Gunnar Hauksson fæddist í Reykjavík 1. febrúar 1951. Hann lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 26. ágúst síðastliðinn. Foreldrar hans voru Aðalbjörg Sigurðardóttir, húsmóðir, f. 9. maí 1924, d. 28. maí 2005, og Haukur Gunnarsson, fyrrverandi verslunarstjóri í Rammagerðinni, f. 18. júlí 1921, d. 3. febrúar 2009. Systkini Gunnars eru: Ingibjörg, f. 18. september 1945, d. 15. júlí 1951. Sigurður, leirkerasmiður, f. 20. janúar 1952, kvæntur Hrefnu Steinsdóttur, deildarstjóra. Þau eiga tvo syni, Stein og Hannes. Ingibjörg, fjármálastjóri, f. 4. september 1957, gift Einari Sveini Ingólfssyni, fjármálastjóra. Þau eiga tvo syni, Hauk Inga og Kára. 25. október 1975 kvæntist Gunnar eftirlifandi eiginkonu sinni, Jóhönnu Geirsdóttur, kennara við Fjölbrautaskólann í Breiðholti. Foreldrar hennar eru Ingveldur Guðlaugsdóttir, f. 31. janúar 1928 og Geir Gunnarsson, f. 9. apríl 1916, d. 10. júlí 1978. Börn Gunnars og Jóhönnu eru: 1) Aðalbjörg, handverkskona, f. 9. maí 1976. 2) Haukur, viðskiptafræðingur, f. 29. maí 1977, kvæntur Rakel Svansdóttur, kennara, f. 29. júlí 1977. Þeirra dætur eru Helena Bryndís. f. 20. apríl 2001 og Hildur Telma, f. 27. október 2004. 3) Valur, kennari, f. 14. janúar 1982, sambýliskona hans er Ragnhildur Sigurðardóttir, kennari, f. 7. júní 1982. Sonur þeirra er Gunnar Freyr, f. 1. janúar 2009. Gunnar útskrifaðist frá verslunardeild Verslunarskóla Íslands og stundaði síðan verslunarnám í London í eitt ár. Er heim kom hóf hann afgreiðslustörf hjá Silla og Valda. Hann var einnig verslunarstjóri Pennans á Laugavegi 178 í rúm tvö ár. Á árunum 1975-1991 starfaði hann með föður sínum í Rammagerðinni. Árið 1991 tók hann við Íþróttahúsinu Austurbergi og vann þar til dauðadags. Hann var einnig forstöðumaður Íþróttahúss Kennaraháskólans og Íþróttahúss Seljaskóla. Gunnar starfaði í mörg ár fyrir Sjálfstæðisflokkinn og var formaður í stjórn Laugarneshverfis og síðar í Fella- og Hólahverfi. Hann var formaður Sjálfstæðisfélagsins Varðar í tvö ár. Gunnar var félagi í Skíðadeild Hrannar og formaður deildarinnar í mörg ár. Hann var einnig í sóknarnefnd og síðar formaður í Fellasókn í Fella- og Hólakirkju. Gunnar var dyggur stuðningsmaður Íþróttafélagsins Leiknis í Breiðholti. Ákveðið hefur verið að heiðra minningu Gunnars með því að stofna minningarsjóð og verður hlutverk hans að styrkja starf yngri flokka knattspyrnudeildar Leiknis. Stofnendur og umsjónarmenn sjóðsins eru Jóhanna Geirsdóttir, ekkja Gunnars, og fjölskylda. Framlög má leggja inn á reikning nr. 0115-15-630268, kt. 270551-2039 Útför Gunnars fer fram frá Fella- og Hólakirkju föstudaginn 4. september og hefst athöfnin kl. 13:00.

Það er með miklum söknuði sem ég kveð hann Gunna vin minn og mág sem ég hef þekkt frá barnæsku. Hann var afar barngóður og alltaf svo góður og skemmtilegur. Ótal margs er að minnast, en ég minnist sérstaklega þegar hann bauð mér á sumarnámskeið í Íþróttaskólann á Leirá. Það var á þeim tíma þegar ekki var sjálfsagt að krakkar færu á sumarnámskeið, en Gunni vissi að mig langaði mikið að fara og vildi endilega gera mér það kleift. Ég brosi líka í gegnum tárin þegar ég rifja upp bíóferðir okkar þegar Jóhanna lá á sæng með Aðalbjörgu og ferð okkar um Snæfellsnesið og Breiðafjarðareyjar seinna um sumarið. Ég er þakklát fyrir að hafa kynnst honum og tel mig heppna að hafa átt vináttu hans í öll þessi ár. Hann var traustur vinur og alltaf tilbúinn til þess að gera manni greiða og taka þátt í öllu sem þurfti að gera. Gunni naut lífsins og lifði hamingjusömu lífi í faðmi samheldnar fjölskyldu og fjölmargra vina. Hann var alltaf hress og kátur, hafði heillandi framkomu og fólk sóttist eftir vinskap hans.

Hjálparvana stóð maður meðan Gunni barðist við sjúkdóm sinn en dáðist að þeim styrk sem Jóhanna hefur sýnt í gegnum þetta erfiða tímabil. Hún var Gunnari ómetanleg stoð og gerði þrautir hans léttbærari. Það er erfitt að trúa því að Gunnar sé allur. Hann sem var alltaf svo hraustur, lifði svo heilbrigðu lífi og var allt of ungur til að deyja.  Stórt skarð er höggvið í fjölskylduna, en við sem eftir lifum höldum áfram. Minningin um góðan dreng lifir í hjörtum okkar.

Ég votta aðstandendum öllum innilega samúð mína. Ég bið góðan Guð að styrkja Aðalbjörgu, Hauk og Val sem misst hafa góðan föður. Minni elskuðu systur, Jóhönnu, sendi ég mínar innilegustu hugsanir sem mættu verða henni huggun í harmi.

Ingibjörg Dís Geirsdóttir

Kveðja frá íþrótta- og tómstundaráði Reykjavíkur

Látinn er Gunnar Hauksson, mikilvirkur stjórnandi íþróttamannvirkja í Breiðholti og máttarstólpi íþrótta- og æskulýðsstarfs í hverfinu. Gunnar réðst til Reykjavíkurborgar árið 1991 þegar hann var ráðinn forstöðumaður Breiðholtslaugar og íþróttahússins við Austurberg. Síðar var hann einnig fenginn til að taka við rekstri íþróttahúss Seljaskóla og íþróttahúss Kennaraháskólans og annaðist hann samrekstur þessara mannvirkja til dauðadags. Það var því í mörg horn að líta hjá Gunnari og segja má að hann hafi í raun gegnt mörgum störfum. Þeim gegndi hann af stakri trúmennsku og glæsibrag gagnvart Reykjavíkurborg og hinum fjölmörgu notendum íþróttamannvirkjanna, ekki síst ungum iðkendum Íþróttafélags Reykjavíkur, Íþróttafélagsins Leiknis og Sundfélagsins Ægis.

Um leið og Gunnar leitaði stöðugt nýrra leiða til að bæta reksturinn, hafði hann forgöngu um viðhald og ýmsar nýjungar, sem miðuðu að því að auka notagildi mannvirkjanna og þjónustu í þágu almennings. Samrekstur mannvirkjanna var á sínum tíma frumraun, áskorun sem skilaði, undir stjórn Gunnars, miklum rekstrarlegum ávinningi fyrir Reykjavíkurborg. Góðan árangur hans er rétt að hafa til hliðsjónar við núverandi aðstæður, þegar leita þarf allra leiða til að auka hagræðingu í opinberum rekstri.

Auk langs vinnudags við rekstur íþróttamannvirkja var Gunnar máttarstólpi í öðru félagsstarfi. Hann tók virkan þátt í kirkjustarfi og lét framfaramál Breiðholts sig miklu varða. Gunnar var dyggur stuðningsmaður Leiknis og lagði félaginu lið með ýmsum hætti. Hann hafði gott lag á börnum og ungmennum og hvatti þau óspart til þátttöku og afreka í íþróttastarfi. Margar sögur eru til af hjálpsemi hans gagnvart þeim sem átt hafa undir högg að sækja í þessu fjölmennasta hverfi borgarinnar enda er hann af mörgum kallaður ,,Gunnar góði. Um leið og hann þrýsti á hagsmunamál Breiðholts innan borgarkerfisins lagði hann sitt af mörkum til að auka jákvæðar umræður um hverfið og efla stolt meðal Breiðhyltinga.

Gunnar var mikill sjálfstæðismaður og gegndi m.a. formennsku í stjórn hverfafélaganna í Laugarneshverfi og Hóla- og Fellahverfis. Þá var hann formaður Sjálfstæðisfélagsins Varðar um tveggja ára skeið.

Að leiðarlokum eru Gunnari þökkuð ómetanleg störf í þágu íþrótta- æskulýðs- og tómstundamála í Reykjavík. Aðstandendum og samstarfsmönnum sendi ég innilegar samúðarkveðjur.


Kjartan Magnússon, formaður íþrótta- og tómstundaráðs.

Okkur í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti langar að minnast með nokkrum orðum vinar okkar og samstarfsmanns, Gunnars Haukssonar, sem lést langt fyrir aldur fram hinn 26. ágúst sl.  úr illvígum sjúkdómi.

Gunnar var vel á sig kominn bæði andlega og líkamlega. Hann var hafsjór af fróðleik og naut sín vel í góðra vina hópi. Þess nutum við þótt ekki teldist hann meðal starfsmanna skólans. Hann var góður íþróttamaður og æfði blak með hópi kennara. Með öðrum renndi hann fyrir silung og hafði unun af enda klókur veiðimaður.  Gunnar var hvers manns hugljúfi og alltaf boðinn og búinn að rétta okkur hjálparhönd hvort sem um var að ræða útskriftir í íþróttahúsinu eða að við þurftum á aðstoð hans að halda í málum sem tengdust starfi hans sem forstöðumaður íþróttahússins.

Hvað get ég gert fyrir ykkur, vinir mínir? Það var viðmótið. Við minnumst góðs drengs sem ætíð var reiðubúinn að leysa öll mál með bros á vör. Gunnar er harmdauði okkur öllum en minningin um góðan dreng mun lifa. Við í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti söknum góðs vinar og félaga.Við vottum Jóhönnu og börnunum okkar dýpstu samúð.

Fyrir hönd starfsfólks í FB,

Stefán Benediktsson