Sigurlaug Sigurðardóttir fæddist á Vigdísarstöðum í Miðfirði í Vestur-Húnavatnssýslu 4. febrúar 1919. Hún lést á Vífilsstöðum 8. ágúst sl. Foreldrar hennar voru Sigurður Bjarnason, f. 1. janúar 1880, d. 29. desember 1940, og Ingibjörg Daníelsdóttir, f. 19. nóvember 1879, d. 11. október 1970. Systkini Sigurlaugar voru Frímann, f. 1903, d. 1979, Sigríður, f. 1905, d. 1998. Margrét, f. 1906, d. 2001, Bjarni, f. 1910, d. 1998, Hólmfríður, f. 1914, d. 2002, og Kristín, f. 1917, d. 1940. Sigurlaug ólst upp á Vigdísarstöðum, en flutti til Reykjavíkur 16 ára gömul. Sigurlaug vann við ýmis störf fram eftir aldri. Upp úr 1970 tók ásamt öðrum að sér rekstur Gufubaðstofunnar á Hótel Sögu, sem hún síðan rak fram til 1987. Sigurlaug giftist 19. maí 1946 Jón Pálssyni póstfulltrúa frá Sauðanesi í Austur-Húnavatnssýslu, f. 28. september 1914, d. 1985. Þau bjuggu lengst af í Einarsnesi 64 í Reykjavík. Frá árinu 2004 naut Sigurlaug góðrar aðhlynningar á Hjúkrunarheimilinu Vífilsstöðum. Sonur Jóns og Sigurlaugar er Páll Árni, f. 1950, kvæntur Ásdísi Björgvinsdóttur, f. 1953. Þau eiga tvö börn, Jón Helga, f. 1976, í sambúð með Lilju Garðarsdóttur, f. 1980, og Kristbjörgu, f. 1983. Útför Sigurlaugar fer fram frá Neskirkju í dag, 14. ágúst, kl. 11.
Nú hefur Sigurlaug kvatt þetta tilverustig, við hugsum hlýtt til hennar og vonum að vel hafi verið tekið á móti henni á nýjum slóðum. Hún var sönn og trú í allri framkomu, snögg upp á lagið og lét engan eiga neitt inni hjá sér. Sigurlaug var eftirminnileg öllum sem kynntust henni en hún var alls ekki allra. Hún bar virðingu fyrir einstaklingnum og tók fólki eins og það var, þannig ávann hún sér traust og virðingu samferðarmanna sinna.
Sigurlaug reyndist Helgu vel þegar Brynja kom í heiminn. Heimili Jóns og Laugu, eins og hún var jafnan kölluð, var sem annað heimili þeirra mæðgna áður en Brynja komst á dagheimili. Þegar Brynja varð sjálf móðir var Lauga boðin og búin að hjálpa og studdi hana á allan hátt. Kristjönu, systur Brynju, var einnig alltaf vel tekið og þótti henni sem barni afar kærkomið að fá ís í hverri heimsókn til Laugu. Það var siður sem aldrei brást. Okkur systrum þótti einnig einstaklega gott að tala við Laugu, jafnvel í trúnaði á erfiðum stundum í lífinu. Hún stappaði í okkur stálinu og lét okkur líða vel.
Þær mágkonur, Helga og Lauga, voru nánar vinkonur og urðu vináttuböndin sterkari með árunum. Þær ferðuðust saman vítt og breitt um veröldina og skemmtu sér mjög vel og nutu þess að vera til, kíktu til að mynda á píramída í Egyptalandi og horfðu á kvöldsólina á Kýpur. Þegar Lauga og Helga hittust eftir að hún fór á Vífilsstaði rifjuðu þær vinkonur upp ferðasögur sínar auk þess sem Lauga talaði um fyrri dvöl sína á Vífilsstöðum sem ung kona að glíma við berkla.
Við mæðgur þökkum Laugu langa og góða samfylgd og hlýhug í garð okkar allra. Við vottum Palla og fjölskyldu innilega samúð. Fari Sigurlaug í friði og hafi hún þökk fyrir allt og allt.
Helga Pálsdóttir, Brynja og Kristjana Mjöll.