Pétur Kristófer Guðmundsson fæddist á Refsteinsstöðum í Víðidal 28. júlí 1923. Hann lést á Akureyri 17. maí síðastliðinn. Foreldrar hans voru Guðmundur Pétursson og Sigurlaug Jakobína Sigurvaldadóttir. Þau voru bæði fædd í Húnavatnssýslu, Guðmundur á Stóru-Borg og Sigurlaug á Gauksmýri. Systkini Péturs eru átta. Þau eru: Þrúður Elísabet, látin, Ólöf María, Vilhjálmur, látinn, Sigurvaldi Sigurður, Steinunn Jósefína, Sigurbjörg Sigríður, látin, Jón Unnsteinn, látinn og Fríða Klara Marta. Pétur kvæntist 26. febrúar 1949 Rósu Pálmadóttur, frá Reykjavöllum í Lýtingsstaðahreppi, f. 26. september 1925. Foreldrar Rósu voru Pálmi Sveinsson og Guðrún Andrésdóttir bændur á Reykjavöllum. Börn Péturs og Rósu eru 1) Guðrún Björk, f. 12. febrúar 1950, maki Friðrik Gylfi Traustason, f. 1. mars 1949. Börn þeirra eru a) Sigurður Ingi, f. 21. mars 1972, maki Ingunn Ósk, barn þeirra er Hákon Valur. b) Trausti Snær, f. 1. janúar 1976, maki Þórdís Hrönn, börn þeirra eru Birna Ösp, Snædís Brynja og Friðrik Gylfi. c) Einar Máni, f. 2. janúar 1980. d) Anna Rósa, f. 24. janúar 1981, maki Heimir Bjarni. e) Erla Lind, f. 1. ágúst 1989. 2) Elísabet Alda, f. 15. janúar 1952, maki Sigurður Björgúlfsson. Börn þeirra eru a) Helen Inga, f. 25. maí 1977, d. 19. apríl 1979. b) Telma Ingibjörg, f. 18. maí 1980. c) Björgúlfur Kristófer, f. 1. janúar 1994. 3) Guðmundur Viðar, f. 27. ágúst 1957, maki hans er Anna Fríða Kristinsdóttir, f. 22. maí 1952. 4) Pétur Sigurvin Georgsson, fóstursonur, (sonur Bjarkar), f. 10. október 1969, maki Jónína Halldórsdóttir, dætur þeirra eru Sandra Rut og Guðrún Björk. 5) Berglind Rós Magnúsdóttir, fósturdóttir, f. 20. maí 1973, maki Ásgrímur Angantýsson, dætur þeirra eru Auður og Björk. Fermingarárið hans flutti Pétur frá Refsteinsstöðum í Nefstaði í Stíflu í Fljótum. Hann var tvo vetur við Héraðsskólann á Laugarvatni. Árið 1945 festir hann kaup á jörðinni Hraunum í Fljótum ásamt tveimur bræðrum sínum og foreldrum. Vilhjálmur og Pétur búa síðan tvíbýli á Hraunum þar til Vilhjálmur flytur til Siglufjarðar 1962. Pétur sinnti ýmsum félagsstörfum fyrir sveit sína, þar á meðal formennsku í Búnaðarfélagi Holtshrepps og setu í Hreppsnefnd í mörg ár. Árið 2002 fluttu Pétur og Rósa til Akureyrar. Síðustu átta mánuði dvaldi Pétur á dvalarheimilinu Hlíð á Akureyri og naut þar hlýju og umönnunar. Þrátt fyrir erfið veikindi hélt hann sínu einstaklega ljúfa skapi til hinstu stundar. Útför Péturs Kristófers fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 26. maí, og hefst athöfnin kl. 13.30.

Samferðamenn okkar á þessum jarðvistardögum sem við fáum úthlutað af örlæti almættisins setja svip sinn á líf okkar og tilveru með misjöfnum hætti. Í dag kveðjum við Pétur á Hraunum gamlan vin og granna er lést að morgni sunnudagsins 17 maí. sl.

Fljótlega eftir að fjölskylda mín fluttist að Sauðanesvita við Siglufjörð tókust kynni með Pétri á Hraunum og fjölskyldu hans. Þau kynni þróuðust upp í trausta vináttu sem hvergi hefur síðan borið skugga á og tel ég það ekki hvað síst að þakka einstöku lundarfari Péturs og glaðværð. Mikill samgangur var á milli bæjanna og eftir að vegasamband komst á um Almenninga fjölgaði gagnkvæmum heimsóknum.

Pétur á Hraunum var þjóðsagnapersóna í lifanda lífi. Það fylgir miklum mönnum að um þá eru sagðar sögur sem eiga það til að vaxa og dafna með tíð og tíma. Þeir vinirnir Trausti á Sauðanesi og Pétur á Hraunum brölluðu margt og áttu auðvelt með að henda gaman hvor að öðrum ef svo bar við. Að rifja þau atvik upp hér væri meira en nóg efni í heila bók. Ég get þó ekki látið hjá líða að nefna atvik sem ég veit að Pétri þótti gaman að. Eitt sinn er Pétur kom í heimsókn að Sauðanesi var heyvagn þar fyrir á hlaðinu og hafði pabbi á orði að ekki væri það á færi meðalmanns að lyfta vagninum að tarna. Ekki lét Pétur eggja sig frekar heldur gekk að vagninum, tók báðum höndum undir hann aftanverðan og lyfti svo hjól voru á lofti. Engum manni hafði dottið í hug að hægt væri að lyfta ferlíkinu, en Pétur bóndi fór létt með. Þannig var Pétur. Alltaf til í stráksskap og hafði gríðarlega gaman af íþróttum

Pétur var sannkallaður gleðigjafi. Þegar gesti bar að garði var oftast stutt í sönginn og margar áttum við ánægjustundirnar í stofunni á Hraunum þegar lög eins og Ó Jósep Jósep eða Ljúfa Anna fylltu loftið . Þegar miðnætursólin litaði fjöllin rauðgulum bjarma og Miklavatn logaði líkt og gullið Vín var síðasta lagið sungið á hlaðinu. Það var oftar en ekki Kvöldið er fagurt sól er sest og við héldum á brott ölvuð af fegurð næturinnar. Slíkar minningar eru fjársjóðir sem ber að þakka. Í dag heldur Hraunabóndinn til nýrra landa þar sem hans bíða ný verkefni. Það mætti segja mér að á þeim slóðum sé full þörf fyrir mann á borð við Pétur.

Það er vor og sumarið er að heilsa. Ég sit við gluggann minn í Grafarholtinu og horfi norður. Hugurinn staðnæmist í Fljótunum og ég heyri fyrir mér óm söngs af hlaðinu á Hraunum. Það er söngurinn um vorvinda glaða, hið fagra kvöldog sofandi  fugl á grein sem berast mér með vindinum, vindinum að norðan.

Ég votta þér Rósa mínar innilegustu samúðarkveðjur á þessum erfiða tíma. Ég samhryggist ykkur systkinunum Björk, Elísabetu og Viðari  Ég sendi tengdabörnum þeirra hjóna hugheilar óskir sem og öðrum ástvinum. Foreldrar mínir, Trausti Breiðfjörð og Hulda Jónsdóttir á Sauðanesi senda einnig hugheilar samúðarkveðjur til ykkar allra með þökk fyrir að hafa fengið að kynnast Pétri Guðmundsyni bónda á Hraunum. Guð veri með ykkur í sorginni.

Minnumst Péturs með bros á vör.

Magnús H Traustason.

Heiðursmaður kvaddur.

Sumarfóstri minn og föðurbróðir, Pétur Kristófer Guðmundsson er nú látinn í hárri elli.  Pétur bóndi á Hraunum væri líka við hæfi að segja, eða Pétur á Hraunum eins og algengast var að kalla hann.   Sem krakki var ég svo lánssamur  að komast í sveit hjá Pétri og Rósu að Hraunum.  Þangað kom ég fyrst vorið 1958 þá aðeins á níunda árinu.  Ferðalagið frá Reykjavík norður í Fljót, ganga mín frá túnhliðinu að íbúðarhúsinu að Hraunum er mér enn í fersku minni.   Rútuferðalag þetta, með tilheyrandi stoppi í Fornahvammi í hádeginu, stoppi í Staðarskála, stoppi á Blönduósi og rútuskipti í Varmahlíð.   Allur farangur og pakkasendingar var haft uppi á þaki á rútunum  og var það ansi mikil vinna fyrir bílstjórana að koma því þar fyrir og búa um og sækja það síðan þangað upp þegar farþegarnir fóru af, oft við afleggjara að bæjum eða heima á hlaði.

Þegar mig bar að,  stóð svo á að enginn fullorðinn var heima, hvorki hjá Pétri eða Villa og Jónu, en á Hraunum var þá tvíbýli þeirra bræðra með fjölskyldur sínar.   Aðkominn bankaði á útidyr og kom til dyra elsta dóttir þeirra hjóna og jafnaldra mín,  Guðrún Björk.  Við vorum þá að sjást í fyrsta sinn og var það dálítið héraleg kveðja og handaband.  Ekki fór ég inn að svo stöddu heldur leist mér betur á að skoða í kring og kynna mér vélarkost bóndans.  Þarna var reyndar ekki mikið um vélar en þó var þarna nýleg Ferguson dráttarvél sem stóð í hlaði.  Ekki gat ég stillt mig um að stíga á bak og athuga fjaðurmagnið í sætinu og kanna hvort ég næði niður á petala.  Fyrr um vorið hafði ég verið á búvélanámskeiði á Korpúlfsstöðum og fengið ágæta tilsögn með traktora.  Var því ekki að sökum að spyrja, ég komst ekki hjá því að prufa hvort hann færi í gang.  Út undan mér sá ég að frænku minni leist ekki á þessar aðfarir og lét ég þess vegna vera að aka traktornum af stað,  stöðvaði vélina og gekk frá.  En síðar áttum við, ég og þessi traktor eftir að eiga margar vinnustundir saman sem allar reyndust farsælar.

Ekki voru þó allir sem töldu að Hraunajörðin væri véltæk yfir höfuð, en það afsannaðist síðar.  Hraunabóndinn fékk að vita af þessu uppátæki mínu þegar heim kom,  en ekki fékk ég að heyra aukatekið orð frá honum út af þessu, en við því hafði ég búist.  Þarna byrjaði vinskapur okkar strax og það traust sem milli okkar ríkti alla tíð og lýsir það skapgerð fóstra míns vel, og ætla ég ekki að hafa fleiri orð þar um. Of langt mál er að fara út einstök atvik, en þarna var ég í sveit hjá þeim hjónum í fimm sumur, og get fullyrt að aldrei bar nokkurn skugga á tengsl okkar Péturs þó stundum væri ærin ástæða fyrir Pétur að tala við snáða.  Frekar var að Pétur færi í meting við nágranna sína um það hver þeirra hefði besta vinnumanninn í sveit hjá sér. Þetta heyrði ég  nokkrum sinnum þó ég hefði kannski ekki átt að heyra.  En  gott var það fyrir ungan mann að skynja,  og átti það drjúgan þátt í að byggja upp sjálfstraustið, en vissi aftur á móti að ekki mátti ofmetnast.

Pétur var gleðimaður mikill og hrókur alls fagnaðar og eins var um Villa frænda sem þarna bjó fyrstu árin eins og fyrr sagði.  Sterkustu minningar ævi minnar á ég frá þessum árum,  gleðskapurinn þegar haldið var upp á stórafmæli og allir ættingjarnir og nágrannar voru mættir, sönginn inni sem úti á hlaði í stærri sem smærri hópum, samræðurnar, hláturinn, vinskapurinn og sáttin sem ríkti meðal manna, hvernig menn heilsuðust og kvöddust með kossum í bak og fyrir ásamt innilegum handaböndum og faðmlögum.    Ekki get ég látið hjá líða að minnast á sumarferðir fjölskyldunnar á Rússanum inn í Skagafjörð, þar sem farið var að Reykjavöllum og út á Sauðárkrók að heimsækja fólkið hennar Rósu.  Hápunktur þessara ferða var héraðsmótið á Vallabökkunum.  Hvergi hef ég síðar á æfinni séð annað eins gerast á útisamkomu eins og þarna.  Fyrir ungan dreng,  að fá alltaf að vera með fullorðna fólkinu við leik og störf er mitt haldbesta veganesti. Sú fjölbreytni lífsins sem þarna var við hvert fótmál var gríðarlegt innlegg þroska og uppvaxtar.  Náttúran, æðarvarpið, sjórinn, vatnið, veiðin, rekaviðurinn, heyskapurinn, berjamórinn,  sendiferðir út á Siglufjörð, smalamennska, rúningur, reka kýr og mjólka kýr, vegavinnuflokkar, símavinnuflokkar, ferðamenn, vinskapurinn við Villa, Jónu og börnin þeirra, gestakomurnar, og söngurinn. Ef nágranna eða aðra gesti bar að garði og setið var inni, var oft peli eða flaska dregin upp, æðaregg soðin og keppst um hver gæti borðað flest eggin, sungið í röddum og sagðar sögur.  Fyrir allar þessar ógleymanlegu stundir og minningar er ég ævarandi þakklátur ykkur öllum á Hraunum.

Ég veit að Sankti Pétur og Guð taka vel á móti Hraunabóndanum Pétri

eins og þeir hafa vafalaust gert áður við marga af hans góðu kynslóð.

Far þú vel Pétur fóstri minn og vinur.

Rósu og fjölskyldunni allri færi ég okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Garðar Sigurvaldason

Það var ennþá mikill snjór í Fljótum vorið 1978 þegar ég réð mig sem vinnumann hjá Pétri og Rósu á Hraunum. Man að mitt fyrsta verk var að brjóta ís og snjó ofan af bæjarlæknum til að forða því að féð félli í lækinn og drukknaði. Þó ég hafi einungis verið 13 ára var venjan í þá daga að menn gengju í öll verk. Það var unnið alla daga vikunnar á Hraunum, frá morgni til kvölds enda mörg handtökin á stóru búi. Vorverkin með girðingarvinnu þar sem við skiptumst á að halda naglanum eða rekaviðarstaurnum á meðan hinn barði á með sleggju eða hamri. Aldrei lömdum við á fingur hvors annars enda unnum við vel saman. Við skiptum með okkur morgunverkum sem var að mjólka einu kýrina á bænum. Man að kýrin var skýrð í höfuðið á húsfreyju nokkurri í Skagafirði sem þótti skemmtilegt þegar rætt var um hvernig hún mjólkaði. Hún var mjólkuð með hönd, án undantekninga um 10 lítra í mál. Fórum við eldsnemma út á tún að morgni með fötuna, haft og júgursmyrsl og vorum mættir fyrir morgunmat til baka með nýja heita mjólk í morgunkaffið. Sauðburður tók nokkrar vikur með tilheyrandi vökum. Afar lítið var um afföll vegna vökuls auga Péturs, næmni og áratuga reynslu við að koma fé á legg við oft erfiðar veður aðstæður. Því næst tók dúntekjan við þar sem við rérum oft tveir saman út í hólmann til að sækja bæði egg og dún. Í  leiðinni vitjuðum við neta sem voru oftast um 6 talsins frá Laxavík og vestur fyrir Hólma. Eftirminnilegur staður fyrir eitt netið var í vík nokkurrri sem kölluð var Hafnarfjörður. Netin voru ætíð full af fiski, bæði lax og silung. Einstaka sinnum læddist gráðugur lómur í netið sem þýddi að beita þurfti mikilli lægni við að greiða úr. Þegar dúnninn var orðin þurr í fjárhúsunum vorum við marga dagpartana að slá þara, skel og skít úr dúninum.

Pétur var afar félagslyndur og hafði frá mörgu að segja, enda lifað tímana tvenna. Þekkti mikið af ljóðum og sögum af mönnum og ævintýrum þeirra. Þær höfðu alltaf jákvæðan þráð og komu flestum til að brosa. Þannig hallmælti hann aldrei nokkrum manni heldur sá kostina og skondna fleti á flestum sínum samferðamönnum. Hann hélt nokkra hesta sem ég fékk að nota á kvöldin eftir vinnu. Hann treysti mér fyrir einum uppáhaldshest sínum í gegnum tíðina honum Faxa sem vann til verðlauna í sundreið og folahlaupi og margir föluðust eftir. Þessi sumur mín á Hraunum með þeim heiðurshjónum Pétri og Rósu eru mér afar kær og bý ég að því alla ævi að hafa kynnst þessum merkilega manni.  Við Pétur náðum afar vel saman og skilur hann eftir sig spor sem fáir munu fylla. Hann var höfðingi heim að sækja og leit alltaf á mig sem einn af sínu fólki. Minning hans mun lifa lengi því hann skilur eftir sig jákvætt og kraftmikið andrúmsloft, lífsgildi sem snerust ætíð um að fara vel með,  bera virðingu fyrir landinu og koma heiðarlega fram við samferðarmenn sína.

Ég votta Rósu mína innilegustu samúð, Pétri Sigurvin og Berglindi Rós, fjölskyldu og sveitungum,

Bergur Ólafsson