Guðjón Björgvin Jónsson fæddist að Bræðraborgarstíg 5 í Reykjavík 30. mars 1925. Hann lést á Líknardeild Landspítalans í Kópavogi 16. júlí síðastliðinn. Foreldrar hans voru Jón Halldór Gíslason, múrari, frá Lambastöðum í Hraungerðishreppi og Guðrún Jónsdóttir, húsmóðir, frá Hafþórsstöðum í Norðurárdal. Guðjón var elstur alsystkyna en systur hans voru Ingibjörg, Sesselja, og Svava sem allar eru látnar. Jón, faðir Guðjóns, átti dætur frá fyrra hjónabandi; Gíslínu Þóru og Steinþóru Ólafíu, en móðir þeirra, Auðbjörg Pétursdóttir, lést árið 1921. Fjölskyldan bjó lengst af á Bergstaðastræti 17 í Reykjavík. Guðjón Björgvin giftist eftirlifandi eiginkonu sinni, Bryndísi Guðmundsdóttur, 14. júní 1947 en hún er fædd í Reykjavík 16. nóvember 1928. Börn þeirra eru 1) Guðmundur, kvæntur Ástu Katrínu Vilhjálmsdóttur. Börn þeirra eru: a) Ásthildur f.17. okt. 1971. Hennar maður er Stephan Huber f. 30. okt. 1971. Börn þeirra: Noha f. 10. apríl 2000 og Benedikt f. 4. mars 2002, b) Guðjón Björgvin f. 7. ágúst 1975 d. 23. sept. 2007. Dóttir hans er Eva Lind f. 12. nóv. 1994 og c) Brynjar Karl f. 8, júlí 1978, sambýliskona hans er Anna Christine f. 9. apríl 1984. Börn Brynjars eru: Kristófer Örn f. 20. janúar 1997, Sara Ósk f. 7. mars 2000 og Oliver Magni f. 27. ágúst 2005. 2) Kristinn, kvæntur Soffíu Magnúsdóttur. Börn þeirra eru: a) Ragnheiður f. 13. maí 1977, sambýlismaður Þórir Jónsson Hraundal f.1.júní 1974. Synir þeirra eru: Alexander f. 31.jan. 2004 og Óðinn f. 5. maí 2007, og b) Kristinn f. 26. jan. 1980, sambýliskona hans er Kolbrún Vala Jónsdóttir f.17. mars 1974. Guðjón lauk barnaskólanámi frá Miðbæjarskólanum í Reykjavík. Hann byrjaði ungur að vinna fyrir sér og stundaði nám með vinnu. Guðjón lauk verslunarskólaprófi frá Verzlunarskóla Íslands árið 1945 og hóf þá störf hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur. Á starfsferli sínum vann hann m.a. í Efnagerð Reykjavíkur, Laugavegsapóteki, hjá Sveini Björnssyni og Ásgeirssyni í Gevafoto, sem fararstjóri hjá Útsýn en síðustu tuttugu starfsárin vann hann hjá Samvinnulífeyrissjóðnum. Guðjón Björgvin var frímúrari og tók virkan þátt í starfi Frímúrarahreyfingarinnar um 50 ára skeið. Síðustu mánuði var Guðjón Björgvin á krabbameinsdeild 11-E á Landspítala og á Líknardeild Landspítala í Kópavogi þar sem hann fékk einstaka og einlæga umönnum frábærs starfsfólks. Útför Guðjóns Björgvins fór fram í kyrrþey 24. júlí síðastliðinn.

Elsku kæri afi. Hvar á maður að byrja þegar minningabrotin hellast yfir í ófullkominni tímaröð? Fyrstu minningar mínar um þig og ömmu er heima hjá ykkur á Selbraut; þú og amma að njóta blíðunnar úti í garði. Það var alltaf svo spennandi fyrir okkur barnabörnin að koma og gista hjá ykkur sofa á tjalddýnum með appelsínugula svefnpoka, fá að fikta í orgelinu þínu, grúska í spennandi dóti inni og úti. Sniðuga, samanbrjótanlega hjólið fékkst þú ekki að eiga í friði fyrir okkur því það hertókum við, barnabörnin fimm, og lærðum flest að hjóla á því hjóli. En, það var hlýjan og væntumþykjan sem var ávallt til staðar sem gerði það svo ánægjulegt fyrir mig, og okkur hin, að vera með ykkur ömmu þó svo að bananasplitt, appelsínusherbert, súkkulaðikökur, Kit-Kat, fílakaramellur og annað góðgæti hafi ekki spillt fyrir. Ég skynjaði líka ávallt hversu mikil ást og væntumþykja var milli ykkar ömmu. Þið voruð ákaflega samrýnd og samstíga í hverju sem er, ferðuðust mikið, bæði sem farastjórar til Spánar og á eigin vegum, um Evrópu og svo ófáar ferðir til London. Gjafirnar sem þið færðuð okkur eftir ferðirnar voru ávallt spennandi hvort sem um ræddi mjúka pakka eða harða. Þegar þú svo hættir að vinna sökum aldurs tóku við nýir tímar. Þið tókuð hundinn Dúnu að ykkur og þá snerist lífið um útivist. Þú kvartaðir oft undan því að skepnan fengi betra fóður en þú, það væri eldað ofan í hana en þú fengir leifarnar og við hlógum mikið að því. Þegar ég hóf svo minn búskap með Þóri, í miðbæ Reykjavíkur, hafðir þú gaman af því að segja okkur Reykjavíkursögur. Þú sagðir okkur frá fólki og stöðum og ekki síst af því þegar ungur drengur gekk frá Bergstaðastrætinu alla leið upp á Njálsgötu 100 til að hitta sína kærustu, hana ömmu. Langafabörnin komu svo eitt af öðru; Eva Lind, Kristófer og Sara, Nói og Benedikt, Alexander og Óðinn, Oliver, og brátt mun það næsta líta dagsins ljós. Þið amma voruð ætíð svo áhugasöm um ungana og það gaf mér og fjölskyldunni mikið að hafa geta notið samvista við þig undir það síðasta. Þó kraftana hafi skort til að tala síðustu dagana þá sá ég væntumþykjuna skína úr augum þínum er þú horfðir á drengina leika á gólfinu á stofunni þinni. Síðustu mánuðina í veikindunum slakaðir þú ekki á kímninni. Þegar pabbi keyrði þig á bráðamóttöku Borgarspítalans og þú varst spurður hvort þú hafir komið í sjúkrabíl svaraðir þú um hæl: Nei, ég kom í Range Rover. Og eitt það besta sem ég hef heyrt hnjóta af þínum vörum var þegar þú varst orðinn mjög veikur og þjáður og baðst um stillandi lyf við verkjunum. Þegar hjúkrunarfræðingur kom svo að spurðir þú: Já, ert þú þá yfirverkfræðingur hér? Allir nærstaddir skelltu uppúr og ekki síst hjúkrunarfræðingurinn sem sagðist ætla að krefjast þess hér eftir að vera kölluð verkfræðingur.

Elsku afi, það er ætíð sárt að kveðja en það sem veitir okkur sem eftir sitjum huggun eru fallegar og góðar minningar um þig. Við skulum hugsa um elsku bestu ömmu, hafðu ekki áhyggjur. Þín,

Ragnheiður, Þórir, Alexander og Óðinn.

Mig langar til að þakka Venna fyrir allt sem hann gerði fyrir mig og mína fjölskyldu. það var ákaflega margt. Þegar ég var að mála húsið okkar að utan og Gummi var að vinna birtist hann allt í einu í málningarfötunum með sína arabahúfu á höfði 76 ára gamall og fór upp á þak til þess að mála á móti mér. Venni hafði sérstakan húmor og kom okkur oft til þess að brosa eða hlæja. Á spítalanum var hann ótrúlega brattur og sýndi sína gamalkunnu takta, léttur í skapi til hins síðasta.

ef til er líf að þessu jarðneska lífi loknu tekur Guðjón Björgvin sonur minn á móti afa sínum.

Þín tengdadóttir,

Ásta Kata

Elskulegur tengdafaðir minn, Guðjón Björgvin Jónsson, kvaddi  þennan heim á fallegum sumarmorgni. Venni, eins og við kölluðum hann, var alla tíð góð fyrirmynd þeirra sem kynntust honum og drengur góður í orðsins fyllstu merkingu. Leiðir okkar lágu saman fyrir 40 árum er ég kom á heimili þeirra hjóna, Venna og Binnu, með syni þeirra er síðar varð eiginmaður minn. Allt frá fyrstu stundu tóku þessi samrýndu hjón mér opnum örmum og hafa verið mér traustir vinir gegnum árin.   Margar minningar leita á hugann við fráfall ástvinar. Ég sé fyrir mér glæsilegan mann með undurfagra konu sér við hlið, traustan mann sem vann hvert verk af samviskusemi í leik og starfi, vinnusaman mann með pensil í hendi, glettinn og skemmtilegan sem hafði orðaleiki á takteinum og listfengan mann sem tók gullfallegar myndir og spilaði á orgelið svo undir tók í húsinu. Ég sé einnig fyrir mér stoltan  og umhyggjusaman föður og vin sona sinna og rígmontinn afa og langafa sem lék sér við ungviðið.

Tengdapabbi minn tókst á við ýmiss konar störf og var hvarvetna farsæll enda einstaklega traustur og heiðarlegur. Það var bjart yfir ævi hans þótt stöku sinnum skyggði á. Hann átti gott ævikvöld með Binnu sinni og sínum nánustu þar til hann greindist með alvarlegan sjúkdóm sem nú hefur lagt hann að velli. Fjölskyldan var honum allt og hana umvafði hann og styrkti á gleði- og sorgarstundum.  Að leiðarlokum er mér efst í huga þakklæti fyrir að hafa kynnst og verið samferða þessum hlýja og yndislega manni. Blessuð sé minning Guðjóns Björgvins Jónssonar.

Soffía Magnúsdóttir.

Mig langar til þess að kveðja hann pabba.

Maður velur sér margt í þessu lífi eins og t.d. maka en maður getur ekki valið sér foreldra. Ég held því fram að ekki hafi einstaklingur getað átt betri föður en ég.

Hann var alltaf fús til að hjálpa, blíður en agaður, gamansamur, meira að segja þá 3 mánunði sem hann dvaldi á krabbameisdeild Landspítala og síðan á Líknardeildinni í Kópavogi.

Mig langar að lokum að vitna í orð Nelsons Mandela við ákveðnar kringumstæður.

"Mér lærðist að hugrekki þýddi ekki óttaleysi heldur sigur yfir óttanum. Sjálfur fann ég fyrir ótta oftar en ég get rifjað upp en ég leyndi því bak við dirfskugrímu. Hugrakkur maður er ekki sá sem óttast ekki heldur sá sem sigrast á óttanum."

Kveða,

Guðmundur Guðjónsson.

Enn þynnist hópur þeirra, sem útskrifuðust frá Verzlunarskóla Íslands vorið 1945, enda kannski ekki undarlegt, sé horft til þess, að fæðingarár þeirra spannaði allt frá 1921 til 1928, en flestir voru þó fæddir á árunum 1925 til 1927.

Af sextíu útskriftarnemum er nú réttur helmingur farinn yfir ¨Móðuna miklu".

Sá skólabróðir, sem nú er kvaddur, Guðjón Björgvin Jónsson, venjulega kallaður Venni, ólst að mestu upp í risíbúð að Bergstaðastræti 17 í Reykjavík, en á miðhæðinni var ég í fæði á námsárunum.

Einn fjölskyldumeðlimurinn þar, Gunnar H. Stefánsson, var jafnaldri okkar Venna og skólabróðir í Verzló. Hann lézt af slysförum langt um aldur fram.

Útskriftarhópurinn tók fljótlega upp þann sið að hittast, ásamt mökum, á fimm ára fresti og njóta góðra veitinga og ánægjulegrar samveru.

Venni hafði þá ætíð eitthvað skemmtilegt fram að færa, enda með afbrigðum fyndinn.

Síðast hittum við, skólasystkinin, Venna við útför bekkjarbróður okkar, Ólafs Bergssonar, 24. júní 2008. Þá var hann nokkuð hress að sjá og bar sig vel, en ekki treysti hann sér þó til að koma með okkur í erfisdrykkjuna að athöfn lokinni.

Við vottum fjölskyldu Venna innilega samúð okkar vegna fráfalls góðs drengs og vinar.

Væntanlega bíða hans næg verkefni á nýjum stað, enda traustur og dyggur starfsmaður.

Fyrir mína hönd og annarra útskriftarnema Verzló 1945,

Björn Stefánsson

Björn Stefánsson