Svandís Rafnsdóttir fæddist á Neskaupstað 14. apríl 1949. Hún lést á heimili sínu 20. ágúst síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Rafn Einarsson skipstjóri, f. 6. ágúst 1919, d. 11. júní 1977 og Anna Margrét Kristinsdóttir, f. 7. mars 1927, d. 17. nóvember 1989. Systkini Svandísar eru: 1) Elísa Kristbjörg, f. 17. ágúst 1944 d. 27. mars 2006, 2) Einar Þór, f. 28. júní 1951, maki Ragnheiður Thorsteinsson, 3) Auður, f. 10. febrúar 1956, maki Geir Oldeide, 4) Hörður, f. 14. febrúar 1961, maki Karitas Jónsdóttir, 5) Þröstur f. 11. apríl 1963 og hálfsystir 6) Berta Guðbjörg Rafnsdóttir, f. 7. janúar 1944 d. 31. mars 2008, maki Eggert Bjarnason. Svandís var fædd og uppalin á Norðfirði. Að loknum grunnskóla þar fór hún í Húsmæðraskólann Ósk á Ísafirði. Á Ísafirði kynntist hún Hermanni Níelssyni, þau giftu sig og fluttu austur á land á Eiða. Þar stofnuðu þau sitt fyrsta heimili, Svandís og Hermann skildu árið 1994. Börn Svandísar og Hermanns eru: 1) Níels, f. 20. september 1968, maki Christine Carr. Dóttir Níelsar og Sóleyjar Daggar Jóhannsdóttur er Herdís Hrönn, f. 20. maí 1987, maki Einar Örn Konráðsson og sonur þeirra er Daníel Rafn f. 8. desember 2007 . Börn Christine Carr og fósturbörn Níelsar eru Kumasi Máni f.16. júní 1996 og Þóranna Kika f. 18. júlí 1999; og 2) Rafn, f. 4.ágúst 1975, maki Herdís Kristindóttir, dætur þeirra eru Emilía Ósk f. 26. nóvember 2000, Júlía f. 13. júní 2004 og Rut f. 1.mars 2009. Svandís bjó á austurlandi allt sitt líf að undanskildum árunum á Ísafirði og tæpum þremur árum í nágrannalöndunum Svíþjóð og Danmörku. Svandís og Hermann bjuggu á Eiðum á 18 ára tímabili. Svandís vann í mötuneyti Alþýðuskólans á Eiðum og var ráðskona þar um tíma. Síðar fluttu þau til Egilsstaða. Þar starfaði Svandís sem launafulltrúi á Heilsugæslustöðinni á Egilsstöðum og síðar hóf hún störf hjá Búnaðarbanka Íslands sem seinna fékk nafnið Kaupþing banki. Síðustu starfsár Svandís vann hún sem móttökuritari á Heilsugæslustöðinni á Egilsstöðum. Svandís bjó allt til dauðadags á Egilsstöðum. Svandís verður jarðsungin frá Grensáskirkju í dag þriðjudaginn 1. september og hefst athöfnin klukkan 13:00. Jarðsett verður í Gufuneskirkjugarði.

Í dag kveð ég kæra vinkonu mína Svandísi.  Ég kynntist henni fyrst þegar ég flutti til Egilsstaða 1983. Hún flutti í blokkina sem ég bjó í og þar var ég svo heppin að kynnast yndislegu fólki þar og Svandís var ein af þeim, enda saknaði ég hennar þegar ég fluttist til Reykjavíkur fyrir 11 árum síðan, en við höfðum alltaf gott samband okkar á milli.Ég höfðum nýlega talað saman í síma, þegar mér bárust þær sorgarfréttar að hún væri öll, hún var einstaklega traustur vinur sem ég kem til með að sakna mikið.

Svandís var myndarleg í öllu sem hún tók sér fyrir hendur og það var gaman að fylgjast með henni vinna, hún var bæði fljótvirk og einnig vandvirk, t.d. þegar við tókum slátur, það var ekki lengi gert þegar Svandís stjórnaði.

Hún var einnig mikil prjónakona og kenndi mér það sem ég kann í prjónskap þá.

Svandís hafði unun að lestri bóka og las mikið.

Við fjórar vinkonur á Egilsstöðum áttum oft yndislega stundir fyrir jólin og tókum upp á því að föndra. Eitt árið átti postulínsmálun hug okkar allan, og við hlógum oft af því eftir á að við töluðum ekki orð saman allt kvöldið, svo uppteknar vorum við að mála.

Svandís og ég gerðum okkur stundum ferð til Reykjavíkur fyrir jólin, þar sem við hittum m.a. móður mína og systur. Skoðuðum í búðir og fegnum okkur góðan mat, Þetta voru þær ánægjustundir sem við Svandís rifjuðum oft upp.

Á yngri árum var Svandís mikil útivistarkona, og gekk upp um fjöll og firnindi, hún var mikill náttúruunnandi.

Lífið hefur ekki alltaf farið ljúflega með Svandísi, hún glímdi við veikindi síðustu árin, en hún kunni að gera gott úr hlutunum. Hún var alltaf glöð þegar hún hitti strákana sína og barnabörnin, talaði mikið um þau og var afar stolt af þeim.

Hún varð sextug í apríl s.l. og fékk í afmælisgjöf frá systkinum sínum ferð til Noregs þar sem systir hennar býr. Þá ferð fór hún í júní s.l og var afskaplega ánægð með hana.

Ég var fyrir austan í  sumar og var þeirrar gæfu aðnjótandi að geta verið með henni nánast á hverjum degi.Mikið var prjónað og gamlar endurminningar rifjaðar upp. Ég þakka fyrir þær samverustundir með henni, hélt ekki að það yrði í síðasta sinn sem ég sæi hana því fyrirhuguð var ferð til  Reykjavíkur í byrjun September. Hún ætlaði að heimsækja strákana sína og fjölskyldur þeirra  og við ætluðum að gera ýmislegt saman Hún hlakkaði til ferðarinnar en annað ferðalag beið hennar.

Ég sendi Níelsi og Rafni og fjölskyldum þeirra mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Ég kveð þig, hugann heillar minning blíð,
hjartans þakkir fyrir liðna tíð,
lifðu sæl á ljóssins friðar strönd,
leiði sjálfur Drottinn þig við hönd.

( Guðrún Jóhannsdóttir frá Brautarholti.)

Hvíl í friði vinkona og takk fyrir allt.

Ólína Ása Baldursdóttir.

Það voru sorgleg tíðindi þegar að við fréttum að Svandís nágrannakona okkar væri dáin.  Komu þá margar góðar minningar upp í hugann.  Árið 1995 fluttum við í parhús í Einbúablá og bjó Svandís þar við hliðina  á okkur.  Hún tók okkur strax opnum örmum og reyndist okkur afskaplega vel.  Mikill samgangur var á milli okkar og eigum við margar og góðar minningar frá þessum tíma.

Á góðviðrisdögum var oft setið úti í sólinni og spjallað yfir kaffibolla um daginn og veginn. Strákarnir okkar hændust mjög að Svandísi og hélt hún mikið upp á þá. Oft fengu þeir að vera hjá henni ef að við brugðum okkur frá.

Svandís hafði næmt auga fyrir fallegum hlutum og voru heimili hennar fallega innréttuð og hlýleg.  Ekki má gleyma því hversu snilldarkokkur hún var, það var sama hvort að hún var að elda eða baka, alltaf töfraði hún fram dýrindis máltíðir og fengum við oft að njóta góðs af því.

Eftir níu ára samveru í Einbúablánni fluttum við í einbýlishús við Kelduskóga og á sama ári flutti Svandís í Litluskóga og bjó nú á ská á móti okkur og vorum við því nágrannar áfram.

Þó svo að samband okkar hafi verið minna nú í seinni tíð, fylgdumst við alltaf með henni og hefðum viljað gera allt sem við gátum til að hjálpa henni.

Elsku Svandís takk fyrir allar góðu stundirnar og við vonum að þér líði vel þar sem þú ert núna. Við fjölskyldan sendum Níelsi, Rafni og fjölskyldum þeirra okkar innilegustu samúðarkveðjur og biðjum guð að styrkja þau öll á þessum erfiðu tímum.

Heiða og Jón Óli.