Aðalmundur Jón Magnússon fæddist í Litla-Dal í Saurbæjarhreppi, nú Eyjafjarðarsveit, sunnudaginn 23. ágúst 1925. Hann lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi miðvikudaginn 1. júlí 2009. Foreldrar hans voru Magnús Jón Árnason járnsmiður, f. 18. júní 1891, d. 24. mars 1959, og Snæbjörg Sigríður Aðalmundardóttir húsmóðir, f. 26. apríl 1896, d. 27. mars 1989. Systkini Aðalmundar samfeðra eru Hildigunnur, f. 28. mars 1915, d. 21. nóvember 1994, Ragnheiður, f. 18. desember 1916, d. 4. apríl 1941, Árni, f. 24. mars 1918, d. 7. mars 1983, Aðalsteinn, f. 6. febrúar 1920, d. 1. maí 1990, og Freygerður, f. 9. nóvember 1933, d. 8. mars 2007. Alsystkini Aðalmundar eru Hrefna, f. 3. mars 1920, d. 25. mars 2008, Þorgerður, f. 4. mars 1922, Guðný, f. 12. febrúar 1923, og Guðrún, f. 16. maí 1924. Fyrri kona Aðalmundar er Gyða Gestsdóttir, f. 24. janúar 1930. Saman eignuðust þau dótturina Auði, hún er húsmóðir, f. 12. maí 1953, gift Sævari Þór Guðmundssyni rafvélavirkja, f. 21. október 1953. Þeirra börn eru 1. Aðalmundur Magnús húsasmiður, f. 17. júlí 1971. Hann á dótturina Elísu Auði, f. 14. janúar 1995. 2. Guðmundur Þór markaðsstjóri, f. 27. janúar 1975, kvæntur Fanneyju Dögg Ólafsdóttur, sjúkraliða og snyrtifræðingi, f. 26. september 1981. Saman eiga þau soninn Aron Þór, f. 5. apríl 2008. Fyrir átti Fanney Dögg dótturina Andreu Rós, f. 4. júní 2002. 3 Lilja Sædís nemi, f. 31. janúar 1978. 4. Eva María, f. 12. nóvember 1982, d. 25. september 1990, lést af slysförum. 5. Maríanna Eva nemi, f. 7. júní 1992. Aðalmundur og Gyða skildu 1967. Eiginkona Aðalmundar er Hilke Jakob, f. 25. mars 1941. Þau giftust 28. febrúar árið 1972 og eignuðust saman þrjá syni. 1. Konrad Garðar, flugstjóri hjá Flugleiðum, f. 21. júlí 1971, kvæntur Unni Ýri Jónsdóttur, MA í alþjóðafræði, f. 19. febrúar 1970. Saman eiga þau synina Baldvin Birni, f. 21. maí 2001, og Jón Kára, f. 16. október 2006. 2. Henning Þór, stýrimaður hjá Landhelgisgæslunni, f. 14. desember 1973, kvæntur Berglind Rut Magnúsdóttur leikskólakennara, f. 9. júní 1982. Saman eiga þau dótturina Karólínu Ösp, f. 13. nóvember 2007. Fyrir átti Henning dótturina Margréti Birnu, f. 9. desember 1994. 3. Magnús Ingi námsmaður, f. 13. maí 1975, kvæntur Sunnu Björk Guðmundsdóttur tölvunarfræðingi, f. 22. nóvember 1976. Þau eiga dæturnar Júlíu Jökulrós, f. 3. september 2005 og Emilíu Snæbjörgu, f. 12. september 2007. Aðalmundur bjó í sömu sveit til 10 ára aldurs, að hann flutti til Akureyrar. Eftir fermingu gekk hann í gagnfræðaskóla og stundaði almenna vinnu til sjávar og sveita fram að tvítugu. Fór þá til Ameríku til flugvirkjanáms. Skömmu eftir heimkomu 1947 hóf hann störf sem flugvirki hjá Loftleiðum hf., síðar Flugleiðum hf., og starfaði þar til 1990. Aðalmundur starfaði lengst af sem flugvélstjóri eða í um 42 ár. Eftir það tók Aðalmundur að sér verkefni hjá öðrum flugfélögum. Útför Aðalmundar fer fram frá Dómkirkjunni í Reykjavík í dag, 8. júlí, kl. 15.
Þakka þér fyrir allt. Þú varst alltaf til staðar, ávallt reiðubúin að rétta fram hjálparhönd ef á þurfti að halda. Oft áttir þú það til að hringja til mín, einungis til að spyrja hvernig ég hefði það ósköp þótti mér alltaf vænt um það.
Við fjölskyldan glöddumst svo mikið yfir því að fá að njóta nærveru þinnar á brúðkaupsdaginn okkar hjóna, aðeins nokkrum dögum áður en þú kvaddir þennan heim.
Síðasta skiptið er við hittumst og áttum góða stund saman, er mér ógleymanleg. Þú varst alltaf jafn skarpur þó líkaminn væri að gefa sig.
Sárt er vinar að sakna.
Sorgin er djúp og hljóð.
Minningar mætar vakna.
Margar úr gleymsku rakna.
Svo var þín samfylgd góð.
/
Daprast hugur og hjarta.
Húmskuggi féll á brá.
Lifir þó ljósið bjarta,
lýsir upp myrkrið svarta.
Vinur þó félli frá.
/
Góða minning að geyma
gefur syrgjendum fró.
Til þín munu þakkir streyma.
Þér munum við ei gleyma.
Sofðu í sælli ró.
(Höf. ók.)
Hvíl í friði elsku afi minn.
Guðmundur Sævarsson og fjölskylda.
Mig langar með örfáum orðum að minnast Alla frænda míns.
Alli var litli bróðir hennar ömmu sem nú er látin og var alla tíð mjög
náið samband milli þeirra og umhyggjan mikil. Ég hélt alltaf mikið upp á
Alla enda sá ég alltaf svo mikið af ömmu í honum og þegar ég fékk
fréttirnar af andláti hans fannst mér sem ég hefði misst ömmu mína í annað
sinn enda margt sem þau áttu sameiginlegt. Það var alltaf svo auðvelt og
bara skemmtilegt að ræða við hann og átti hann einstaklega auðvelt með að
ná til allra, ungra sem aldinna enda með einstaklega notalega nærveru. Hann
var ungur í anda og sjálfsagt þess vegna sem mér fannst hann aldrei vera
gamall.
Nú er Alli frændi horfinn á vit nýrra ævintýra og skilur hann eftir sig stórt skarð sem verður vandfyllt. Ég vil þakka honum fyrir allt sem hann var ömmu minni sem og okkur hinum.
Hilke, Auði, Henning, Konrad, Magnúsi og fjölskyldum þeirra votta ég mínar dýpstu samúð.
Hvíldu í friði kæri frændi,
Sigríður Perla Thorsteinson