Ásta Jónasdóttir var fædd 9. nóvember 1911. Hún lést 29. apríl sl. og var útför hennar gerð í kyrrþey að ´´osk hinnar látnu.


Á mig sló þögn þegar mér barst til eyrna að Ásta Jónasdóttir hefði dáið fyrir nokkrum mánuðum og verið jarðsungin í kyrrþey. Í hjarta mínu fann ég væntumþykjuna til þessarar gömlu konu sem var nú öll og í huga minn komu margar minningar frá þeim 30 árum sem leiðir okkar lágu saman.

Fyrsta sem kom í huga minn var þakklætisboð sem ég hélt til heiðurs Ástu  2007 fyrir það sem hún hafði verið mér og tileinkaði ég boðið húsmóðurinni. Allar konur komu með handavinnu og Ásta var umkringd verkum og líni sem hún hafði unnið og gefið mér í gegnum tíðina og naut þess að segja sögur um hvert koddaver, hvern dúk.

Ég man þegar ég sá Ástu fyrst, rúmlega tvítug, mér fannst hún svo flott með gull í tönn og fallega gullfesti um hálsinn og hún hafði stæl. Það var í þá daga þegar fólk hafði sígarettubox á stofuborðinu og kveikjara í stíl og bauð Ásta sígarettu úr boxinu og ég reykti sígarettuna inn í stofu sem var ekki tiltökumál í þá daga. Þarna sat ég hjá henni og naut þess að reykja og hlusta á hana segja sögur. Það elskaði hún alla tíð.

Hún fræddi mig um þvotta og hvernig ætti að umgangast blúndur og bróderí og fara vel með þá hluti. Þegar leiðir okkar lágu saman hafði ég nýverið misst ömmu mína sem ég saknaði mjög og naut því samvista við Ástu betur fyrir vikið.

Þau 3 ár sem ég starfaði heima kom Ásta í morgunkaffi til mín hvern dag, einnig afi minn og varð þeim vel til vina þar sem afi minn elskaði mig og Ásta skildi það svo ósköp vel og síðar þegar ég bjó erlendis gat afi komið til Ástu og talað um barnabarnið sem hann saknaði svo mikið.  Fyrir þessa vináttu þeirra verð ég ævinlega þakklát.

Ég gleymi aldrei fiskibollunum hennar Ástu en þær bauð hún mér iðulega til í gegnum árin og nostraði við matseldina, lagði síðan á borðið eins og ég væri konungborin.

Meðan kraftar leyfðu, hélt hún stór og flott jólaboð á jóladag fyrir alla fjölskylduna. Mér fannst alltaf gaman í þessum jólaboðum enda oft heitar umræður þar sem Ásta var mjög pólitísk kona. Hún var vinstri sinnuð alla ævi og lét stjórnmál sig varða alla tíð.

Já, svona er lífsins gangur og mín tækifæri til að endurgjalda henni heimboðin urðu fleiri eftir því sem ég þroskaðist og varð eldri og þegar tíminn hafði aðeins dregið úr henni kraftinn.

Það sem situr eftir í huga mér er þakklæti fyrir áratugina sem við áttum samleið Ásta

og ég og óskin um að allir englar himinsins vefji hana örmum á nýrri vegferð.


Ásdís Magnea Ingólfsdóttir (Maddý.)