Rannveig Jónsdóttir fæddist á Keldum í Mosfellshreppi þ. 23. febrúar 1922. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Eir í Reykjavík þ. 4. júlí 2009. Foreldrar hennar voru hjónin Katrín Eyjólfsdóttir, f. 18. janúar 1891 á Kirkjubóli í Hvítársíðu og Jón Ingimarsson bóndi, f. 16. apríl 1894 á Helgastöðum í Eyjafirði. Rannveig var eitt sjö barna þeirra hjóna. Systkini hennar eru: Eyjólfur f. 1920, d. 1992, Guðrún f. 1923, d. 2006, Ingimar f. 1925, Aðalsteinn f. 1927, d. 2005, Tómas f. 1929 og Svandís f. 1932. Rannveig stundaði nám í Menntaskólanum í Reykjavík 1938-39 og lauk þar gagnfræðaprófi. Eftir það starfaði hún m.a. hjá Tryggingastofnun Ríkisins og BSRB á árunum 1973 til 1992. Eiginmaður Rannveigar var Bergmundur Guðlaugsson, yfirtollvörður á Keflavíkurflugvelli, f. 12. mars 1918, d. 9.apríl 1990, sonur hjónanna Ingibjargar Kristínar Guðnadóttur og Guðlaugs Hallvarðssonar frá Búðum í Hlöðuvík á Hornströndum. Rannveig og Bergmundur giftust 18. janúar 1951. Börn þeirra eru: 1) Guðlaugur, starfsmaður utanríkisráðuneytis, f. 24. maí 1951. Maki María Kristín Jónsdóttir, taugasálfræðingur, f. 9. desember 1957. Barn þeirra: Kári, f. 11. júlí. 1994. 2) Jón, verkfræðingur, f. 25. október 1952. Maki Guðrún Þórunn Ingimundardóttir, lífeindafræðingur, f. 27. apríl 1953. Börn þeirra: Kristjana, f. 5. desember 1973, barn hennar er Ingimundur Ágústsson, f. 22. júní 1995, Kjartan Ingi, f. 16. júlí 1978, í sambúð með Heru Ágústsdóttur, hennar synir eru Stefán Svanberg Harðarson f. 22. október 2001 og Jökull Þór Harðarson f. 4. janúar.2007, 3) Hlöðver, jarðfræðingur, f. 17. febrúar 1954. Maki Jóhanna Soffía Óskarsdóttir, sjúkraþjálfari, f. 22. janúar 1955. Börn þeirra: Óskar Bergur, f. 13. september 1980, Heiðrún, f. 23. júlí 1984, í sambúð með Friðjóni Sigurðarsyni, Kristín, f. 3. maí 1989, Hildur, f. 3. maí 1989, í sambúð með Steini E. Sigurðarsyni. 4) Ingibjörg, bókasafnsfræðingur, f. 23. september 1957. Eiginmaður hennar er Harald B. Alfreðsson, verkfræðingur, f. 19. október 1949. Börn þeirra: Harald Bergur, f. 8. október 1979, Birgir, f. 27. apríl 1983, maki Jóna E. Ottesen 5) Katrín Björk, bankamaður, f. 4. júlí 1959. Maki Sigurður Egill Grímsson, rafvélavirki, f. 17. júlí 1956. Börn þeirra: Rannveig, f. 7. nóvember 1980, barn hennar er Bjarnfinnur Sverrisson, f. 20. ágúst 2004; Egill Már, f. 10. maí 1988. 6) Sigrún Berglind, sjúkraþjálfari, f. 25. apríl 1963. Maki Helgi Konráð Bollason Thoroddsen, arkitekt, f. 10. febrúar 1961. Börn þeirra: Bergmundur Bolli, f. 31. október 1997, Jóhannes, f. 2. desember 2000. Útför Rannveigar fer fram frá Háteigskirkju í dag, 16. júlí og hefst athöfnin kl. 13.
Í mínum huga var Rannveig óaðskiljanleg BSRB og minnist ég hennar frá því ég fyrst steig inn á vettvang samtakanna um 1980. Þegar ég síðar var kjörinn formaður BSRB, í október árið 1988, og kom til fullra starfa á skrifstofu samtakanna, var Rannveig þar til staðar. Hún lét af störfum fyrir aldurs sakir haustið 1992 og starfaði því hjá BSRB um tveggja áratuga skeið. Ég set þessi orð á blað til að minnast framlags hennar í þágu bandalagsins en fyrir störf sín á hún þakkir skildar.
Rannveig var hæglát manneskja, sem vann sín verk af alúð og kostgæfni. Persónulega er ég henni ævinlega þakklátur fyrir hve vel hún tók mér og gerði mér lífið auðveldara þegar ég fyrst kom til starfa á nýjum starfsvettvangi.
Það er mikilvægt fyrir alla vinnustaði, ekki síst þá sem eiga að sinna málefnum sem tengjast réttindabaráttu launafólks, að þar séu að störfum einstaklingar sem búa yfir velvilja og löngun til að greiða götu annarra. Þannig var Rannveig.
Fyrir hönd BSRB færi ég aðstandendum Rannveigar Jónsdóttur samúðarkveðjur.
Ögmundur Jónasson.
Rannveig Jónsdóttir var lánsöm kona í lífinu, hún átti stóra og góða fjölskyldu. Hún kom úr fjölmennum og samhentum systkinahópi. Sjálf átti hún sex börn, þrettán barnabörn og tvö langömmubörn. Rannveig var greind og félagslynd en hafði sig ekki mikið í frammi í fjölmenni. Hún var fyrst og fremst fjölskyldukona.
Rannveig var umhyggjusöm og náin öllu sínu fólki og vinum og bar hag þeirra allra fyrir brjósti.Rannveig lifði tíma mikilla breytinga í þjóðlífinu. Hún ólst upp við einfalt sveitalíf á bænum Breiðholti, þá í útjaðri Reykjavíkur. Síðar flutti fjölskylda hennar til Reykjavíkur. Þar gekk Rannveig í skóla. Hún var afburða námsmaður en skólaganga hennar var frekar stutt. Hún hafði mikinn áhuga á að halda áfram námi en aðstæður leyfðu það ekki. Í stað þess þurfti hún að vinna fyrir sér.
Rannveig vann aðallega við skrifstofustörf. Þar nýttist vel færni hennar í íslensku og stærðfræði. Heimilisstörfin tóku síðan við eftir að hún giftist manni sínum, Bergmundi Guðlaugssyni og börnin komu til. Það þurfti mikla vinnu og útsjónarsemi að sjá fyrir og ala upp börnin sex. Rannveig og Bergmundur voru farsælir foreldar og gáfu börnum sínum gott heimili. Þau voru samtaka í að gera börnum sínum kleift að njóta góðrar menntunar.
Búskapinn hófu þau Bergmundur í Hlíðahverfinu. Fyrst við Miklubraut síðan við Stigahlíð. Þar bjuggu þau á sama bletti og nær öll systkini Rannveigar sem er dæmi um mikla samheldni fjölskyldunnar. Seinna flutti Rannveig með manni og börnum upp í Breiðholt, Kóngsbakka 12 sem er örstutt frá bæjarstæði bernskuheimilis hennar. Þar þekkti Rannveig hverja þúfu og þar uxu hennar eigin börnin úr grasi eins og hún hafði gert sjálf.
Þegar ég kynntist tengdamóður minni, Rannveigu Jónsdóttur var hún aftur flutt í Hlíðarnar. Hún var þá nýlega orðin ekkja. Rannveig tók mér strax vel, vonbiðli yngstu dótturinnar. Kært var með okkur ætíð síðan.
Rannveig var höfðingi heim að sækja og kunni vel til verka enda hafði hún þurft að stjórna stóru heimili lengi. Hún hafði mikla unun af stórum veislum bæði að skipuleggja þær og ekki síst að njóta þeirra.Rannveig hafði einnig mikið yndi af ferðalögum. Eftir að börnin fluttu að heiman fékk hún tækifæri til að ferðast til annarra landa. Hún rifjaði oft upp sögur frá þessum ferðum, sérstaklega frá ferðinni til Vínarborgar.Síðustu árin dvaldi Rannveig á hjúkrunarheimilinu Eir, þar sem hún naut góðrar umönnunar. Blessuð sé minning hennar.
Helgi Bollason Thóroddsen.