Björgvin Steinþórsson fæddist á Þverá í Blönduhlíð í Skagafirði 16. ágúst 1939. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Sauðárkróks þann 12. júlí 2008. Foreldrar hans voru Steinþór Stefánsson bóndi, f. 8.4.1908, d. 4.11.1977, og Margrét Jóhannesdóttir húsmóðir, f. 17.5. 1916, d. 13.10.1995. Systkini Björgvins eru Stefán, f. 8.1. 1935, Jóhannes, f. 27.3. 1938, látinn, Hjörtína Ingibjörg, f. 1.10. 1940, d. 23.5.2001, Gunnar, f. 29.12.1941, Magnús, f. 11.7.1944, Steinþór, f. 13.5. 1949, og Guðrún, f. 7.6. 1957. Björgvin giftist 22. október 1966 í Hafnarfjarðarkirkju Soffíu Magnúsdóttir f. 5. júní 1937 á Akureyri, d. 31.7.2004. Börn þeirra eru: a)Margrét, f. 13.febrúar 1965, gift Stefáni Hjaltalín Jóhannessyni vélvirkja, f. 21. júlí 1959, börn þeirra eru Björk, f. 31. janúar 1983, Björgvin Sveinn, f. 19. maí 1986, og Guðmundur, f. 23. deesember 1987, b)Þórdís, f. 6. janúar 1971, gift Stefáni Ingvari Guðmundssyni vélstjóra, f. 2. júlí 1968, börn þeirra eru Soffía Rós, f. 28. maí 1993, Kristfríður Rós, 24. janúar 1995 og Steinþór, f. 1. nóvemner 1996. Björgvin ólst upp á Þverá í Skagafirði og flutti suður í Hafnarfjörð ásamt Soffíu árið 1964 til þess að mennta sig en hann gekk í Iðnskólann í Hafnarfirði þar sem hann útskrifaðist 11. júlí 1969 sem skipasmiðameistari. Hann vann í Skipasmíðastöðinni Dröfn í mörg ár, og gegndi hinum ýmsum trúnaðarstörfum. Björgvin var eftirsóttur smiður og tók að sér hin ýmsu verk enda með eindæmum handlaginn og vandvirkur. Árið 1986 fór hann að vinna sem vaktmaður í Arnarhvoli, og vann þar til ársins 2004. Þegar Soffía konan hans lést 31. júlí 2004, ákvað hann að flytja frá Hafnarfirði og fara til baka í Skagafjörðinn sem að var honum svo hjartkær. Hann ákvað að byggja sér hús í Varmahlíð með útsýni yfir fallega fjörðinn sinn, fjöllin og vötnin. Þrátt fyrir erfið veikindi og heilsubrest var hann komin áleiðis í þeirri byggingu með góðri hjálp og sinni þrautseigju. Útför Björgvins fór fram í kyrrþey.
Elsku pabbi minn. Nú er ár liðið síðan að þú fékkst hvíldina. Og í dag
hefðir þú orðið 70 ára. Ég efast ekki um að mamma njóti dagsins með þér, ég
man eftir því þegar hún talaði um að þegar þið væruð orðin þetta gömul hvað
barnabörnin væru orðin gömul og okkur fannst þetta voða langt í þetta allt
saman. Og nú eruð þið bæði horfin á braut og eftir sitjum við og yljum
okkur við góðu minningarnar sem við geymum í hjartanu. Það fór nú ekki á
milli mála elsku vinurinn að þegar mamma dó þá dó eitthvað innra með þér,
lífslöngunin hvarf og þú vissir ekki hvernig þú áttir að fara að án hennar,
enda búin að hugsa alla tíð um mömmu í hennar veikindum og fjölskylduna
eins vel og þú gast.
Eftir að mamma dó þá ákvaðst þú að byggja þér hús í Skagafirðinum, og hvert
einasta smáatriði var úthugsað hjá þér, útsýnið úr hverjum glugga fyrir
sig, vinahjón þín Guðmundur og Alda byggðu við hliðina á þér og var mikið
spekúlerað í þetta alltsaman og gott að vita af þeim þarna rétt hjá þér.
Okkur var mjög umhugað að þessi draumur þinn skyldi rætast og var hann vel
á veg komin með góðri og dyggri aðstoð hans Stebba míns. Þú varst svo
glaður þegar hann kom og hjálpaði þér, þó að þrekið þitt hafi verið lítið,
þá gastu þó sagt honum til hvernig hlutirnir ættu að vera.
En svo veikist þú og greinist með krabbamein, það var svo erfitt að vera
svona langt frá þér enda reyndum við að koma eins oft og við gátum eða ná í
þig og dásamlegustu stundirnar núna eru þær stundir sem við áttum saman í
bílnum bara ég og þú. Þú varst einn gáfaðisti maður sem ég hef þekkt, þú
gast þulið upp öll fjöll frá Skagafirði og heim til mín á Snæfellsnesið,
alla fugla, vissir um alla bæji og allar sögur sem að tengdust hverjum stað
fyrir sig. Svo settum við vini þína ,,Álftagerðisbræður'' í tækið og sungum
með. Við gátum svo verið bæði tvö frá okkur numin af hrifningu þegar við
vorum komin yfir Vatnskarð og horfðum yfir Skagafjörðinn, Málmey og Drangey
í fjarska, já þarna liggja ræturnar og þær eru sterkar. Seinustu jólin þín
þá varstu hér hjá mér og mikið dregið af þér, það var sárt að horfa uppá
þig kveljast svona mikið en ég þakka guði fyrir að hafa leyft mér að eiga
þennan tíma og hugsa um þig. Og ég mun aldrei gleyma síðustu heimsókninni
minni til þín, þar sem þú og ég vissum innra með okkur að yrði síðasta
stundin okkar saman. Við ræddum ýmislegt og þú sagðir margt sem að ég mun
að eilífu geyma í hjartanu mínu. Til hamingju með daginn þinn elsku
pabbi.
Kveð þig með þessu ljóði sem mér finnst eiga vel við þig
Þegar raunir þjaka mig
þróttur andans dvínar
þegar ég á aðeins þig
einn með sorgir mínar.
Gef mér kærleik, gef mér trú,
gef mér skilning hér og nú.
Ljúfi drottinn lýstu mér,
svo lífsins veg ég finni
láttu ætíð ljós frá þér
ljóma í sálu minni.
(Gísli á Uppsölum.)
Þín
Þórdís