Elísabet Gunnarsdóttir fæddist á Ísafirði 24. apríl 1943. Hún lést á sjúkrahúsi Akureyrar 29. apríl síðastliðinn. Hún var dóttir hjónanna Helgu Kristbjargar Hermundardóttur húsmóður, f. 6.7. 1923, d. 23.8. 2004, ættaðrar frá Akureyri og Gunnars Bachmann Guðmundssonar kaupmanns í Björnsbúð á Ísafirði, f. 3.2. 1913, d. 20.1. 1959. Elísabet var elst átta systkina, þar af ein hálfsystir, næstelstur þeirra systkina var Hermundur , f. 16.3. 1944, d. 5.10. 1982; Ólafur, f. 6.12. 1945; Björn, f. 29.11. 1947; Kristín, f. 15.8. 1950; Helga Björk, f. 8.5. 1952; Hulda Gunnur, f. 13.9. 1954 og Guðrún Eyjólfsdóttir, f. 8.6. 1962. Hinn 14. desember árið 1963 giftist Elísabet Hreini Sverrissyni símsmið á Akureyri, f. 14.12. 1940, syni hjónanna Guðbjargar J. Ingimundardóttur húsmóður, f. 24.6. 1917, d. 18.1. 1994 og Sverris Magnússonar blikksmiðs á Akureyri, f. 28.10. 1916, d. 5.9. 1984. Synir Elísabet og Hreins eru: 1) Gunnar Bachmann verkfræðingur, f. 27.4. 1964, kvæntur Vilborgu Huld Helgadóttur lyfjafræðingi, f. 15.8. 1968, og eiga þau þrjú börn; Sonja Bára, f. 9.8. 1991, Stefán Atli, f. 10.7. 2002 og Linda Björg, f. 2.6. 2005, 2) Guðbjörn Sverrir verkfræðingur, f. 12.5. 1968, kvæntur Kalinu Klopova leikskólakennara, f. 11.6. 1976, og eiga þau tvö börn; Daniel Sverrir, f. 12.7. 2001 og Katrín Jana, f. 25.1. 2006. Eftir landspróf frá Gagnfræðaskóla Ísafjarðar 1959 og andlát föður síns, vann Elísabet eitt ár sem starfsmaður á bæjarskrifstofu Ísafjarðarbæjar. Veturinn 1960-1961 var hún nemi við lýðháskóla í Svíþjóð. Frá 1961-1964 var Elísabet starfsmaður á skrifstofu rafveitu Ísafjarðar. Árið 1964 flytja Elísabet og Hreinn til Akureyrar þar sem þau hafa búið síðan. Á Akureyri bjuggu Elísabet og Hreinn lengst af í Ægisgötu þar sem heimili þeirra hefur verið frá 1974. Elísabet var húsmóðir fyrstu árin á Akureyri en vann lengst af sem starfsmaður, launafulltrúi á launadeild skrifstofu Akureyrarbæjar. Síðustu 10 árin vann hún hjá Símanum og Já 118. Útför Elísabetar fer fram frá Glerárkirkju í dag, 7. maí og hefst athöfnin kl. 13.30.
Elsku Elísabet
Þú ert farin og alltof snemma fyrir minn smekk. Þegar þú veiktist vissi ég að þú yrðir ekki lengi hérna með okkur.
Við kynntumst 2001 þegar við byrjuðum að læra höfuðbeina- og spjaldhryggsjöfnun. Við æfðum okkur saman og fljótlega kom í ljós að við áttum margt sameiginlegt og okkur þótti gott að spjalla við hvor aðra. Við áttum fleiri áhugamál sameiginleg og flest öll snerust þau um dulspeki og alls konar heilunarmeðferðir. Þú varst ansi hreint vel að þér í dulspekinni og svo miklu næmari en þú vildir vera láta. Þú spáðir fyrir mér í bollann og gast séð hvað var að gerast í kringum mig. Það hjálpaði oft á erfiðum tíma í mínu lífi þegar þú gast útskýrt fyrir mér hvernig hlutirnir væru í raun og veru. Það var svo gott að geta hringt í þig og spurt þig hvaða tilfinningu þú hefðir fyrir hinu og þessu. Og alltaf hafðirðu réttu svörin handa mér, ábendingar sem leiddu til þess að ég átti auðveldara með að sjá hlutina í réttu ljósi og taka rétta ákvörðun. Ég er nú eiginlega orðin háð því að spyrja þig álits á öllum hlutum og bera undir þig mikilvægar ákvarðanir. Mér þótti gott að vita að þér þótti líka gott að ræða við mig um lífið og tilveruna og fá annað sjónarhorn. Þannig gat ég gefið þér svolítið til baka.
Þú varst að komast á tímamót. Þú veltir fyrir þér að fara að hætta að
vinna, fara að njóta þess að vera heima í fína húsinu ykkar sem verið er að
taka svo fínt í gegn, fara að hugsa meira um sjálfa þig og gera það sem þér
þótti skemmtilegast, ferðast með Hreini með vagninn um landið og svo margt
sem þig dreymdi um. Ég var spennt fyrir þína hönd hvað þú ættir notalega
tíma framundan. En ýmislegt fer öðruvísi en ætlað er. Veikindin bönkuðu upp
á og breyttu öllum framtíðaráætlunum.
Ég kveð þig mín kæra vinkona. Ég kem aldrei til með að gleyma þinni mjúku, umvefjandi, kærleiksríku röddu, allri viskunni sem þú deildir með mér, öllum kærleikanum sem flæddi frá þér og hversu gott mér þótti að eiga þig fyrir vin. Ég þakka þér af öllu hjarta mínu allt sem þú gafst mér í þessu lífi. Við sjáumst síðar.
Hreinn, Gunnar, Guðbjörn og fjölskyldur. Ég votta ykkur innilegustu samúð mína nú þegar þið horfið á eftir elsku Elísabetu.
Jóhanna Harðardóttir.