Guðjón Sigurðsson. Guðjón var fæddur í Reykjavík 5. nóvember 1921. Hann lést á Hrafnistu í Reykjavík 6. október s.l. Foreldrar hans voru Jóhanna I. Bjarnadóttir húsmóðir frá Nýlendu í Meðallandi f. 19. September 1891, d. 8. ágúst 1978. og Sigurður Magnússon skipstjóri frá Miðvogi, Innri Akraneshreppi f. 27. febrúar 1894, d. 2. ágúst 1955. Systkini Guðjóns eru: Jónfríður f. 11. júní 1925, Rafn f. 27. febrúar 1927. kvæntur Dóru Hlíðberg f. 25 júlí 1936, d. 17. janúar 2004. og Sverrir f. 9. janúar 1933, d. 5. apríl 1997, kvæntur Guðmundu L. Sigvaldadóttir f. 10. janúar 1933. Árið 1963 kvæntist Guðjón Soffíu Nielsen f. 8. maí 1922, d. 2. ágúst 2003. Foreldrar Soffíu voru Guðrún Ólafsdóttir Nielsen f. 17. ágúst 1895, d. 24. janúar 1976. og Jörgen C.C. Nielsen bakarameistari frá Svendborg í Danmörku f.14. apríl 1890, d. 6. apríl 1975 Guðjón og Soffía áttu eina dóttir Önnu Björgu f. 30. maí 1964. Guðjón starfaði lengst af við sjómennsku og stundaði allar almennar veiðar. Á sínum yngri árum vann hann á milli vertíða við fiskverkun hjá Ísbirninum. Níu ára gamall fór hann með föður sínum á síldveiðar fyrir Norðurlandi. Á stríðsárunum sigldi hann margar ferðir með fisk til Bretlands. Guðjón lærði til skipstjórnar, lengst af var hann skipstjóri á eigin bátum m.a. Sæbirni RE og Happasæl RE. Á Sæbirni, sem var 15 rúmlesta bátur, réri hann ásamt föður sínum og tveimur bræðrum m.a. tvær sumarvertíðir á dragnót árin 1948 og 49 frá Flateyri við Önundarfjörð. Áranna á Flateyri minntist Guðjón ætíð með gleði vegna þess góða viðmóts sem íbúarnir þar sýndu feðgunum. Síðustu starfsár sín vann Guðjón hjá Ísgerð Mjólkursamsölunnar í Reykjavík. Útför Guðjóns fer fram frá Garðakirkju Álftanesi í dag, 19. október og hefst athöfnin kl. 13.

Minn kæri bróðir hefur nú lagt upp í sína síðustu siglingu. Guðjón lést að morgni 6. október s.l. eftir erfið veikindi, sofnaði að kvöldi og vaknaði ekki meir, friðsælli getur dauðinn varla verið.

Á kveðjustund fara margar minningar í gegnum hugann. Guðjón fæddist á fyrri hluta síðustu aldar, þegar hestvagnar voru fleiri en bílar á götum Reykjavíkur og garðarnir sem mynda Reykjavíkurhöfn voru ný reistir. Guðjón var ekki gamall þegar hann fór að selja blöð og gerast sendisveinn hjá ýmsum verslunum. Níu ára gamall fór hann með föður okkar á síldveiðar fyrir Norðurlandi. Í nokkur sumur fór hann í sveit austur í Landeyjar. Ég minnist þess enn þegar við bræðurnir, kornungir vorum að veiða niður á Verbúðabryggju sem þá voru nýbyggðar, aðallega var það koli og ufsi sem þar veiddist. Þegar veiðinni lauk var ég sendur með aflann í ákveðin hús í nágrenninu og bauð hann til sölu. Afraksturinn var notaður til að kaupa eitthvað til að gefa mömmu, þannig var líf Guðjóns á hans yngri árum þegar hann vann sér inn einhvern pening þá var að láta heimilið njóta þess, á þessum árum var heimskreppa og flestar fjölskyldur börðust í bökkum.

Fimmtán ára gamall var Guðjón  beitningarmaður með fullan hlut á landróðabát, sem réri frá Reykjavík. Það má segja að það hafi verið upphafið að farsælum sjómannsstörfum Guðjóns. Árið 1939 fórum við bræðurnir með föður okkar, sem var skipstjóri á 40 rúmlesta bát, til síldveiðar fyrir Norðurlandi, Guðjón var háseti en ég, þá tólf ára gamall sem matvinnungur, sem svo var kallað, á þessari bátastærð voru yfirleit sextán manns í áhöfn og deildu tveir og tveir kojum saman í lúkar þar sem matur var eldaður og borðaður. Lítið fór fyrir snyrtiaðstöðu á þessum bátum.

Seinnihluta sumars, þegar við héldum heim á leið, réði Guðjón sig sem kokk á 18 rúmlesta reknetabát frá Vestmannaeyjum sem gerður var út frá Siglufirði. Þetta segir mikið um bróðir minn þá17 ára gamlan og þá miklu hugdirfsku sem hann sýndi með því að ráða sig í slíkt starf. Þegar ég spurði hann seinna hvernig honum hafi dottið þetta í hug, hann sem aldrei hefði ekki einu sinni soðið kartöflur. Ég var til dæmis með margar tegundir af grautum,  svaraði hann mér einhverju sinni, nú, en hvar lærðir þú að búa þá til ? Ég skal segja þér það, ég kann bara að búa til eina tegund af graut, en til fjölbreytni notaði ég mismunandi matarliti. Kokkstarfið gekk svo vel hjá honum, þessa haustvertíð, að honum var boðið áframhaldandi starf á vetravertíð, en hann afþakkað það.

Einn örlagaríkasti dagur Íslandsögunnar er vafalaust 10. maí 1940 þegar breskur innrásarher hertók landið. Guðjón var á vakt, sem háseti á bát í Reykjavíkurhöfn, þessa nótt, líklega einn sá fyrsti íslendingur sem var áhorfandi að þessum atburði. Hann lýsti þessum atburði þannig: Það var líklega á fjórða tímanum í nótt að ég heyrði undarleg hljóð í næturkyrrðinni. Ég áttaði mig ekki strax á þessu hljóði en við nánari athugun sá ég í rökkrinu eitthvað ferlíki koma úr vesturátt. Þetta ferlíki reyndist vera kubbsleg flugvél, sem var eins og lítill bátur með tvo vængi. Þessi furðufugl fór hring yfir höfnina og miðbæinn en hvarf síðan sömu leið til baka. Eftir þessa sýn fór Guðjón upp í mastur og sagði síðar að sitt litla hjarta hefði tekið kipp þegar hann hefði séð fjórar þústir úti við sjóndeildarhringinn, sem reyndust síðar vera fjögur herskip. Hann sagðist strax hafa gert sér grein fyrir því að miklir atburðir væru að gerast og hafi farið upp að Hafnarhúsinu, sem er þar skammt frá. Ekki leið langur tími þar til herskipin stormuðu á næstum fullri ferð inn í höfnina og lögðust við hafnarbakkann og hermenn gráir fyrir járnum hlupu frá borði. Þegar Guðjón hafði fylgst með innrásinni um stund hljóp hann heim og vakti fjölskylduna og sagði okkur tíðindin.

Guðjón stundaði sjómennsku í fjölda ára, hann var m.a.skipstjóri á sínum eigin bátum, lengst af var hann á Happasæl RE ásamt bróður okkar Sverri sem var vélstjóri. Þeir voru mjög samrýndir og voru saman á sjó í mörg ár eftir að Happasæll var afskráður.Ég kveð kæran bróðir með söknuði og ylja mér við góðar minningar um hann.Ég sendi Önnu Björgu mínar innilegustu samúðarkveðjur og bið góðan Guð að styðja hana og styrkja.

Rafn Sigurðsson