Ingibjörg Jónsdóttir var fædd 31. mars 1914 í Tungukoti í Kirkjuhvammshreppi V- Húnavatnssýslu. Hún lést á Dvalarheimilu Grund 5. apríl 2009. Foreldrar hennar voru Ósk Bjarnadóttir, fædd á Harastöðum, Breiðabólstaðarsókn, V-Hún. 7. nóvember 1875, látin 21. apríl 1959 og Jón Kristófersson, fæddur í Tjarnarsókn, V-Hún. 27. febrúar 1876, látinn 1948.Systkini Ingibjargar voru; Ágúst f. 19. ágúst 1904, d. 1989, Kristinn f. 1. febrúar 1908, d. 1998 og Hólmfríður Guðný f. 5. júní 1918 d. 1920. Ingibjörg giftist Jóni Bekk Ágústssyni f. 12. janúar 1903 í Norður Múlasýslu. D. 30.júlí 1990. Börn þeirra eru 1)Jónína Ósk f. 21. febrúar 1946, d. 25. febrúar 2009. Börn hennar eru 4, 2)Rósa f. 9. ágúst 1949. Börn hennar eru 3, 3)Hólmfríður Guðný f. 18. september 1954. Hennar börn eru 4. og 4)Drengur Jónsson f. 1. nóvember 1959, d. 10 febrúar 1960. Unnusti Ingibjargar var Sigurbjörn Guðmann Guðmundsson f. 10. desember 1905,á Kolþernumýri í Vesturhópi í V-Hún. d. 28. janúar 1970. Sonur þeirra er Guðmann Sigurbjörnsson f. 30 september 1947. Hann á 3 börn. Ingibjörg ólst upp hjá foreldrum sínum í Tungukoti og síðar að Garðsvík á Vatnsnesi. Síðan fluttist hún að Svalbarði og þaðan til Reykjavíkur 1949. Ingibjörg var við nám við húsmæðraskólann á Blönduósi veturinn 1935-1936. Einnig var hún nemandi við Reykjaskóla í Hrútafirði og síðan starfsmaður skólans í einn vetur. Ingibjörg vann fulla vinnu ásamt húsmóðurstörfum og barnauppeldi. Hún starfaði m.a. í áratugi á næturvöktum á Kleppsspítala Barnabörn Ingibjargar eru 14, langömmubörnin 22 og langalangömmubarnið er eitt Útför Ingibjargar fer fram frá Langholtskirkju í dag og hefst athöfnin kl 15.

Núna þegar ég kveð elsku ömmu mína, hugsa  ég til baka um allar þær góðu stundir sem ég átti með henni.  Það var alltaf svo gaman að koma í heimsókn til hennar, þar var ávallt á boðstólum kökur og ís, þó það hafi alltaf verið vinsælt þá var það aðalleg hlýjan sem maður sóttist eftir þegar við kíktum við í Álfheimunum.

Þegar ég var yngri og amma var að passa mig eða ég fékk að gista hjá henni þá  skemmtum við okkur alltaf rosalega vel. Við spiluðum og hlustuðum á útvarpið, amma las líka mikið fyrir mig, skemmatilegst þótti mér samt þegar amma setti fastafléttur í hárið á mér, mikið fannst  mér ég vera flott.

Amma var mikil sögukona og mundi allt. Hún hafði alltaf einhverja sögu að segja mér. Einu sinni fórum við mamma og pabbi með ömmu norður á Hvammstanga og amma hafði sögu að segja hverjum hól og stein á leiðinni, það var mér mjög minnistæð ferð.  Ég hafði alltaf gaman af því að hlusta á hana og á eftir að sakna þess að fá ekki að eyða fleiri stundum með henni.

Elsku amma mín megi þú hvíla í friði og ró.

Þín,

Hertha Rós.