Leifur Eiríksson, kennari, frá Raufarhöfn lést þann 1.september sl. á 103. aldursári. Leifur fæddist að Harðbak á Melrakkasléttu 3. júní 1907. Foreldrar hans voru Eiríkur Stefánsson, bóndi og vitavörður á Rifi, f. 1883, d. 1956 og kona hans Ingibjörg Vigfríður Jóhannsdóttir, f.1889, d.1983. Leifur var elstur systkina sinna sem öll eru nú látin, en þau voru Margrét, f, 1908, d. 1992, Hildur Rannveig, f. 1910, d. 2000, Auðunn, f. 1912, d. 1966, Jóhann Þorsteinn, f. 1919, d. 1998 og Stefán, f. 1925, d. 2005. Leifur kvæntist þann 13. 11. 1932 Sveinbjörgu Lúðvíku Lund f. 8. 6. 1910 á Raufarhöfn. Hún var dóttir hjónanna Louisar Maríusar Kristjánssonar Lund, f. 1880, d. 1935, bónda og póstafgreiðslumanns á Raufarhöfn og konu hans Rannveigar Guðrúnar Grímsdóttur Laxdal Lund, f. 1890, d. 1961, en hún var þekkt sem síðasti ábúandi jarðarinnar Raufarhafnar eftir lát bónda síns. Lúðvíka andaðist 15. 8. 1977. Þau Leifur og Lúlla voru samhent hjón og studdu hvort annað í störfum. Þau eignuðust fjögur börn. Elstur er Eysteinn Völundur f. 31. 7. 1933, kvæntur Ínu Sigurlaugu Guðmundsdóttur, f. 1932. Börn Ínu og Eysteins eru Leifur, Guðrún, Auður og Margrét og barnabörn þeirra eru þrettán. Næstelst er Rannveig Lovísa, f. 8. 8. 1936, gift Haraldi Sigurjóni Sigurjónssyni, f. 1936, d. 2008. Börn Rannveigar og Haraldar eru Sveinbjörg, Jóhanna Helga, Eiríkur Ingi, Íris Elva og Elín Björg og barnabörn og barnabarnabörn orðin nítján. Næstyngst er Ingibjörg Fríður, f. 16. 6. 1938, gift Jóni Guðmundi Sveinssyni, f. 1940. Börn Ingibjargar og fyrri manns hennar, Gísla Sigurjónssonar eru Gísli og Ósk Anna og barnabörn og barnabarnabörn orðin þrettán. Yngstur er Erlingur Viðar, f. 9. 1. 1942, kvæntur Arndísi Jónu Gunnarsdóttur, f. 1946. Börn Arndísar og Erlings eru Borghildur, Anna Björg, Gunnar Örn og Arndís María og eru barnabörn orðin átta. Afkomendur þeirra Lúllu og Leifs eru því orðnir 72. Leifur stundaði nám við Menntaskólann á Akureyri en fjárhagur leyfði ekki meira nám fyrr en síðar þegar hann lauk kennaraprófi 1944. Hann stofnanði einkaskóla fyrir unglinga 1934 á heimili sínu og undirbjó nemendur fyrir inntöku í menntaskóla og starfrækti fram til 1943 er starfsemin sameinaðist barnaskóla Raufarhafnar. Hann byggði sundlaug og kenndi sund á staðnum um árabil. Hann tók mjög virkan þátt í sýslu- og sveitastjórnarmálum og var þar í forystusveit sem oddviti um átta ára skeið. Árið 1958 hóf Leifur kennslu við Barnaskóla Garðahrepps,- nú Flataskóla. Var hann þar yfirkennari og bókavörður. Hann var sæmdur Riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu 17. júní 1995 fyrir störf sín að félagsmálum. Sem ekkill bjó hann um tíma í Fannborg í Kópavogi. Eignaðist hann góða vinkonu, Helgu Sveinsdóttur frá Görðum sem lést 1998. Síðustu árin dvaldi Leifur á Hrafnistu í Hafnarfirði og var þar velþekktur fyrir fróðleik, kveðskap og gott skap til allra íbúa og starfsfólks. Í tilefni 100 ára afmælis Leifs og 50 ára afmælis DAS komu út sönglög og stökur eftir hann- Dægurflugur á DAS.
Elsku afi er farinn frá okkur. Þrátt fyrir að hann hefði náð háum aldri, gerði ég ráð fyrir að eiga með honum nokkur ár í viðbót, enda var hann fullur þátttakandi í lífinu og sprækari en margir aðrir allt fram á þetta ár. Við söknum hans öll enda var hann okkur afar kær, ekki síst mér, fyrsta barnabarni hans og nafna sem fékk fyrir vikið meiri athygli frá honum en sum önnur barnabörn. Mig langar til að rifja upp nokkur minningarbrot.
Afi var tæplega fimmtugur þegar ég fæddist. Þá bjó hann á Raufarhöfn, ásamt Lúllu ömmu. Ég held að á þessum árum hafi ég farið árlega ásamt foreldrum mínum og síðar litlu systur minni í heimsókn norður til þeirra og stundum dvalið sumarlangt. Mín fyrsta minning er þaðan. Árið sem ég varð fjögurra ára fluttu afi og amma suður. Þá gátu þau verið meira með börnunum sínum fjórum sem öll voru flutt að heiman og nýfæddum barnabörnum. Frá því ég man eftir mér snerist líf afa og ömmu ekki síst um það að styðja og gleðja börnin sín fjögur og fjölskyldur þeirra. Fjölskyldan skipaði veigamikinn sess í lífi beggja. Afi orti þessa vísu um börnin sín:
Fjögur hafa þau fært mér það,
sem fæst hér best í heimi.
Allt það á einum stað
innst í hjarta geymi.
Liður í því að efla fjölskyldutengslin voru fjölskylduboðin sem afi og amma héldu á heimili sínu í Garðabæ. Þau urðu fjölmennari með árunum enda fæddust barnabörnin eitt af öðru, auk þess sem þau urðu stærri og fyrirferðarmeiri. Þá var glatt á hjalla. Amma sá um kökurnar og spilaði á píanettu en afi sá til þess að ekki skorti gosdrykki og nammi. Mörgum árum síðar, löngu eftir að amma var dáin, fór afi að halda veglegar afmælisveislur, einskonar ættarmót, undir mottóinu: Engar gjafir - Alls engar gjafir. Bara að hittast og gleðjast. Í fullum sal flutti hann langar og skemmtilegar ræður fyrir börn sín, afabörn, langafabörn, langalangafabörn og aðra góða vini til að minnast ömmu.
Ekki veit ég hvort afi og amma spilltu börnunum sínum í æsku með of góðu atlæti, en þau gerðu örugglega tilraun í þá átt á mér. Ég var mikið ömmu og afabarn í æsku. Afi rifjaði upp fyrir nokkrum dögum síðan þegar gestkomandi á heimili þeirra sagði við mig:Leifur minn viltu ekki rétta mér.... Þá svaraði ég móðgaður að bragði: Ég er ekki Leifur þinn, ég er Leifur hennar ömmu.
Oft gisti ég hjá afa og ömmu. Á unglingsárunum bjó ég meira að segja hjá þeim í marga mánuði meðan framkvæmdir stóðu yfir heima. Ég lifði lúxus lífi. Afi taldi það ekki eftir sér að skutla mér á Moskanum til Reykjavíkur í skólann, ef hann kom því við, svo ég þyrfti ekki að fara í strætó. Áður en við fórum af stað á morgnanna voru gjarnan nýjar kleinur og ilmandi kanilsnúðar á borðum. Amma vaknaði nefnilega eldsnemma á morgnana til að baka með kaffinu fyrir starfsfólk Barnaskólans í Garðabæ.
Um helgar og á kvöldin tókum við afi gjarnan í spil eða tefldum skák. Það voru skemmtilegir tímar. Stundum var setið við fram á nótt, því að á þeim tíma sólarhringsins var afi í essinu sínu, ég farinn að dotta og amma löngu sofnuð. Ég man vel hvað ég beið oft óþolinmóður eftir að afi léki næsta leik. Hann gaf sér gjarnan góðan tíma til að íhuga leikfléttur. Samtímis fór hann með vísur sem hann setti saman í tilefni af skákinni. Oft notaði hann sama fyrriparti meðan skákin stóð yfir en kom með nýja seinniparta eftir því hvernig taflið þróaðist. Ég man sérstaklega eftir fyrriparti sem boðaði miklar sviptingar og var einhvern veginn svona: Ryðst nú fram hinn rauði her, rauður fyrirliðinn er.
Oft sátum við afi á móti hvor öðrum við eldhúsborðið og undirbjuggum okkur fyrir næsta dag. Hann undir kennslu og ég undir nám. Stundum fól hann mér það ábyrgðarhlutverk að aðstoða sig við að fara yfir heimaverkefni nemenda sinna. Afi hafði lag á því að láta mann finnast skipta máli og gera gagn. Við spjölluðum margt. Hann sýndi áhuga á því sem ég var að gera eða hafði til málanna að leggja. Honum var annt um að ég stundaði námið af kostgæfni. Hlýddi mér gjarnan yfir og lagði fyrir mig þrautir eða reikningsdæmi til að leysa í huganum. Afi ætlaðist til mikils af sjálfum sér og fannst að sama ætti að gilda um aðra. Stundum stóð ég á gati og leið illa yfir vankunnáttunni. Hann vissi svo margt og hafði gaman að fræða mig og aðra, enda kennari út í fingurgóma. Víða í íbúðinni voru bækur af margskonar tagi sem hann hafði lesið og ég gat gluggað í. Bækurnar fylgdu honum alla tíð og í þær sótti hann bæði fróðleik og skemmtun fyrir sig og aðra. Afi hafði alla tíð ótrúlega gott minni enda lék hann sér að því að fara orðrétt með heilu kaflana upp úr fornsögunum og þylja upp langa ljóðabálka. Honum fannst hann reyndar aðeins farinn að ryðga upp á síðkastið ef hann gat ekki farið alveg orðrétt með texta sem hann átti að kunna utanbókar.
Ég tók því ekki alvarlega þegar afi fór að hafa á því orð fyrir nokkrum árum að brátt kæmi að leiðarlokum hjá sér. Leit á þetta sem hálfgert grín enda spjölluðum við oft létt og göntuðumst. Þá benti afi mér á að lesa og hugsa um vísu sem hafði hann handskrifað stórum stöfum og hengt upp á vegg hjá sér. Vísan, sem er svona, fjallar um mannsævina frá vöggu til grafar.
Fæðast, gráta, reifast, ruggast,
ræktast, berast, stauta, gá,
leika, tala, hirtast, huggast,
herðast, vaxa, þanka fá,
elska, biðla, giptast greitt,
girnast annað, hata eitt,
eldast, mæðast, andast, jarðast.
Ævi mannleg svo ákvarðast.
(Séra Pétur Pétursson frá Víðivöllum)
Þín er sárt saknað afi.
Leifur
Elsku afi minn.
Ég kveð þig með söknuði.
Takk fyrir allt sem þú varst mér og mínu fólki. Megi minning um einstakan og óleymanlegan mann, hann afa minn, lifa.
Hvíl í friði elsku afi minn,
Lengi heilluðu hugann
heiðríkir dagar, alstirnd kvöld,
líf þeirra, ljóð og sögur,
sem lifðu á horfinni öld.
Kynslóðir koma og fara,
köllun þeirra er mikil og glæst .
Bak við móðuna miklu
rís mannlegur andi hæst.
/
Vor jörð hefur átt og alið
ættir, sem klifu fell og tind.
Því vísa þær örðum veginn
að viskunnar dýpstu lind.
Enn getur nútíð notið
náðar og fræðslu hjá liðinni öld.
Drauminn um vorið vekja
vetrarins stjörnukvöld.
(Davíð Stefánsson frá Fagraskógi)
Ég bið Guð að gæta mín,
Þín,
Lúlla