Æviágrip um Höskuld Stefánsson til birtingar í Morgunblaðinu 11. september 2009. Mynd er til staðar hjá Morgunblaðinu. Höskuldur fæddist á Illugastöðum í Laxárdal í Engihlíðarhreppi, Austur Húnavatnssýslu og ólst þar upp. Hann lést í Heilbrigðisstofnun Blönduóss sunnudaginn 30. ágúst sl. Foreldrar Höskuldar voru Æsgerður Þorláksdóttir húsfreyja, ættuð úr Öræfasveit f. 11. október1879, d. 3. nóvember 1956 og Stefán Bjarnason f. 6. júlí 1878, d.11. apríl 1939, bóndi á Illugastöðum. Æsgerður var dóttir Þorláks Jónssonar frá Hofi í Öræfum og Kristínar Jónsdóttur frá Hofsnesi í Öræfum. Stefán var sonur Bjarna Sveinssonar bónda á Illugastöðum og konu hans Ingibjargar Guðmundsdóttur húsfreyju. Höskuldur kvæntist 12. mars 1943 Valnýju Georgsdóttur f. 12. mars 1922, húsmóður. Hún er dóttir Guðfinnu Bjarnadóttur frá Haga í Staðarsveit á Snæafellsnesi f. 31. maí 1900, d. 24. október 1984 og Georgs J Grundfjörðs frá Hömrum í Grundarfirði f. 7. ágúst 1884, d. 4. júní 1962. Dætur Höskuldar og Valnýjar eru Erla f. 3.janúar 1946 búsett í Svíþjóð og á hún Huldu Valný f. 26. september 1961 og Höskuld f. 17. mars 1971; Sigrún f. 4. október 1949 búsett í Reykjavík og á hún Gerði Rósu f. 9. mars 1969 og Anný f. 17. janúar 1977; dóttir f. 28. maí 1955 d. sama dag. Höskuldur hóf búskap að Kirkjuskarði í Laxárdal en fluttist suður til Reykjavíkur árið 1945. Þar starfaði hann lengst af við byggingavinnu á sumrin en í Sútunarverksmiðju Sveins B Valfells í Bolholti á veturna. Síðustu árin í Reykjavík var hann svo þar verkstjóri. Höskuldur flutti til Sauðárkróks árið 1969 þegar Sútunarverksmiðjan Loðskinn hóf þar rekstur og var þar verkstjóri frá byrjun og fram til 1985 er hann lét af störfum. Hann flutti aftur til Reykjavíkur árið 1990 og bjó þá í Grafarvoginum. Síðustu árin dvaldi Höskuldur í Heilbrigðisstofnun Blönduóss. Útför Höskuldar verður frá Grafarvogskirkju í Reykjavík í dag og hefst athöfnin kl. 15:00.

Er vorsins kveðju blær úr suðri ber

og birta tekur yfir fjallasalnum,

á bernskuslóðum best ég uni mér

hjá bæjarlæk og hól á Laxárdalnum.

/

Og þú, sem hingað leggur þína leið,

Skalt litast um og hlýða dalsins ómi,

Því lækjarniður, fjöllin há og heið

allt heilsar þér og fagnar einum rómi.

(KG)

Elsku hjartans pabbi minn. Loksins  kom kallið og þú fékkst hvíldina. Árin voru orðin mörg og þú búinn að bíða þess að fá að fara. Það varð þér afar erfitt að vera orðinn upp á aðra kominn og illa farinn af ellikerlingu. Og einmitt þess vegna dróstu þig meira og meira í hlé. Þú varst snyrtimenni og lagðir mikið upp úr því að líta vel út og vera vel til fara. Og beinn og reistur varstu til síðustu stundar þrátt fyrir endurtekin áföll undir það síðasta.

Síðustu æviárin þín dvaldirðu í Heilbrigðisstofnun Blönduóss og varst ævinlega svo þakklátur starfsfólkinu þar og fannst svo vel um þig hugsað. Elsku pabbi, ég hef margs að minnast og enn meira að þakka fyrir. Þú varst alvörumaður en svo hlýr og hafðir mikla næmni og innsæi á annað fólk og líðan þess. Ábyrgur og traustur varstu og alltaf hægt að leita til þín. Faðmur þinn stóð mér opinn ef eitthvað bjátaði á hjá mér. Og þá varstu líka fljótur að bregðast við og koma á vettvang eða senda annan ef vegalengdir skildu að. Við vorum svo náin.

Snyrtimenni varstu með afbrigðum, sama að hverju þú gekkst, klæðaburður þinn, heimili þitt, bíllinn þinn og allt þitt handbragð. Þú hafðir glöggt auga fyrir samræmi og fegurð. Þér fannst ég vera lík þér með margt og fannst gott að hafa mig með í ráðum eða spyrja mig álits.

Það er varla hægt að minnast þín öðruvísi en að geta elsku mömmu í leiðinni. Ég man aldrei eftir ykkur öðruvísi en saman við allt sem þið fóruð eða gerðuð. Svo samtvinnuð og samhent voruð þið með alla hluti og allt sem þið tókuð ykkur fyrir hendur. Þú vildir alltaf hafa mömmu þér við hlið. Öll mín uppvaxtarár vannstu mikið og tókst mörg verkefnin að þér. Þú vannst í Sútunarverksmiðju Sveins B. Valfells í Bolholtinu á veturna en á sumrin varstu í byggingavinnu. Að byggingu margra stórhýsa og glæsihúsa komstu á þinni starfsævi í Reykjavík. Síðustu starfsárin þín í Reykjavík varstu svo verkstjóri í Sútunarverksmiðjunni. Ég man einnig eftir þér taka að þér í aukavinnu hreinsun á uppsláttartimbri og þá vorum við mamma stundum með þér í því.

Árin okkar í Efstasundinu liðu áfram eins og hjá flestum öðrum fjölskyldum. En þó var eitt, sem ég áttaði mig á eftir að ég varð fullorðin að hafði verið frekar óvenjulegt á þeim tíma. En það var að þú tókst þér öll sumur 3ja vikna sumarfrí og þá var lagst í ferðalög um landið. Þannig að snemma lærði ég hjá ykkur mömmu að þekkja landið okkar og unna því. Og það var mikil útgerð sem fylgdi þessum ferðalögum og snyrtimennskan var höfð í fyrirrúmi í öllum undirbúningi ferðalaganna. Eftir að þú varst sjálfur kominn á bíl man ég svo vel eftir öllum þínum frágangi áður en lagt var í hann. Öllu raðað inn í bíl og á toppinn og síðan snyrtilega yfir bundið með segli á bíltoppnum og teppi lagt yfir það sem innan bílsins var. Og svo var lagt í ´ann á fyrsta degi sumarleyfis og komið til baka á síðasta degi þess.

Árið 1969 fluttuð þið mamma til Sauðárkróks, þegar þú tókst þar við Sútunarverksmiðjunni Loðskinn. Þá varstu kominn yfir á Norðurlandið og nærri þínum æskuslóðum. Og nokkrum árum eftir búsetuflutning ykkar norður á Krók varstu farinn að hugleiða að koma þér fyrir á Laxárdalnum, sem var þér svo kær. Og þar með var hafinn sá kafli í lífi þínu, sem varð þér svo hjartfólginn.  En það voru Illugastaðir og Laxárdalurinn. Þú varst bundinn þínum æskustöðvum órjúfandi böndum og þær voru þér svo kærar. Erindin tvö í byrjun þessara orða minna til þín segja allt um sýn þína til Illugastaða og Dalsins. En þau orti kær mágur þinn Kristján Gíslason til þín á sextugsafmælinu þínu.

Já framkvæmdir þínar á Illugastöðum hófust sumarið 1974. Fyrst var það litli kofinn. En áður varstu sjálfur  búinn að reikna út og láta sníða til hverja einustu spýtu sem í kofann fór. Og eins í gestahúsið.  Þú hafðir þetta að mestu í kollinum þínum.  Allt féll svo eins og flís við rass þegar á staðinn var komið með allt efni. Allir í fjölskyldunni felldu sig við staðarvalið þegar fram liðu stundir og því var ráðist í að stækka bústaðinn. Allur varð bústaðurinn virkilega smekklegur hjá þér og allt vel til vandað. Áður hafði vatnið verið leitt úr bæjarlæknum en nú var ráðist í að finnal

Sigrún.