Ingi Björn Halldórsson fæddist á Borg á Borgarfirði eystra þann 7. desember 1929. Hann andaðist á Landsspítalanum í Fossvogi 22. júní síðast liðinn. Ingi Björn var sonur Halldórs Ásgrímssonar alþingismanns og kaupfélagsstjóra á Vopnafirði, f. 17. apríl 1896 d. 1. desember 1973 og konu hans frú Önnu Guðnýjar Guðmundsdóttur skólastjóra og kennara f. 7. desember 1895 d. 20 nóvember 1978. Hann ólst upp á Borgarfirði eystra til 1940 en fluttist þá til Vopnafjarðar með fjölskyldunni og eyddi þar sínum æsku- og unglingsárum. Bræður Inga eru Árni Björgvin f. 17. október 1922 d. 31. mars 2000, Ásgrímur Helgi f. 7. febrúar 1925 d. 28 mars 1996, Guðmundur Þórir f. 10 ágúst 1932 og Halldór Karl f. 5. janúar 1937. Ingi Björn giftist árið 1951 Valborgu Árnadóttur, hjúkrunarfræðingi f. á Vopnafirði 12. febrúar 1930, dóttur Árna Vilhjálmssonar héraðslæknis á Vopnafirði og frú Aagot Fougner Johansen. Ingi og Valborg slitu samvistum 1981. Börn þeirra eru 1) Anna Guðný, hjúkrunarfræðingur, f. 13 apríl 1955, gift Hans Dingler skrifstofumanni, sonur þeirra er Inuk hjúkrunarfræðingur, f. 2. júní 1982. 2) Brynja, hjúkrunarfræðingur f. 2. nóvember 1961, gift Guðmundi Óla Hreggviðssyni líffræðingi, dætur þeirra eru Valborg, f. 21. október 1987 og Hallbera f. 27. febrúar 1992. 3) Brjánn, hljóðfæraleikari, f. 6. febrúar 1964, giftur Bryndísi Björgvinsdóttur, hljóðfæraleikara, börn þeirra eru Björg, f. 10. apríl 1993; Guðrún, f. 27. nóvember 1995 og Ingi f. 20 mars 2002. Ingi Björn lauk námi frá Barna og unglingaskólanum á Vopnafirði árið 1944, stundaði nám við Héraðsskólann að Laugum 1945-1947, sigldi hjá Skipaútgerð Ríkisins 1948- 1950 og útskrifaðist árið 1952 úr farmannadeild Stýrimannaskóla Reykjavíkur. Ingi vann sem stýrimaður og skipstjóri hjá skipadeild SÍS frá 1952 til 1962, flutti þá til Reyðarfjarðar og vann hjá Kaupfélagi Héraðsbúa í tvö ár, fór síðan aftur í siglingar hjá SÍS til 1966. Eftir það vann hann á Sjávarafurðadeild SÍS til starfsloka 1997. Einnig vann hann öðru hvoru við fylgd skipa um ströndina, stjórnaði uppskipun og fór með skip erlendis. Ingi Björn sat í stjórn Skipstjórafélags Íslands frá 1968 til 1976 og var í stjórn Reykjavíkurhafnar í 3 ár. Hann tók þátt í stjórn og starfsemi Átthagafélags Borgfirðinga eystri í Reykjavík um árabil. Ingi var í tómstundum með grásleppuútgerð frá Reykjavíkurhöfn á árunum 1972 til 1978 en síðar keypti hann hlut í jörðinni Húsar í Rangárvallarsýslu og dundaði sér þar við hesta og trjárækt þar til heilsa hans brast. Síðasta æviárið dvaldi hann á Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund. Útför Inga Björns fór fram í kyrrþey þann 9. júlí frá Hvalsneskirkju í Sandgerðisbæ og var hann jarðsettur í kirkjugarðinum þar.

Ingi ólst upp á mannmörgu heimili undir verndarvæng Ninnu fóstru sinnar sem hann tengdist sterk. Ingi var kallaður Gói af Borgfirðingum, lítill húsalalli sem undi sér vel í skjóli bræðra, frændfólks og annarra í fallegasta firði Íslandi. Á sumrin var hann kúasmali í Gagnstöð hjá Guðna bónda og átti hann mjög góðar minningar frá þeirri vist.

Ingi vann allan sinn starfsaldur fyrir Samband Íslenskra Samvinnufélaga. Það varð honum mikið persónulegt áfall þegar og hvernig SÍS og lífeyrissjóðurinn hans liðu undir lok, rétt fyrir starfslok hans. Hann giftist fallegu æskuástinni sinni og sagði alltaf með virðingu að Valborg hefði gefið honum það besta í lífi sínu, nefnilega þrjú yndisleg börn. Hann var góður vinur tengdaföður síns, Árna Vilhjálmssonar héraðslæknis á Vopnafirði. Árni fór í nokkra siglingartúra með Inga til útlanda og höfðu báðir gaman af, svo og af endalausum söguíhugunum, sérstaklega um Njálu.

Ingi var ljúfur faðir og ég var mikil pabbastelpa. Hann sagði gjarnan sögur, söng og las mikið fyrir okkur sem börn. Sumarfríum var eytt í ferðalög um landið, veiðar og heimsóknir til átthaganna fyrir austan. Brjánn fékk að snattast í kringum trilluna hans og Ingi var stoltur af að afhenda honum skipstjórashúfuna sína 30 árum seinna við sjósetningu Bjartmars, báts Brjáns. Um 1978 var byggður sumarbústaður í Grímsnesi í samvinnu við mága hans Rolf og Þórólf Árnasyni sem ásamt Guðmundi bróður hans voru miklir Bridge-spilafélagar hans í gegn um árin.

Á Húsum upplifði Inuk hjá afa sínum og frændum yndisleg sumur. Inuk var bundinn sterkum taugum til afa sinn alla tíð og var mikið með honum bæði á Íslandi og í Hollandi. Frá 1978 til 2005 var hann okkar aufúsugestur, öll sumur og mörg jól. Það var mjög ánægjulegt að ferðast með honum á meginlandinu. Ingi var mjög vel lesinn, fróður og fús á miðla þessari þekkingu með sínum nánustu, einnig á ferðalögum um Ísland með hollenska tengdasyni sínum en á milli þeirra ríkti alla tíð kærleikur, eða frá því að hann sótti Hans niður á Reykjavíkurhöfn þegar hann kom í fyrsta sinn til Íslands vorið 1977.

Fyrir 10 árum fóru að koma í ljós fyrstu merki um Alzheimarsjúkdóminn. Byrjuninni var tekið með jafnaðargeði, enda engin hugmynd um hvaða þrautarganga biði. Hann hélt reisn sinni, hlýleika og elskulegum karakter, til hins síðasta. En hann missti stöðugt, hægt og sígandi hvarf minnið í hinu daglega lífi og jókst einnig einmanaleiki hans og óöryggi. Við gerðu allt til að minna hann á að hann gæti treyst á að hann væri ekki einn heldur elskaður og verndaður af börnum, tengdarbörnum og barnabörnum. Hann treysti alfarið á Brynju dóttur sína við að halda sjálfstæði sínu og daglegu lífi eins vel gangandi og kostur gafst. Hann naut elskulegrar þjónustu af heimahjúkrunarfræðingum og dagvistar í Drafnarhúsi. Það var lengi hægt að tala saman í síma, spila á spil, leggja kapal, njóta að drekka kaffi, glettast og hlæja saman og spjalla um fyrri daga með honum og hann reyndi eins og hann gat að fylgjast með sínu fólki. Hann var alltaf stoltur af stelpunum, tíunum sínum, tónlistinni þeirra og einnig var það mikill gleðidagur í lífi hans að vera skírnarvottur nafna síns Inga Brjánssonar vorið 2002.

Guðmundur bróðir hans sýndi Inga mikið trygglyndi og umhyggju í veikindum hans. Það geta allir lært að umgangast sjúkling með heilabilun og það er mikill styrkur í því, bæði fyrir þann veika og nánustu aðstandendur ef vina og frændrækni er í hávegum höfð þegar fer að syrta á í tilverunni með þessum sjúkdómi sem menn geta þurft að lifa með í langan tíma.

Í mars 2008 flutti Ingi á dvalarheimilið Grund. Starfsfólkið á deild 4 gerði honum lífið eins bærilegt og mögulegt var. Hann skynjaði og þekkti fólkið sitt til andláts.

Ingi fékk að yfirgefa þessa tilveru umvafinn ást og þakklæti í örmum fjölskyldunnar kvöldið 22. júní 2009 á Landsspítalanum í Fossvogi.

Anna Guðný Ingadóttir.