Helga Sif Jónsdóttir fæddist í Reykjavík 21. júní 1957. Hún andaðist á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja föstudaginn 3. apríl 2009. Foreldrar hennar eru hjónin Jón Halldór Jónsson, f. 5. júní 1929 og Soffía Karlsdóttir, f. 26. ágúst. 1928. Systkini Helgu eru Björg K. B., f. 10. janúar 1951, Birgitta, f. 28. mars 1952, Kristín G.B., f. 25. febrúar 1955, Jón H., f. 18. júní 1956, Sólveig, f. 23. september 1958, Karen H., f. 12. desember 12.1960, Dagný Þ., f. 1. janúar 1964 Halldóra V., f. 21. mars 1968, og Ragnheiður E., f. 10. ágúst 1969. Eiginmaður Helgu er Guðmundur Örn Ólafsson, f. 4. júní 1957. Börn þeirra eru: 1) Halldór Kristófer, f. 22. ágúst 1977, börn hans, Kristófer Árni, f. 18. febrúar 1999 og Dagný Rós, f. 8. nóvember 2002. 2) Magni Freyr, f. 16. október 1978, maki Kristjana Vilborg Þorvaldsdóttir, f. 8. janúar 1981. 3) Linda, f. 21. október 1981, unnusti Martin King, f. 18. júní 1979. 4) Ólafur Örn, f. 10. apríl 1990, unnusta Íris Birgitta Hilmarsdóttir, f. 17. október 1991. 5) Guðmundur Jökull, f. 13. október 1993. Útför Helgu fer fram frá Keflavíkurkirkju í dag, 8. apríl, kl. 14.

Þegar góðar konur sem halda fjölskyldum saman falla frá losnar um fjölskylduböndin. Amma Dóra á Öldugötu sá um þetta í bernsku okkar og síðar tók Dadda, Þóra kona Guðmundar Jónssonar söngvara við. Nú eru þær báðar löngu horfnar en eftir lifir í minningunni glaður og sístækkandi hópur systkinabarna. Hópur Nonna frænda og Soffíu Karlsdóttur stækkaði mest og svo bættust við makar og sægur barnabarna. Gömlu systkinin hittust æ sjaldnar. Þau héldu tengslum á hátíðum og þess á milli í síma. En við systkinabörnin sáumst örsjaldan svo þar var komið sögu að við þekktumst varla á götu. Aldursmunur var talsverður, leiðir okkar lágu sundur, en bernskuminningar af Öldugötu voru okkur öllum dýrmætar, sem þær áttu.

Fyrir rúmum tveimur árum frétti ég að Helga Sif, frænka mín, hefði veikst alvarlega. Ég tók loks á mig rögg og heimsótti hana ásamt syni mínum. Hún tók okkur fagnandi, minnti á ömmu okkar en röddin og dillandi hláturinn var frá Soffíu. Hún kynnti okkur fyrir börnum sínum og svo sátum við lengi og skoðuðum gömul og ný albúm með ættarsögunni og töluðum um allt milli himins og jarðar, um lífið, börnin, dauðann og eilífðina. Frænka mín var trúuð og treysti á sinn guð. Hún var staðráðin í að lifa lífinu lifandi en gerði sér ekki grillur um endalokin.

Ég ók hugsi til Reykjavíkur, enda gerði ég mér grein fyrir hvað ég hafði misst af miklu öll þessi ár.

Þegar við Helga Sif kvöddumst höfðum við ákveðið að halda ættarmót. Þetta varð svo til þess að við flest, afkomendur Jóns Þorvarðarsonar í Verðanda og konu hans, Halldóru Guðmundsdóttur, komum saman í sal Kennaraháskólans fyrir rúmu ári síðan. Þetta var fjölmennur hópur. Sum okkar höfðu aldrei sést fyrr, né hitt maka, börn og barnabörn okkar kynslóðar. Samt vissu allir deili á öllum, ættarsvipur leyndi sér ekki, sami húmorinn sveif yfir vötnum, söngraddir margar og góðar og rödd Mumma frænda barst yfir salinn frá hljómflutningsgræjum. Hraustir menn".

Það var gott að hittast loksins. Ryk var dustað af gömlum myndum og börnunum sagðar sögur af ömmum og öfum sem bjuggu við kröpp kjör í allt öðruvísi heimi. Helga Sif ljómaði þegar hún kynnti hópinn sinn. Ekkert var henni dýrmætara og af engu var hún jafnstolt.

Mér er efst í huga þakklæti til frænku minnar fyrir þennan dag og fyrir að leyfa mér að skyggnast örlítið inn í líf hennar síðustu árin.

Við vottum ástvinum Helgu Sifjar okkar dýpstu samúð.

Fyrir hönd móður okkar og fjölskyldu,


Dóra S. Bjarnason .