Alda Þórðardóttir fæddist í Hlíðartúni í Miðdölum 18.9. 1932 en ólst upp í Keflavík. Hún andaðist á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 26.7. 2009. Alda Þórðardóttir var dótttir Þórðar Einarssonar smiðs, f. 5.7. 1899, d. 15.10. 1979, og Sigurlaugar Guðmundsdóttur húsfreyju og verkakonu, f. 6.11. 1911, d. 2.3. 1987. Systkini Öldu eru Guðmundur Haukur, f. 4.4. 1930, verkstjóri í Keflavík, kvæntur Magneu Aðalgeirsdóttur. Sólveig Þórðardóttir, f. 1.10. 1940, ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur, sem var gift Jónatani Einarssyni sem lést 1991, unnusti hennar í dag er Jón Steinar Hermannsson. Einar, f. 27.9. 1947, pípulagningamaður, kvæntur Steinunni Pálsdóttur. Alda giftist 1.2. 1962 Agnari Braga Aðalsteinssyni vélamanni, f. 20.1. 1928, lést af slysförum 5.10. 1977. Hann var sonur Aðalsteins Andréssonar, verkamanns í Kópavogi, og Ingibjargar Agnarsdóttur húsmóður. Seinni maður Öldu var Jóhann Páll Halldórsson vélvirki, f. 22.10. 1938, d. 17.2. 2001. Börn Öldu og Agnars Braga eru Helen Ingibjörg, f. 25.7. 1961, sölumaður, gift Magnúsi Hauki Norðdahl og eiga þau þrjá syni; Sigurlaug Hrönn Agnarsdóttir prentsmiður og sölumaður, f. 11.2. 1965, gift Magnúsi Magnússyni og eiga þau tvo syni og eina dóttur; Þórður Bragason, f. 6.12. 1972, framkvæmdarstjóri, unnusta hans er Ragnhildur Sophusdóttir og á hann þrjá dætur. Alda stundaði nám við Héraðsskólann í Reykholti 1947-1948, við Húsmæðraskólann á Varmalandi 1948-1949 en var síðan við nám og störf í Danmörku, Noregi og Bandaríkjunum í nokkur ár. Alda starfaði við saumaskap hjá SíS í tuttugu og níu ár. Þá starfaði hún í þrjú ár við mötuneyti Skipadeildar SÍS. Hóf sjálfstæðan atvinnurekstur 1994-2008. Síðustu mánuði dvaldi Alda á líknardeild LSH í Kópavogi. Útför Öldu fer fram frá Vídalínskirkju í Garðabæ í dag, miðvikudaginn 5. ágúst, og hefst athöfnin kl. 15.
Nú legg ég augun aftur,
ó, Guð, þinn náðarkraftur
mín veri vörn í nótt.
Æ, virst mig að þér taka,
mér yfir láttu vaka
þinn engil, svo ég sofi rótt.
(Sveinbjörn Egilsson.)
Megi góð frænka hvíla í friði.
Sólveig Óskarsdóttir.
Elsku vinkona, nú skilja leiðir í bili og sú leið er orðin löng, allt frá unglingsárum. Ég var fimmtán ára þegar ég kynntist þér og í öll þessi ár bar aldrei skugga á vináttu okkar. Þú áttir svo vel við mig, alltaf svo kát og hlý. Við vorum fjórar vinkonurnar sem héldum alltaf saman, bjuggum í sama húsi, hittumst eftir vinnu, fórum saman út að skemmta okkur, ferðuðumst saman, deildum öllu. Seinna þegar við stofnuðum heimili og eignuðumst börn þá urðu þau vinir svo líf okkar hafa verið samtvinnuð alla ævi.
Við höfum verið lánsamar að eiga góða vini í hver annarri. Nú erum við tvær eftir. Þetta er gangur lífsins, allt sem byrjar breytist eða endar einhverntímann. Minningarnar eru alltof margar til að rekja hér, enda eru þær okkar. Þú varst sú duglegasta af okkur, þriggja manna maki í hverju sem þú tókst þér fyrir hendur. Enda tók ég ekki slátur með þér nema einu sinni. Það var mikið grín hjá okkur, því ég fékk ekki að setjast niður í tólf tíma og sótti að síðustu flösku af einhverju til að fá þig til að slappa af. Og þú sem drakkst aldrei!
Ferðalögin með þér voru yndisleg og þau voru mörg, bæði hérlendir og erlendis. Betri ferðafélaga getur maður ekki fengið. Nú ert þú farin í ferðina sem okkur er öllum ætluð og ég bið góðan Guð að blessa þig og leiða þig á þeirri braut. Sömuleiðis bið ég Guð að styrkja börnin þín og barnabörn. Þú hefur verið leiðarljós fyrir okkur öll sem kynntumst þér. Hjartans þakkir fyrir ævilanga trausta vináttu. Þín verður sárt saknað en ég trúi á endirfundi. Hittumst hinum megin.
Ingibjörg.
Þá er hún Alda mín horfin á braut úr þessu lífi eftir löng og ströng veikindi. Ég var svo heppin að kynnast Öldu fyrir um tuttugu árum og síðan þá hefur hún verið hluti af lífi mínu og fjölskyldu þó svo að ýmislegt hafi breyst í tímans rás. Alda var sérstaklega iðin og vinnusöm og man ég sjaldan eftir því að hafa séð hana iðjulausa. Hún var trú og trygglynd manneskja, hugsaði vel um sína nánustu og afar stolt af sinni fjölskyldu enda gott fólk þar á ferð. Alda var einstaklega óeigingjörn, gjafmild og lífsglöð og alltaf var stutt í hláturinn. Hún hafði ákveðnar skoðanir á hlutunum, var óhrædd við að segja hvað henni fannst og ávallt vildi hún öllum það besta. Ég á eftir að sakna snöggu símtalanna frá henni þar sem spurt var reffilega jæja elskan mín hvað segirðu, hvað er að frétta svo var stiklað á stóru og kvatt skjótlega, enda í mörgu að snúast hjá Öldu.
Þá vináttu, hlýhug og örlæti sem hún sýndi mér og fjölskyldu minni mun ég aldrei gleyma og ég veit að ég mun seint kynnast annarri eins manneskju og Öldu. Minning hennar mun fylgja mér alla tíð og ég er afar þakklát fyrir kynni okkar í þessu lífi.
Hörpu þinnar, ljúfa lag
lengi finn í muna.
Því ég minnist þín í dag,
þökk fyrir kynninguna.
(Á.K.)
Sigurlaugu, Þórði, Helen og fjölskyldum vottum við okkar
innilegustu
samúð.
Elfur Erna Harðardóttir og fjölskylda