Gunnar Þór Sveinbjörnsson var fæddur í Reykjavík 3.september 1948, hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 29.september sl. Foreldrar Gunnars Þórs voru Þóra Jóhanna Sigurðardóttir og Þórður Sveinbjörn Davíðsson bæði látin. Albróðir Gunnars Þórs er Sveinbjörn, systkini sammæðra eru Erla, Alma látin og Kristín, samfeðra Svanberg látinn, Hrafn og Íris. Gunnar Þór kvæntist 3.september 1977 Erlu Sigríði Sveinsdóttur. Foreldrar hennar eru Anna Pála Sigurðardóttir og Sveinn Ólafsson Ormsson. Synir Gunnars Þórs og Erlu Sigríðar eru Sigurður Árni unnusta hans er Birna Ingibjörg Valgarðsdóttir, sonur þeirra er Viktor Magni. Sonur Sigurðar Árna og Gunnhildar Brynjólfsdóttur er Árni Steinn. Magnús Þór unnusta hans er Kristjana Arnarsdóttir þeirra sonur er Jakob Máni. Dóttir Gunnars Þórs er Sveinbjörg Þóra gift Sævari Leifssyni, börn þeirra eru Elísabet Ester, Sigurður Gunnar og Viktoría Sól. Gunnar Þór lærði húsasmíði og vann sem trésmiður, lengst af hjá Keflavíkurverktökum og Íslenskum Aðalverktökum. Útför Gunnars Þórs fer fram frá Keflavíkurkirkju í dag kl.14.

Nú er skarð fyrir skildi í fjölskyldu okkar, hann Gunni er fallin frá. Manni er svo orða vant, okkur finnst svo örstutt síðan að við komum á Vatnsnesveginn og hittum Gunna kátan og hressan og hann tók á móti okkur með sinni glettnu kveðju: Hæ Kids á ég að hella á En eigi má sköpun renna, í vor greindist hann með þann sjúkdóm sem hann beið ósigur fyrir. Nú verður ekki hægt að kalla í Gunna ef þarf að laga eitthvað hjá einhverjum í fjölskyldunni, en alltaf var hann tilbúinn að rétta hjálparhönd ef eitthvað bjátaði á.

Margar stundirnar var hann með tengdapabba upp í Borgarfirði þegar þeir byggðu sumarbústað fjölskyldunnar. Þá hafði hann gaman að veiða og voru ófáar veiðiferðirnar sem hann fór í með tengdapabba og Binna svila sínum. Þá hafði Gunni mikinn áhuga á körfubolta,  enda spilar yngri sonur hans í úrvalsdeild og landsliðinu í körfubolta. Eins voru gamlir bílar áhugamál hans og var hann langt kominn að gera einn upp, en entist  ekki aldur til að aka honum á götum Keflavíkur.

Það er svo ótal margs að minnast á þessum tímamótum. T.d. allar góðu stundirnar þegar þau Erla og hann komu í heimsókn með strákana á Stöddann. Allar ánægjustundirnar í bústaðnum og svo ótalmargar aðrar gleðistundir. Eftir að Gunni veiktist vék ekki Erla kona hans frá sjúkrabeði hans allt til enda, og þegar kallið kom var hann í faðmi ástvina sinna allra. Þetta eru fátækleg kveðjuorð,en minningin mun lifa um góðan dreng. Við Helga viljum þakka Gunna allar samverustundirnar sem við áttum saman.

Vertu, Guð faðir, faðir minn,
í frelsarans Jesú nafni,
hönd þín leiði mig út og inn,
svo allri synd ég hafni.

/

Minn Jesús, andlátsorðið þitt
í mínu hjarta eg geymi,
sé það og líka síðast mitt,
þá sofna eg burt úr heimi.
(Hallgrímur Pétursson.)


Magnús Steinar Sigmarsson. Helga Sveinsdóttir.