Guðrún Álfgeirsdóttir fæddist í Reykjavík 14. nóvember 1939. Hún lést á gjörgæsludeild Landspítalans í Fossvogi 14. mars 2009. Foreldrar hennar voru Álfgeir Gíslason frá Gröf í Hrunamannahreppi, f. 20.12. 1897, d. 8.8. 1974 og Olga Vilhelmína Sveinsdóttir frá Læk í Önundarfirði f. 30.7. 1901, d. 30.8. 2000. Guðrún átti 2 systkini : Gísla Álfgeirsson f. 29.5. 1931, d. 25.2. 1997 og Kristin Álfgeirsson f. 8.1. 1937. Hinn 5. desember 1964 giftist Guðrún Guðmundi Jóhannssyni húsgagnakaupmanni frá Patreksfirði f. 31.5. 1941, d. 7.6. 1998. Börn Guðrúnar og Guðmundar eru: 1) Olga Björk hjúkrunarfræðingur f. 5.4. 1963, maki: Snorri Hreggviðsson, þeirra börn eru Heiðdís, f. 28.10. 1987, og Harpa, f. 2.11. 1994. 2) Hólmfríður sjúkraliði, f. 16.7. 1968, maki: Sighvatur Bjarnason, þeirra börn eru Fannar Freyr, f. 18.6. 1997 og Brynjar Dagur f. 11.7. 2003. 3) Jóhanna Hjördís þjónustufulltrúi, maki: Jóhannes R. Ólafsson. Þeirra börn eru Dagný Björk, f. 19.12. 1995 og Guðmundur Aron f. 19.7. 2004. Guðrún starfaði við verslunarstörf lengst af ævi sinnar og stunduðu þau hjónin saman verslunarrekstur. Síðustu árin vann Guðrún við sjálfboðaliðastörf hjá Rauða krossi Íslands. Útför Guðrúnar fór fram frá Fríkirkjunni í Reykjavík föstudaginn 20. mars sl.

Til minningar um Guðrúnu Álfgeirsdóttur, vinkonu mína.

Við Guðrún kynntumst fyrir nokkrum árum, ég man ekki hvað mörgum. Við höfðum frá fyrstu kynnum eitthvað sameiginleg, vináttu. Hún ók ekki bíl, og ég kom til hennar oft, kannski annan hvorn dag. Hún var mér góð vinkona, ég keyrði hana í búðir og við drukkum saman kaffi og skemmtum okkur yfir góðu spjalli. Hún var gestrisin kona og gott að koma til hennar. Hún talaði mikið um Gumma sinn, og saknaði hans mikið. Hann lést fyrir aldur fram.

Lóa systir var henni góð og það var henni að þakka að hún byrjaði sem sjálfboðaliði í Kvennadeild Rauða Kross Íslands, þar sem hún stóð sig með prýði. Margar voru

ferðirnar sem við fórum saman í, sem sjálfboðaliðar, alltaf gaman. Svo voru fundirnir hjá Rauða Krossinum, oft glatt á hjalla. Mörg voru boðin, sem hún kom til mín með systrum mínum og vinum. Minnistæðast var sumarboðið á svölunum heima hjá mér, bara gaman, 25 stiga hiti, kátar konur saman, sungið og trallað, æðislegt.

Í haust átti ég merkisafmæli, og Guðrún kom með mér Ástu systur, Lóu systur til Spánar í 12 dag ferð. Ásta systir á íbúð á Costa Blanca, þar sem við nutum góðs af hennar gestrisni. Nokkrum dögum áður en lagt var í hann, bauð Guðrún okkur systrum heim og sátum við í Konnahorninu og nutum góðra veitinga. Veðrið var dásamlegt var á Spáni, en þá fórum við systur að taka eftir því að Guðrún var ekki heil heilsu. Hún átti mjög erfitt með gang þurfti að setjast niður eftir nokkur skref. Við ræddum þetta við hana, að þetta væri ekki eðlilegt, en hún gerði lítið úr því. Alltaf vel uppfærð, máluð og flott.

Daginn áður en hún veiktist, hringdi ég í hana og bauð henni að keyra hana til læknis, svarið var "mér er batnað".

Guðrún var mjög einmanna kona, enginn kom í heimsókn, sem hún þráði svo mikið. Ég held við Lóa, Kristinn og ég höfum bætt svolítið úr því.

Kristinn mágur og Lóa voru henni góð, og ég held ég hafi verið henni góð líka, því oft sagði hún Gummi minn hefur sent þig til mín".

Nú er þessi elska farin, hún er hjá Gumma sínum, það er ég viss um.

Ég varð þeirra gæfu njótandi að geta hvatt hana á gjörgæslu, strokið henni um hárið, kysst hana á kinnina, hvíslað að henni að þetta væri Gunna Steina, strauk á henni hendurnar, kvaddi hana. En ég hélt henni mundi batna.

Blessuð sé minning góðrar konu, sem ég kem til með að sakna um ókomin ár.

Bless kæra vinkona, Guð blessi þig, sjáumst hinum megin.

Þín vinkona,


Gunna Steina.