Halldór Guðmundsson fæddist á Akureyri 25. mars 1939. Hann andaðist 23. júní 2009. Foreldrar hans eru Guðmundur Halldórsson, f. 1913, d. 1976 og María Magnúsdóttir, f. 1917. Systkini Halldórs eru Svala, f. 1937, Bergþór Njáll, f. 1941, d. 2007, Guðmundur Magnús, f. 1942, Jósef Kristján, f. 1946, Haukur Smári, f. 1949, d. 2004 og Hrafnkell, f. 1951. Halldór giftist Gunnhildi Bragadóttur, f. 1941, þau skildu. Börn þeirra eru a) Bragi, f. 1960, börn hans eru, Ester, f. 1984 og Una Guðbjörg, f. 2005. b) Kristján Halldórsson, f. 1964. Útför Halldórs fór fram frá Akureyrarkirkju 3. júlí.

Pabba er best lýst með því að hann var völundur. Hann var ekki maður margra orða en verkin töluðu því hærra. Allir sem kynntust honum tóku eftir hvernig hann nálgaðist vélar og stál eins og hann væri með úrverk eða eðal gull í höndunum. Hann dáðist að góðri smíðavinnu, hvaðan sem hún kom.
Sem dæmi þá gaf hann mér tjald þegar ég var krakki, en ég notaði það lítið, svo hann fékk það lánað í tjaldbúðir sem hann var með upp við Hraunsvatn, en þar leið honum svo vel við veiði, einn í kyrrðinni. Fullur aðdáunar kom hann svo til mín, veistu hvað, ég skildi tjaldið eftir og þegar ég kom aftur sá ég að minkur hafði gert gat aftast í tjaldbotninn og flutt inn, gert flóttaleið fremst og meira að segja klifrað súluna og nagað kíkju gat þar uppi. Og aldrei hef ég séð jafn snyrtilegt sár eins og hvernig hann nagaði algerlega hringlótt göt á öll matarílát. Ég skildi því allt eftir og eftirlét minknum, ég reisi bara nýjar búðir. Sem krakki kastaðist ég milli aðdáunar á minknum og saknaðar eftir tjaldinu. En það var honum algert aukaatriði að hann hafði gefið mér tjaldið upphaflega. Minkurinn hafði með völundarsmíði sinnu unnið sér rétt til þess og svo skyldi það vera. Smám saman lærði ég líka að meta góða smíði og hefði sjálfsagt í dag brugðist eins við.
Hann lærði bifvélavirkjun og fékkst við hann mest alla ævi. En það var þó á kvöldin og um helgar, sem ljós kviknaði á verkstæðinu aftur eftir að allir voru farnir heim og hann hífði hjólin sín ofan af loftinu og hófst handa við pússningu og smíð, sem hann undi sér best.
Oft báðu bifhjóla- og bíla áhugamenn hann um að setja upp lítið verkstæði í skúr svo þeir gætu notið hæfileika hans. En hann færðist alltaf undan. Jafn mikið og hann langaði í sitt eigið litla verstæði þá fannst honum öll samskiptin við fólkið í kringum þetta erfið og eins vildi hann helst ekki setja neinn verðmiða á sín verk. Þau voru unnin af ást og virðingu við efnið og aðdáun á mekanisma svo þau komu peningum lítið við. Hann vildi líka geta unnið allt á sínum hraða og af því að hann langaði til þess, en ekki að einhver biði á þröskuldinum eftir vinnu hanns.
Að gera upp gömul hjól og vélar, eða smíða frá grunni var hans yndi. Sem dæmi þá fóru mörg ár í það þegar hann var í siglingum að sanka að sér upprunalegum varahlutum í gamalt stríðsárahjól sem hann gróf upp úr haug inn í firði. Allt skildi vera upprunalegt, pússað af úrsmiðs natni og ef hann þurfti að smíða eitthvað, þá var það smíðað úr besta fáanlega efni. Þetta hjól er en til og kemur til með að vera eitt af flaggskipum bifhjólasafnsins sem er að rísa á Akureyri.
Annað hjól, sem er nær allt hans frumsmíði, verður þar líka. Og eins og hann sjálfsagt kaus, þá var síðasta handtak hans á þessari jörð, að festa húsið, sem hann smíðaði utan um alternatorinn, á hjólið.
Þannig náði hann að lifa fram í andlátið, þrátt fyrir veikindi sem hann stríddi við og þannig mun minning hans lifa.

Bragi Halldórsson

Hvað er gæfa? Hvað er gervileiki? Hver er það sem ræður för?

Sálir mannanna eru eins og reikistjörnur, sem himingeimur skilur og snúast þó um sameiginlega þungamiðju. En til er það líka, að þær líkjast halastjörnu, sem fylgir óvenjulegum lögum. Til er það, að sá, er lengst kemst í námunda við ljósið, kafar einnig lengst í afgrunn kuldans og myrkursins. (Skriftamál einsetumannsins- eftir Sigurjón Friðjónsson.)

Lítill drengur fæddist fyrir 70 árum á Akureyri. Næst elstur 8 systkina. Hann var ljúfur og góður, lítið gefinn fyrir hamagang og læti. Hann átti sér skjól hjá ömmu sinni á Norðfirði. Hann var einkar handlaginn sérlega natinn við smáverk. Fýsti í úrsmíði. En hans lífsstarf voru vélar á togurum. Sótti til fjalla, fór snemma á vorin upp að Hraunsvatni með tjald og lék sér að veiða. Vélar bæði stórar og smáar og mótorhjól. Það varð hans veröld. Þar átti hann skjól. Alvarlegur sjúkdómur frá unga aldri dæmdi hann til einsemdar. Hann tókst á við hann með kjarki og æðruleysi. Um miðjan aldur var eins og sjúkdómurinn hopaði. Honum tókst að skapa sér heimili í götunni sinni. Þá voru bjartir dagar. Farið á veiðar og keyrt um landið. Síðustu árin voru erfið. Líkamsþrekið búið, ferðarlög og veiðar fyrir bí. Þá voru vélar og mótorhjólin hans iðja. En þó var hægt að fara ferðir um bæinn á bílnum. Hann hafnaði allri aðstoð. Hans frelsi fólst í því að vera sjálfbjarga og engum háður. Þannig kvaddi hann. Núna er hann búinn að leggja frá sér skiptilykilinn. Mikill ljúflingur hefur kvatt. Þakka þér samfylgdina.

Gunnhildur Bragadóttir.