Ingvar Andrés Steingrímsson fæddist á Sólheimum í Svínadal 3. mars árið 1922 og fluttist á fyrsta aldursári með foreldrum sínum að Hvammi í Vatnsdal þar sem hann ólst upp. Hann andaðist á Heilbrigðisstofnuninni á Blönduósi þann 12. apríl síðastliðinn. Foreldrar hans voru Theodóra Hallgrímsdóttir, f. 9. nóvember 1895, d. 13. maí 1992, og Steingrímur Ingvarsson, f. 28. júní 1897, d. 9. október 1947. Systkini Ingvars voru Hallgrímur Heiðar, f. 1924, d. 2000, Þorleifur Reynir, f. 1925, d. 1989, kvæntur Salóme Jónsdóttur, og Sigurlaug, f. 1932, kvænt Hauki Pálssyni. Ingvar giftist Ingibjörgu Bjarnadóttur frá Eyjólfsstöðum í Vatnsdal, 8. júní 1949. Börn þeirra eru: 1) Hulda Aðalheiður, f. 1948, gift Birni Magnússyni, f. 1947. Börn þeirra eru: a) Magnús, f. 1969, maki Shi Xin, sonur þeirra er Björn, b) Ingvar, f. 1973, maki Elín Aradóttir, dóttir þeirra er Aðalheiður, c) Björn Huldar, f. 1978, maki Jóna Gígja Guðmundsdóttir, synir þeirra eru Aron Hafliði og Guðmundur Heiðar, d) Ingibjörg Hanna, f. 1984, 2) Jenný Theodóra, f. 1949, 3) Steingrímur, f. 1951, giftur Halldóru Ásdísi Heyden Gestsdóttur, f. 1951, börn þeirra eru: a) Hallgrímur Ingvar, f. 1978, b) Gestur Fannar, f. 1987, c) Lillý Rebekka, f. 1989, áður átti Halldóra, Smára Rafn Haraldsson, f. 1972, sonur Smára með Guðrúnu Herborgu Hergeirsdóttur er Janus Daði, 4) Bjarni, f. 1952, giftur Aðalbjörgu Jónasínu Finnbogadóttur, f. 1955, börn þeirra eru: a) Ingibjörg, f. 1995, b) Finnbogi, f. 1995, dóttir Bjarna og Lilju Júlíusdóttur er Margrét, f. 1980. Ingvar hóf búskap ásamt eiginkonu sinni að Eyjólfsstöðum árið 1954 og bjuggu þau þar allt til ársins 1995, er þau fluttu að Mýrarbraut 33, Blönduósi. Ingvar lauk námi frá bændaskólanum á Hvanneyri og starfaði að því loknu að búi Theodóru móður sinnar uns hann flutti að Eyjólfsstöðum. Jafnhliða búskap á Eyjólfsstöðum stundaði hann ýmis störf m.a. járnsmíði og var þekktur fyrir vandaða skeifnasmíði. Útför Ingvars fór fram í kyrrþey frá Blönduóskirkju 22. apríl síðastliðinn.
Nú er hann Doji frændi allur. Trúlega hefur hann verið feginn að fá hvíldina.
Minningarnar um hann Doja eru margar og allar góðar. Hann kemur ríðandi á jörpum, vökrum hesti, hann er kominn að vana fola, hann smíðar skeifur í skúrnum, eldglæringar í loftinu og okkur vantar gang fyrir göngurnar. Hann er kominn á aðfangadagsmorgun með pakkana, glaðhlakkalegur að vanda. Þegar skólagangan hófst var ekki leiðinlegt að Doji frændi keyrði skólabílinn. Hann kom með hatt á Rússajeppanum og það var söngur og gleði í bílnum.
Hann fór í sitt fyrsta ferðalag er hann flutti frá Sólheimum að Hvammi sem hvítvoðungur. Amma reiddi hann sér við brjóst og heyrði ég talað um að hann hafi verið sjóðheitur þegar hann var tekinn upp á Stóru-Giljá. 12 árum síðar kom hann aftur niður að Stóru-Giljá eftir að hafa grafið sig í fönn á Sauðadal ásamt öðrum manni. Um nóttina varð maðurinn úti en Doji lifði nóttina af í ullinni næst sér.
Löngu eftir hina köldu nótt á Sauðadal syngur Doji ásamt Lillý konu sinni og segir " Ekki skil ég að nokkur hjón syngi jafnvel og við ". Þau eru að koma frá gleðskap á bjartri sumarnóttu.
Hann Doji kvæntist heimasætunni á næsta bæ. Heimilið á Eyjólfsstöðum var annálað fyrir snyrtimennsku og myndarskap, gestrisnin var einstök, tekið vel á móti börnum, gamalmennum og öllum þar á milli. Hún Lillý var líka öndvegiskona sem öllum gerði vel.
Faðir minn og Doji voru um margt ólíkir bræður en þeim þótti vænt hvorum um annan og vildu hag hins sem mestan. Þeir hjálpuðust að við búskapinn og lánuðu tæki og tól á milli bæjanna. Ekki þótti þó föður mínum gott að fá far með Doja sem lagði oft ekki af stað fyrr en á síðustu stundu og keyrði þá gapalega.
Að leiðarlokum vil ég og fjölskyldan þakka fyrir allt það góða og skemmilega, nágrenni, frændsemi og vináttu og við biðjum fjölskyldunni frá Eyjólfsstöðum allrar blessunar.
Theodóra Reynisdóttir.
Ingvar Steingrímsson var fjölhæfur maður, smiður á járn og tré, smíðaði skeifur, gelti hesta, klippti karlmenn austan ár, söng í kirkjukór, gerði loftrásir í heyið svo það hitnaði ekki, og braut land til ræktunar. Hann var félagslyndur og mannblendinn, átti létt með að leiða orðræður, rökræddi af skynsemi og naut upplýsinga sem tengdafaðir hans aflaði. Hann hafði hemil á óstýrilátustu skepnum, gekk að þeim fumlaus og öruggur svo þau lutu vilja hans. Síðla sumars kallaði hann á mig og kvaðst hafa erfitt verk fyrir okkur því nú þyrfti nauðsynlega að járna gradda sem hann hefði selt og ætti ferð fyrir höndum: komdu suður í hesthúskofa að líta á kauða. Mér leist ekkert á blikuna þegar ég sá hvar hesturinn æddi um í krónni, en einhvern veginn komum við bandi um hálsinn á honum og yfir hann miðjan og gátum reyrt hann við stoð sem skorðuð var í hlaðinn garðann og upp í þverbita. Síðan hófst sú athöfn sem líður mér seint úr minni, að járna þennan fola, ég með fótinn í lúkunum og Ingvar léttstígur fyrir framan og talaði við hestinn sem reyndi að bíta og slá, ég blóðgaður undan hóffjöðrunum, uns allt í einu að klárinn skildi það sem sagt var við hann, að þetta væri lítið mál og óþarfi að djöflast svona - og böndin slitin. Það var ró bóndans sem hafði þessi áhrif, lagni hans, handflýti og áratuga reynsla.
Þannig var Ingvar, athugull og næmur, gaf um leið og hann aflaði, gladdi fólk með sögum og létti því tilveruna. Hann hvarf af vettvangi dalsins þegar árin gerðu honum erfitt fyrir, eins og margir bændur sem una ekki við óslegin tún og hrörnun, en yfirgefa það sem þeir elska og er þeim runnið í blóð og merg; víkja fyrir þeim sem getur viðhaldið og byggt upp á ný það sem ávannst með lagni og smiðsauga.
Ingvari Steingrímssyni á ég margt að þakka, áhrifa hans gætir víða og svip hans bregður fyrir þegar minnst varir, ekki síst þegar þörf er á ró í verki, og ekki víst að flan sé til fagnaðar; og enn hljóma í eyrum þær sögur sem hann sagði og höfðu margar dýpri merkingu en ég hugði ungur drengur, en uppljúkast nú í leiftri er árin líða fram.
Með þessum fáu orðum þakka ég Ingvari samfylgd og vináttu og votta fjölskyldu hans samúð mína.
Níels Hafstein.