Guðrún Finnbogadóttir fæddist í Reykjavík 26. janúar 1924. Hún lést á Hrafnistu í Hafnarfirði 27. júlí 2009. Foreldrar hennar voru Finnbogi Finnsson múrari og Guðbjörg Guðmundsdóttir húsmóðir. Guðrún giftist 1. maí 1948 Helga Elíassyni, f. 5. júní 1921. Börn þeirra eru: 1) Finnbogi, f. 8. apríl 1952, kvæntur Elísabethu Snorradóttur, f. 3. september 1954. Börn þeirra eru Helgi, Guðrún og Tinna Rós. 2) Guðbjörg, f. 18. maí 1960. Börn hennar eru Ólafur, Helgi og Birna. Útför Guðrúnar fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 5. ágúst, kl. 13.

Elsku besta amma mín þá ertu farin frá okkur og komin með hvíldina sem þú ert búin að þrá svo lengi. Mér finnst erfitt að trúa því að ég komi aldrei til með að sjá þig aftur. En ég veit að þú ert komin á betri stað og að núna líður þér vel.
Ég sit hérna og græt þegar að ég skrifa þessa grein, hugsandi til baka um allar þær yndislegu stundir sem ég hef átt með þér. En þó sérstaklega á yngri árum heima hjá þér og afa í Brautarlandi. Alltaf nýbakaðar kökur, ísköld mjólk í blóma glasinu mínu, nammi inn í köldu geymslu, háaloftið, ruggustóllinn inn í stofu og plötur til að setja á fóninn. Svona voru heimsóknir mínar til ykkar afa. Ég man hvað ég gat setið tímunum saman inn í stofu í ruggustólum og hlustað á plötur. Eða farið upp á háaloft í mínum eigin ævintýraheimi að gramsa í öllum gersömunum sem voru þar sem var reyndar bara gamalt dót frá pabba og Buggu frænku. Eða þegar að við sátum saman við snyrtiborðið þitt og þú leyfðir mér að leika með allt skartið þitt, setja á mig varalit, prufa slæðurnar þínar, veski og pelsana þína, þetta fannst mér sko ekki leiðinlegt, kanski 4-5 ára. Þar byrjaði tískubakterían mín, heima í Brautó hjá þér og afa, mamma og pabbi hafa alltaf sagt að ég ætti ekki langt að sækja þetta. Að við værum ekki alnöfnur fyrir ekki neitt. Og svona á seinni árum varstu enn með púslinn á tískunni, hrósaðir mér alltaf svo mikið þegar að ég heimsótti þig. Fannst ég alltaf vera svo smart og vildir ólm komast yfir hluti sem þú sást mig með, hvort sem það var veski, ilmvatn eða háir hælar. Ég var svo glöð þegar að þú gafst mér gullarmbandið þitt síðustu páska, þú réttir mér það og sagðist vilja gefa mér það. Því ég var búin að láta mig dreyma um það frá því að ég var lítil og ég er alltaf með það á mér amma mín. Og mér er hugsað til þín í hvert skipti sem ég lít á það. Þetta er skrítin tilfinning að hugsa til þess að við Breki og Ísabella komum ekki til með að sjá þig í næstu íslands heimsókn. Og að ég komi aldrei til með að tala við þig aftur, en ég geymi síðasta símtalið okkar vel í hjartanu mínu amma mín. Þó það var svolítið skrítið, því að þú sagðir að þú vissir að við mundum ekki sjást aftur. Og ég vissi það innst inni líka en vildi ekki trúa því og hélt í vonina um að sjá þig um jólin. En ég kvaddi þig með lovju setningunni okkar, eins og ég gerði alltaf í lok samtals hjá okkur, lovju amma mín, sakna þín.

Æ, amma mín, hvað ég á eftir að sakna þín mikið, lífið verður svo tómlegt án þín. En ég er þakklát fyrir allar þær yndislegu stundir sem ég átti með þér. Og allar þær minningar sem ég á um þig amma mín, varðveiti ég í hjartanu mínu um alla ævi.

Svona í lokin langar mig að fara með eina af mörgum bænum sem þú kenndir mér og sagðir með mér þegar að ég gisti hjá ykkur afa í Brautó.

Vertu yfir og allt um kring
með eilífri blessun þinni,
sitji Guðs englar saman í hring
sænginni yfir minni.
(Sigurður Jónsson frá Presthólum.)

Elsku amma mín, ég kveð þig með sorg í hjarta, en ég veit að við hittumst aftur seinna.

Þín nafna,

Guðrún Finnbogadóttir (Gúrý).

Kveðja frá Landssambandi kvenna Gídeonfélagsins á Íslandi.

Guðrún Finnbogadóttir var ein af 17 stofnendum kvennadeildar Gídeonfélagsins og er hún sú fimmta af stofnendunum sem nú er komin heim til Drottins.

Guðrún var virk félagskona á meðan heilsan leyfði, hún kom alltaf á félagsfundi og var alltaf fús að taka á móti okkur inn á sitt fallega heimili. Eiginmaður hennar, Helgi Elíasson, var einn af 17 stofnendum Gídeonfélagsins á Íslandi 1945 og því mjög virkur í starfi þess og fylgdi Gunna honum alltaf og stóð við hlið hans. Var eftir því tekið hve myndarleg og samhent þau hjónin voru. Guðrún var mikil bænakona og bað reglulega fyrir starfinu og fylgdist með eftir að hún komst ekki á fundi vegna heilsubrests. Við erum svo þakklátar fyrir bænir hennar og allt sem hún lagði til starfins með sinni hógværð. Guðrún var glæsileg kona með fallega og hlýja framkomu. Við sendum innilegustu samúðarkveðjur til Helga sem hefur annast konu sína á aðdáunarverðan hátt og biðjum Guð að blessa hann og fjölskyldu hans um ókomin ár.

Blessuð sé minning Guðrúnar Finnbogadóttur.

Laufey Geirlaugsdóttir, forseti.