Antonía Antonsdóttir. Antonía var fædd á Selá á Árskógsströnd 20 september 1931 Hún andaðist á Sjúkrahúsinu á Akureyri 29/9 2009 Foreldrar hennar voru Svanbjörg Árnadóttir f. 14/3 1903 d. 4/9 1972 og Sigurður Anton Jóhannsson f. 23/6 1902 d. 30/6 1931. Bróðir Antoníu er Jóhann Sigurðsson Antonsson f. 30/8 1927 giftur Petreu Jennýju Gunnarsdóttur. Þau eiga heima á Hauganesi Antonía giftist ekki og var ekki í sambúð en eignaðist soninn Rúnar Berg 8. janúar 1964. Faðir hans er Aðalbjörn Sigurlaugsson Antonía fluttist með móður sinni og bróður að Selvík á Hauganesi 1935, en faðir hennar andaðist áður en hún fæddist. Hún átti lengst af heima á Hauganesi byggði þar húsið Berg þar sem hún bjó með móður sinni og syni, en fluttist síðan til Akureyrar. Hún stundaði margs konar vinnu um æfina. 17 ára fór hún í vist til hjónanna Fjólu Eiríksdóttur og Haraldar Ágústssonar í Keflavík. Voru þau henni sem foreldrar og tengdist hún þeim og börnum þeirra sterkum vináttuböndum. Seinna vann hún m.a.við fiskvinnslu, síldarsöltun og ýmis þjónustutörf td. að Bifröst í Borgarfirði, Hótelinu í Borgarnesi, Hornbjargi og víðar. Lengst vann hún við afgreiðslustörf á Hauganesi þegar KEA var þar með útibú. Hún vann einnig smátíma í Noregi og Svíþjóð á árunum 1955-1956 Veturinn 1949-1950 var hún við nám á Kvennaskólanum á Blönduósi. Útförin fór fram frá Stærri-Árskógskirkju 7.okt. í kyrrþey að ósk hinnar látnu. Þessi formálsorð ásamt minningargreinum sem koma óskast birt fimmtudaginn 8. okt.
Hún Antonía vinkona mín er dáin,og lést eftir harða baráttu við krabbamein,
en þar fór hetja, sem tók sínum örlögum af einstöku æðruleysi en baráttan var hörð. Aðgerð í fyrra haust og síðan löng geislameðferð fram í miðjan janúar, en þá var hún í Reykjavík og hélt til hjá einkasyni sínum Rúnari Berg sem gerði allt sitt besta til að annast hana.
Í vor kom hún svo norður og var heima hjá sér í Skálateignum, en ferðir á sjúkrahús voru margar og öllu tekið með jafnaðargeði. Þetta er bara svona". Þakklát við alla sem sinntu henni og vildi helst engan ómaka" en öllum sem sinntu henni læknum og hjúkrunarfólki svo þakklát.
Ég og mín fjölskylda kynntumst Antoníu þegar við fluttum á Hauganes vorið ´84 og vorum boðin velkomin með hlýju og glaðværu viðmóti þeirra Antoníu og Rúnars sonar hennar. En árin liðu og bæði við og þau fluttu inn á Akureyri og hélst og styrktist vináttan. Hún Antonía gaf svo mikið af sér með sinni gleði og hlýju og gaf sig á tal við börnin sem hún hitti á förnum vegi, eins og til að kanna hvort ekki væri allt í lagi eða gaf þeim svolitla hvatningu til góðra verka. Barnabörnin mín hér á Akureyri litu á hana eins og ömmu enda umhyggjusöm við þau
Ýmislegt var gert saman skroppið út á Hauganes og litið til vina og ættingja tínd ber og skorið út laufabrauð. Börnin biðu alltaf spennt eftir að sjá handskornu kökurnar hennar Antoníu og reyndu eð gera eins með misjöfnum árangri en hennar kökur fengu oft að njóta sín efst á diskinum.
Mikið dáðist ég að natni hennar og þolinmæði við að halda hárinu sínu alltaf fallegu en hún þurfti fyrir því að hafa. Ég sagði stundum við hana að guð hefði gefið henni þolinmæði en mér gott hár og enga þolinmæði þannig var það.
Ég og mín fjölskylda þökkum allar stundir með þér kæra vinkona því allar voru þær ljúfar og góðar. Guð blessi þig.
Megi guð gefa þér styrk Rúnar minn.
Soffía, Kalli og fjölskylda.