Óli Andri Haraldsson bóndi, fæddist 19. janúar 1933 á Seyðisfirði.  Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands fimmtudaginn 27. ágúst síðastliðinn.  Foreldrar hans voru Haraldur Jóhannesson vélstjóri, f. 22.10. 1903 á Eyrarbakka, d. 24.6. 1982 og Kristín Sveinsdóttir saumakona, f. 18.2. 1905 í Viðfirði, d. 23.11. 1991.  Alsystkini Óla eru Elín Sveindís f. 23.11. 1929, Ólöf Ingibjörg f. 8.7.1931, Hreinn f. 9.6. 1935, d. 10.8. 1985, Þórfríður Soffía f. 22.2 1937, Rósa f. 27.6.1938, Guðrún Elísabet f. 6.10. 1939, Jóhannes f. 14.06. 1942 og Guðríður f. 22.4. 1944, samfeðra er Sigrún Klara f. 3.7.1927.Óli ólst upp á Seyðisfirði þar til fjölskyldan fluttist í Kópavog þegar hann var 11 ára gamall.  Hann útskrifaðist sem búfræðingur frá Bændaskólanum á Hvanneyri árið 1954.  Óli kvæntist árið 1960 eftirlifandi eiginkonu sinni, Helgu Hermannsdóttur f. 15.7.1940 frá Langholti í Flóa.  Foreldrar hennar voru Guðbjörg J. Pétursdóttir og Hermann Þorsteinsson.  Börn Óla og Helgu eru: 1) Hermann verkfræðingur í Reykjavík, f. 11.8.1960, maki Sigrún Sigurðardóttir, börn þeirra eru a) Óli Andri  f. 1988, b) Svana Rún f. 1993, c) Helga Rún f. 2001, 2) Haraldur húsasmíðameistari á Eyrarbakka, f. 13.8.1961, maki Inga Björk Emilsdóttir, börn þeirra eru a) Emil Ingi f. 1984, b) Hólmfríður Lilja f. 1985, c) Ólöf Helga f. 1990, 3) Steingrímur sjómaður  og smiður á Eyrarbakka, f. 6.12.1962, maki Arnheiður Björg Harðardóttir, börn þeirra eru a) Hörður Andri  f. 1982, b) Sævar f. 1985, c) Agnes Helga f. 1989, 4) Sveinn dýralæknir á Selfossi, f. 28.4.1971, maki Sigurdís Lilja Guðjónsdóttir, börn þeirra eru a) Viktor Ingi f. 2004, b) Óli Freyr  f. 2009, 5) Anna Kristín sameindalíffræðingur í Danmörku, f. 24.8.1980, maki Kristján Helgi Hafsteinsson.  Barnabarnabörn Óla og Helgu eru 7.Óli og Helga hófu búskap að Nýja-Bæ í Árborg (áður Sandvíkurhreppi) árið 1960 þar sem þau bjuggu myndarbúi allt til ársins 2002.  Óli hafði alla tíð dálæti á sveitum landsins, hafði mikinn áhuga á landbúnaði og ræktunarstörfum og var hann einn af brautryðjendum í svínarækt á Íslandi.  Hann var einnig sérlegur áhugamaður um íslenska hestinn og ræktun hans.  Óli gegndi trúnaðarstörfum fyrir Hrossaræktarsamband Suðurlands og sat um árabil í hreppsnefnd Sandvíkurhrepps. Útför Óla verður gerð frá Selfosskirkju föstudaginn 4. september og hefst athöfnin kl. 13.30.

Það er bæði ljúft og sárt að minnast Óla í Nýja-Bæ, en hann lést eftir erfiða baráttu við illvígan sjúkdóm. Hann glímdi við veikindi sín af miklu æðruleysi og lagði mikið á sig til að standast þessa áraun sem að lokum hafði yfirhöndina.

Óli var einstakur maður; gegnheill, frændrækinn, jákvæður og velviljaður í alla staði. Hann var þriðji í röð níu alsystkina sem lifa bróður sinn fyrir utan Hrein sem lést árið 1985.  Óli var fæddur á Seyðisfirði árið 1933 og bjó þar fyrstu árin og hafði sterkar taugar austur alla tíð. Árið 1944 fluttist fjöldskyldan suður í Kópavoginn þar sem hann ólst upp frá ellefu ára aldri. Óli fór snemma að vinna fyrir sér og var á sjó með Einari Sveini föðurbróður sínum á Skaftfellingi. Óli kom í Laugardæli árið 1952, fer í búfræðinám á Hvanneyri sem hann lýkur árið 1954.

Eftir tímann á Hvanneyri fer hann aftur til sjós og þá á vitaskipið Hermóð með Ólafi föðurbróður sínum. Óli hætti á sjónum árið 1958 en atvik háttuðu þannig til að þann 18. febrúar 1959 ferst Hermóður með 12 manna áhöfn, þar á meðal fórst Ólafur föðurbróðir hans. Óli kom í Laugardæli þegar hann hætti á Hermóði og það var í  Flóanum sem hann fann ástina sína, hana Helgu, sem síðar átti eftir að vera lífsförunautur hans í gegnum lífið.  Óli var því sjaldnast einn á ferð og þegar hans er minnst er Helga kona hans ávallt nærri en þar fóru saman afskaplega samhent hjón.

Það er margt sem kemur í hugann þegar minnst er á Óla sem var íhugull, minnugur og margfróður um flesta hluti. Rólegt yfirbragð, yfirvegun og kímni einkenndi hann. Hann var hófsamur, friðsemdarmaður og hafði afar þægilega nærveru. Hann hafði skoðanir og gaman að samræðum og þá var eins tíminn væri aukaatriði. Hann gaf sér tíma í samræðuna, bætti við og dróg fram jákvæða þætti í fari fólks ef þess var einhver kostur. Kímnin var þó aldrei langt undan og þegar honum var skemmt hallaði hann aðeins undir flatt og hló sínum dillandi hlátri.

Óli hafði sterkt svipmót af sinni ætt sem er ekki hávaxið fólk en þrekvaxið og myndarlegt. Hann var myndarlegur maður með mikið jarpt hár sem hann hélt alla tíð. Óli var umfram allt bóndi og bar það starfsheiti með miklum sóma. Óli og Helga voru ræktendur og flest lék í höndunum þeirra hvort heldur sem um garð- og blómarækt, sauðfjár-, hrossa- eða svínarækt var að ræða.

Þau hjón keypu Nýja-Bæ árið 1960 og hófu búskap á jörðinni. Í hönd fór mikil uppbygging en þau byggðu upp allan húsakost á jörðinni og náðu árangri í því sem þau tóku sér fyrir hendur. Þekking Óla á hrossarækt var umfangsmikill og minnistætt var þegar hann kom í Laugardæli að horfa á slides-myndir frá Landsmóti hestamanna á Þingvöllum árið 1970. Helst datt okkur krökkunum í hug að þar færi örstutt kynning á úrslitum Landsmótsins en það var nú öðru nær. Við tók þriggja klukkutíma sýning með viðeigandi útskýringum á ættum og ættbókum hrossa sem voru til sýnis. Mikið var rætt þetta kvöld um stóðhesta eins og Sörla frá Sauðárkrók, Hrafn frá Efra-Langholti, hryssur eins og Skeifu frá Kirkjubæ og gæðinga eins og Blæ frá Langsholtskoti. Hér var Óli á heimavelli og þekking hans yfirgripsmikil.

Óli átti góð hross, m.a. verðlaunahryssuna Flipu. Hann spáði mikið í rækun og það var ekki annað hægt en að hrífast af áhuga hans. Það var gaman að heimsækja hann í hesthúsin þar sem hann ræddi um trippin sín og spurði og hvað líst ykkur nú best á strákar og í framhaldi spunnust ótal vangaveltur. Það var gaman og gefandi að koma í Nýja-Bæ enda þau hjón höfðingjar heim að sækja.

Óli hafði gaman af veiði og segja veiðisögur eins og reyndar flestir karlmenn í fjölskyldunni. Faðir hans veiddi mikið en veiðin var ekki eingöngu upp á sport. Hún var liður í lífsbjörginni, þeir voru ekki háir í loftinu bræðurnir Óli, Hreinn og Jói þegar þeir fóru að draga björg í bú, ýmist skjóta fugl eða veiða fisk. Veiðisögurnar voru órjúfanlegur hluti veiðiferðanna, mikið var hlegið og hent gaman að ef mönnum voru eitthvað mislagðar hendur við veiðarnar.

Óli og Helga seldu Nýja-Bæ árið 2002 og flytjast á Selfoss. Jörðin togaði þau þó til sín. Þau létu draum sinn rætast þegar þau byggðu nýbýlið Nýjabæ-1 og fluttust aftur í sveitina um síðustu áramót. Óli var ættrækin, ættfróður  og vinamargur og hans verður sárt saknað en hugur okkar og samúð á þessari stundu er fyrst og fremst hjá Helgu, systkinunum frá Nýja-Bæ og fjölskyldum þeirra.  Guð blessi minninguna um góðan dreng.

Haraldur og Ólafur Jónssynir.