Hafdís Arinbjarnardóttir, f. 23. jan. 1979, og Katrín Katla, f. 12. ágúst 2006. c) Elsa Þórdís, f. 29. okt. 1986, maki Einar Hjaltason, f. 23. júní 1984. 2) Þorbjörg Kristín Jónsdóttir, f. 17. okt. 1952, maki Þórður Haukur Ásgeirsson, f. 6. des. 1953, börn þeirra eru: a) Ásgeir, f. 22. ágúst 1971, maki Þorbjörg Sveinsdóttir, f. 4. ágúst 1972, börn þeirra eru Alexander Freyr Einarsson, f. 22. mars 1990, sonur Einars Páls Tamini, f. 15. jan. 1969, Stefán Haukur, f. 24. febr. 1999, Torfi Sveinn, f. 19. júlí 2004. b) Þórdís, f. 15. júlí 1978, maki Gunnar Tryggvi Halldórsson, f. 14. mars 1979, börn þeirra eru: Halldór Smári, f. 12. des. 2001, og Elísabet Kristín, f. 29. jan. 2008. 3) Bergur Jónsson, f. 14. ágúst 1954, maki María Jörgensdóttir, f. 13. júlí 1957, börn þeirra eru: a) Aðalheiður Elín, f. 22. febr. 1979, maki Guðmundur Ólafsson, f. 24. febr. 1977, börn þeirra eru María Björk, f. 23. júlí 2006, og Hugrún, f. 17. ágúst 2008. b) Guðbjörg Lilja, f. 14. okt. 1981, sonur Anton Snær Guðjónsson, f. 25. mars 2002. c) Jón Anton, f. 28. jan. 1989. 4) Páll Vídalín Jónsson, f. 5. okt. 1966, maki Brigit Jónsson, f. 12. júní 1976, börn þeirra eru: a) Magnús Vídalín, f. 6. des. 1994, sonur Sigríðar Magnúsdóttur, f. 9. okt. 1964, b) Daníel Vídalín, f. 11. mars 2005, og c) Oliver Vídalín, f. 29. feb. 2009. Þórdís bjó lengst af á Ljósvallagötu 8 og í Mávahlíð 34 í Reykjavík. Hún gekk í skóla á Miðhópi í Víðidal og síðan á Laugarvatni. Þórdís starfaði við ýmis störf í Reykjavík á kaffihúsum og sem þerna á Herjólfi. Eftir að börnin voru uppkomin starfaði hún við afgreiðslustörf m.a. í Briddebakaríi á Hverfisgötunni og síðustu starfsárin við heimahjúkrun hjá öldruðum sem hún hafði mikla ánægju af. Þórdís var jarðsungin frá Fossvogskirkju 1. apríl.

Kveðja frá dóttur og tengdasyni.

Þú áttir þrek og hafðir verk að vinna,
og varst þér sjálfri hlífðarlaus og hörð.
Þú vaktir yfir velferð barna þinna.
Þú vildir rækta þeirra ættarjörð.
Frá æsku varst þú gædd þeim góða anda,
sem gefur þjóðum ást til sinna landa
Og eykur þeirra afl og trú.
En það er eðli mjúkra móðurhanda
að miðla gjöfum eins og þú.

Ég flyt þér, móðir, þakkir þúsundfaldar,
og þjóðin öll má heyra kvæði mitt.
Er Íslands mestu mæður verða taldar,
þá mun það hljóma fagurt, nafnið þitt.
Blessuð sé öll þín barátta og vinna.
Blessað sé hús þitt, garður feðra minna,
sem geymir lengi gömul spor.
Haf hjartans þakkir, blessun barna þinna.
og bráðum kemur eilíft vor
(Davíð Stefánsson frá Fagraskógi.)

Takk fyrir allt elsku mamma, guð blessi þig.

Þorbjörg og Haukur.

Elsku amma mín og langamma

Elsku hjartans amma mín er dáin. Hennar mun ég ávallt minnast með hlýju og með bros á vör en einnig með söknuði í hjarta.

Það er skrítin tilfinning að kveðja ömmu sem hefur fylgt mér alla ævi og ávallt verið til staðar. Þegar ég vissi að þú færir senn að kveðja okkur, þá fór ég ósjálfrátt að rifja upp allar góðu minningarnar.

Þegar ég hugsa um ömmu þá kemur margt upp í hugann. Ís, hún átti alltaf ís og ef hann var ekki til þá lagði hún á sig ferðalag niður í bæ til að kaupa ís. Því að hann var bestur í ákveðinni búð þar. Kleinur, hún bauð alltaf upp á kleinur þegar ég kom í heimsókn og ef ekki kleinur þá pönnukökur.

Nokkrum sinnum fórum við amma á kaffihús. Ein ferð er mér minnisstæð. Amma var dugleg að ganga og hún gekk oft um Miklatún. Kaffihúsið á Kjarvalsstöðum var henni því ofarlega í huga og fórum við þangað. En fyrst fórum við í göngutúr um garðinn. Amma þekkti öll listaverkin þar með nafni sem og höfunda þeirra. Einnig gat hún sagt mér eitt og annað um sögu þeirra.

Amma mundi alltaf eftir manni hvort sem það voru jól, afmæli eða páskar. Hún vissi alltaf hvað ég var að fást við. Hvort sem ég var í vinnu eða skólanum. Hún fylgdist alltaf vel með.

Þegar María Björk fæddist þá kom amma fljótlega í heimsókn. Hún spjallaði við prinsessuna og kallaði hana litla gullið. Þegar sú stutta var aðeins ósátt þá strauk amma fæturna á henni. Amma sagði mér að þetta fyndist litlu krílunum þægilegt ef þau væru óróleg. Þetta ráð hef ég af og til nýtt mér og er þetta mér kær og góð minning um ömmu mína.

Að lokum langar mig að segja frá heimsókn minni til ömmu á sunnudaginn var. Þá var hún orðin orkulaus og þreytt. En ekki klikkaði hún þar á smáatriðunum. Bróðir minn var nýbúinn að vera í heimsókn. Amma sagði: Mikið er hann bróðir þinn orðinn myndarlegur, bíða stelpurnar ekki eftir honum í röðum?"

Elsku amma, ég gleðst yfir ótal minningum og veit að þú vakir yfir mér og mínum. Takk fyrir mig.

Elín, María Björk og Hugrún.