Jón Hauksson fæddist í Reykjavík 8. maí 1943. Hann varð bráðkvaddur á heimili sínu aðfaranótt 6. júlí 2008. Hann var sonur hjónanna Hauks Halldórssonar húsgagnasmiðs, f. 8. júlí 1909 og Ingunnar Helgu Jónsdóttur húsmóður, f. 7. febrúar 1909. Systir Jóns er Brynhildur búsett í Bandaríkjunum og hálfbróðir Jóns var Ólafur Jakobsson, látinn. Jón kvæntist 21. september 1968 Svölu Guðnýju Hauksdóttur, f. 4. ágúst 1939. Börn þeirra eru: 1) Haukur, f. 31. janúar 1967, maki Kristbjörg Jónsdóttir, f. 4. október 1967. Börn þeirra eru Auður Tinna Hlynsdóttir, f. 8. september 1987 og Svala Guðný Hauksdóttir, f. 15. október 2003. 2) Bjarki, f. 5. mars 1971, maki Ósk Gunnarsdóttir, f. 29. mars 1970, Börn þeirra eru Aron Hansen, f. 14. janúar 1988, Sunna Lind, f. 4. ágúst 1992 og Gabríel, f. 27. mars 2003. 3) Jóhanna Inga, f. 3. mars 1972, maki Hólmgeir Austfjörð, f. 2. október 1974. Börn þeirra eru Óli Bjarki Austfjörð, f. 13. október 1996, Svala Björk, f. 5. maí 1998 og Jón Ævar, f. 6. nóvember 2003. Jón hlaut hefðbundna skólagöngu á Selfossi þar sem faðir hans rak húsgagnasmíðaverkstæði og verslun. Hann dvaldist í Bandaríkjunum sem skiptinemi í eitt ár, varð stúdent frá Menntaskólanum á Laugarvatni með 1. einkunn árið 1964, cand. juris frá Háskóla Íslands árið 1970 með 1. einkunn og héraðsdómslögmaður 1975. Jón fluttist til Vestmannaeyja árið 1970 og hóf störf sem fulltrúi hjá bæjarfógetanum í Vestmannaeyjum 1. júní 1970, skipaður aðalfulltrúi frá ársbyrjun gosársins 1973 til ársloka. Starfaði sem fulltrúi í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu 1974-1975. Frá árinu 1975 rak hann eigin lögfræðiskrifstofu, var stundakennari í sjórétti við Stýrimannaskólann í Vestmannaeyjum frá 1971. Jón gegndi ýmsum félags- og trúnaðarstörfum og má þar nefna að hann sat í stjórn Stúdentafélags jafnaðarmanna á háskólaárum sínum, var í stjórn Bridgefélags Vestmannaeyja og Golfklúbbs Vestmannaeyja. Skoðunarmaður fyrir reikninga Vestmannaeyjabæjar, yfirkjörstjórn til sveitarfélags- og alþingiskosninga. Jón var virkur í störfum Alþýðuflokksins, Samfylkingar og stjórnmálaflokkum þeim tengdum í Vestmannaeyjum. Útför Jóns verður gerð frá Landakirkju í Vestmannaeyjum í dag og hefst athöfnin klukkan 14.
Nú þegar ár er liðið frá andláti tengdaföður míns, vil ég minnast hans, með fáeinum orðum.
Sú kalda staðreynd blasti við fjölskyldunni að morgni 6. júlí 2008, að ástkær tengdafaðir minn hafði svo snögglega kvatt þennan heim, svo til fyrirvaralaust. Jón hafði verið hjartasjúklingur til margra ára, en hafði ekki kennt sér meins í töluverðan tíma, það var annað sem flýtti fyrir andláti hans, eitthvað sem við fjölskyldan getum seint fyrirgefið. Við kannski lærum það með árunum.
Ég einfaldlega meðtek ekki þá staðreynd að við eigum ekki eftir að spjalla saman og hlæja. Jón hafði svo skemmtilegan hlátur. Hann var svo mikill húmoristi, alltaf stutt í grínið. Mér finnst enn þá eins og hann eigi eftir að opna útidyrahurðina, ganga inn og segja: Jæja krakkar mínir, hvað er að frétta?
Það sem ég kunni best við í fari hans var hvað hann var hreinn og beinn, kom bara til dyranna eins og hann var klæddur, engin tilgerð, sumum líkaði það, öðrum ekki, en svona er bara lífið.
Jón vissi ótrúlega margt, sannkallaður viskubrunnur, það var hægt að leita til hans með nánast hvað sem var, hann var alltaf með svörin.
Engin veit hvað átt hefur, fyrr en misst hefur, eru orð að sönnu.
Farðu í friði, vinur minn kær
faðirinn mun þig geyma
Um aldur og ævi þú verður mér nær
Aldrei ég skal þér gleyma.
(Bubbi Morthens)
Kristbjörg Jónsdóttir.