Fífa Guðmunda Ólafsdóttir fæddist í Vestmannaeyjum 16. nóvember 1925. Hún lést á dvalarheimilinu Grund 20. júlí síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Ólafur Guðmundsson, f. 2.7. 1892, d. 8.10. 1953, og Siggerður Þorvaldsdóttir, f. 10.12. 1891, d. 17.3. 1929. Systkini Fífu voru Oddur, f. 4.1. 1920, d. 15.6. 2009. Þorvaldur, f. 5.6. 1921, d. 27.2. 2009. Sigurður, f. 14.4. 1923, d. 27.10. 1992, og Guðríður, f. 15.7. 1927, d. 20.5. 1931. Móðir Fífu, Siggerður, lést þegar hún var á fjórða ári. Öll systkini hennar voru þá send í fóstur og varð hún ein eftir hjá föður sínum. Þau systkinin hittust þó reglulega og héldu alla tíð góðu sambandi sín á milli. Hinn 22.7. 1944 giftist Fífa Helga Sigurfinni Guðmundssyni, f. 7.4. 1919, d. 6.3. 1975. Eignuðust þau 2 börn. 1) Ólaf Siggeir, f. 17.3. 1947. 2) Ásdísi, f. 30.6. 1956, hún er gift Gunnari O. Rósarssyni. Þau eiga 3 börn. Sigrúnu Huld, f. 18.11. 1983, Hildi Örnu, f. 4.12. 1988, og Bryndísi Snæfríði, f. 16.12. 1992. Fífa átti 1 barnabarnabarn Tómas Ían Brendansson f. 15.7. 2006. Fífa lauk barnaskóla 1939 og gagnfræðaskóla 1941 í Vestmannaeyjum. Síðar stundaði hún um skeið skraddaranám hjá Stolzenwald skraddarameistara og vann sem skraddari um skeið. Hún stundaði ýmis önnur störf frá barnsaldri, s.s. kaupakonustörf og við fiskvinnslu. Eins og gekk helgaði hún sig eiginmanni og börnum. Hún var heimavinnandi húsmóðir lengst af. Þegar hún varð ekkja leyfði heilsan ekki að hún sneri út á vinnumarkaðinn og hélt hún syni sínum heimili meðan kraftar hennar entust. Fífa og Helgi hófu búskap sinn í Jónsborg í Vestmannaeyjum. Fluttu fljótlega á Baugsveg 19 í Reykjavík, síðan á Hrísateig 19, þá í Sörlaskjól 88 og loks á Haðarstíg 8. Þar bjuggu þau er Helgi lést. Eftir andlát Helga fluttu Fífa og Ólafur, sonur hennar, á Hjarðarhaga 46. Loks bjó Fífa á dvalarheimilinu Grund við Hringbraut síðustu æviárin. Fífa verður jarðsungin frá Fossvogskirkju í dag, mánudaginn 27. júlí, kl. 15.
Það var svo ótrúlega tómlegt að fara að sofa kvöldið sem að þú kvaddir
þennan heim, elsku amma mín. Ég hef aldrei farið að sofa án þess að þú
hafir verið til. Þrátt fyrir að síðastliðin ár hafir þú smám saman verið að
kveðja okkur þá varstu ennþá svo sæt og krúttleg að það var alltaf gaman að
hitta þig. Síðastliðna daga hefur hugurinn leitað til æskuáranna og ég hef
verið að rifja upp ýmislegt gleðilegt sem okkar fór á milli. Ég hafði svo
ótrúlega gaman að sögunum þínum um kisuna Lísu og beljuna Skjöldu sem þú
áttir í Vestmannaeyjum. Það var alveg þvílíkt stór stund þegar að þú fannst
mynd af Skjöldu fyrir mig, ég man ennþá nákvæmlega hvar í albúminu myndin
var og hvernig blessuð Skjalda leit út.
Það var svo gott að hafa þig í næstu götu við okkur. Ég kom oft til þín og
fékk mér ísblóm og trópí. Ég veit ekki af hverju en ég hafði líka ómælda
ánægju af því að fara í fína stássskápinn þinn, þar sem þú geymdir fínar
postulíns styttur, tesett úr stáli og fleiri fallega hluti, og losa þá frá
skáphillunni. Einhvern veginn náðu hlutirnir að festast við hilluna og ég
losaði þá frá í hvert skipti sem ég kom í heimsókn. Það varst líka þú amma
mín sem kenndir mér að spila Veiðimann, Ólsen og Löngu vitleysu og við
gátum endalaust setið og spilað heima hjá þér á Hjarðarhaganum. Við gátum
nefnilega spjallað svo mikið saman um allt og ekkert. Við trúðum hvor
annarri fyrir ýmsu sem við sögðum ekki hverjum sem er.
Þegar þið fjölskyldan bjugguð í Sörlaskjólinu þá vildi nágrannakonan ekki
að þið notuðuð stigaganginn. Það var mjög einkennileg krafa af hennar hálfu
þar sem þessi stigagangur var eina leiðin fyrir ykkur inní íbúðina sem var
á annarri hæð. Þá sagðir þú við hana ,,Og hvað viltu að við gerum
eiginlega? Fljúgum inn um gluggana? Þú sagðir svo skemmtilega frá að ég
hló í marga daga. Þú varst svo skemmtilega ákveðin, hæfileikarík og klár.
Þú hannaðir til dæmis eldhúsinnréttingu sem að var svo smíðuð fyrir þig og
varst sérlega myndarleg að sauma og prjóna. Þú hafðir einnig gott innsæi og
varst mikill mannþekkjari. Margt sem að þú spáðir fyrir um, sem að aðrir
sáu ekki, kom svo í ljós síðar.
Við deildum ávallt herbergi í utanlandsferðum okkar og þar varstu sko í
essinu þínu, þrammaðir um allt eins og herforingi með bros á vör. Það var
einmitt á Mallorca sem þú sagðir eitt það skemmtilegasta sem ég heyrði á
minni barnsævi. Við vorum stödd í skartgripaverslun og þú varst að skoða
fallegt hálsmen og hafðir áhuga á að kaupa það. Læsingin á því var heldur
óhefðbundin og þú baðst afgreiðslukonuna um að sýna þér hvernig hún
virkaði. Hún varð heldur skrýtin á svipinn þegar að þú sagðir; ,,I will
learning with this læsing! Mikið fannst mér þetta skemmtilegt. Eini
ókosturinn við að vera með þér í utanlandsferð var að þrátt fyrir að við
hin lágum í sólabaði tímunum saman og rembdumst við að verða brún komst þú
alltaf brúnust heim eftir að hafa tyllt þér á svalirnar í korter eða
svo.
Elsku amma Fífa, takk fyrir allt! Það voru forréttindi að eiga svona góða
ömmu eins og þig. Hvíldu í friði og ég vona að þið afi hafið það gott saman
á ný.
Þín,
Sigrún Huld.