Þuríður Bára Halldórsdóttir fæddist í húsinu Viðvík í Laugarnes hverfi í Reykjavík 1. júní 1928. Hún lést þann 7. maí síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Guðlaug Helga Guðbrandsdóttir og Halldór Eiríksson. Bára átti 7 systkini, þau Guðbrand, Eirík og Ágústu Guðrúnu sem öll eru nú látin. Eftirlifandi úr systkinahópnum eru þau Guðlaug Ósk, Bragi, Brynjólfur og Guðberg. Bára giftist Bjarna Guðlaugssyni frá Giljum í Hvolhreppi þann 30. júlí 1950 að Odda á Rangárvöllum. For eldrar hans voru Láretta Sigurjóns dóttir og Guðlaugur Bjarnason. Bára og Bjarni eignuðust 3 dætur. Þær eru: 1) Hafrún Lára, fædd 1. janúar 1950. 2) Brynja, fædd 4. apríl 1957 og 3) Erna, fædd 3. desember 1958. Barnabörnin eru 9 talsins og barnabarnabörnin 13. Útför Þuríðar Báru hefur farið fram í kyrrþey.

Elsku besta amma mín.

Með þungum tárum og miklum söknuði kveð ég þig í hinsta sinn.

Það fljúga svo margar minningar í gegnum huga minn þegar ég hugsa til þín. Um konuna sem hefur hvatt mig áfram í gegnum lífið. Verið mín fyrirmynd í svo mörgu og elskað mig svo heitt. Rosalega finnst mér erfitt að þú sért farin, það er svo tómlegt án þín og ég bara get ekki hætt að gráta. Ég bara trúi ekki að ég eigi ekki eftir að sjá þig aftur, eða heyra þig segja hvað þú sért þakklát fyrir að við séum öll rétt sköpuð.

Þú og afi eruð höfuð fjölskyldunnar og hafið sýnt okkur hinum hvernig á að lifa í hamingju farið aldrei ósátt að sofa það er lykillinn sagðir þú alltaf. Alltaf gat ég leitað til þín amma mín, alltaf í eldhúsinu og passað að allir séu saddir og glaðir. Þú varst svo sterk í gegnum öll veikindin þín og ég man þegar ég kom til þín og alltaf sagir þú, þetta lagast og trú þín skein svo úr andliti þínu að færa mátti fjöll með henni. Ég elska jákvæðnina í þér og hún lifir í okkur sem eftir erum.

Eftir þunga baráttu við sjúkdóminn ertu komin í dýrðina Hans, þar sem engir verkir eru eða erfiðleikar, bara ást.

Þessi skilyrðislausa ást þín á okkur lifir í hjörtum okkar sem eftir sitjum og veistu að heimurinn er fátækari án þín.

Sjáumst hjá föður okkar.

Þín,

Sigrún Lína.

Hinsta kveðja.

Ég kveð þig, hugann heillar minning blíð,
hjartans þakkir fyrir liðna tíð,
lifðu sæl á ljóssins friðar strönd,
leiði sjálfur Drottinn þig við hönd.
(Guðrún Jóhannsdóttir.)

Systkinin.

Elsku mamma okkar.
Margs er að minnast og margt er að þakka. Þú varst svo ánægð með
barnabörnin og barnabarnabörnin þín og lést þess óspart getið hve falleg og
góð þau voru. Við fjölskyldan vorum þér allt og þú okkur. Þú varst
dugleg í því að koma okkur saman, hvort sem var í mat eða að fara í
sumarbústað, bara svo við gætum verið saman. Yndisleg húsmóðir alveg
sama hvað þú tókst þér fyrir hendur, baka, prjóna, sauma, mála, setja
rúður í glugga. Það var ekkert mál fyrir þig. Það var alltaf líf og fjör
í kringum þig. Heimili ykkar pabba stóð ávallt opið fyrir ættingja og
vini bæði út á Nesi og einnig inn á Hrísó og var oft kátt á hjalla. Það
var ekki vandamál að útbúa eina og eina brúðkaupsveislu heima. Sú fyrsta
fyrir litla bróðir þinn og stuttu seinna fyrir elstu dóttur þína. Þú
lagðir mikla áherslu á að við styddum hvort annað bæði í gleði og sorg,
því megum við ekki gleyma. Þú varst hrókur alls fagnaðar á öllum
mannamótum og hafðir gaman af því að syngja og dansa þótt heilsan leyfði
það stundum ekki. Yndislegt var að sjá ykkur pabba saman. Þið stóðuð
þétt saman í öllu, hvort sem það var að byggja hús, garðvinna eða að
baka. Þið voruð dugleg að skreppa í bíltúr, hvort sem var upp á skaga
eða austur að kíkja á ættingja. Þið hugsuðuð hvort um annað í ykkar
veikindum og stóðuð ykkur vel í því. Unun var að sjá ást ykkar og
virðingu hvort við annað. Við áttum með þér yndislega daga, meðal annars
gullbrúðkaupsdaginn ykkar pabba sem var árið 2000. Þá komum við saman í
dalnum með fjölskyldu og vinum og var það frábær dagur. Síðan áttatíu
ára afmælin ykkar beggja með tveggja ára millibili sem urðu
ógleymanlegir dagar fyrir okkur öll. Að ógleymdum Danmerkurferðunum til
að heimsækja barnabörn og barnabarnabörn sem munu aldrei líða úr minni
okkar.

Elsku mamma, minningin um þig mun alltaf lifa, þú gleymist
aldrei. Guð geymi þig. Þínar dætur,

Lára, Brynja og Erna.