Þórhallur Steingrímsson fæddist í Reykjavík 21. júlí 1955. Hann lést á gjörgæslu Landspítalans í Fossvogi 23. júní síðastliðinn. Foreldrar hans eru Þóra Kristín Kristjánsdóttir, f. 1922, og Steingrímur Bjarnason, f. 1918, d. 1994. Systkini Þórhalls eru: 1) Ólína Kjartans Óladóttir Ermert, f. 1941. 2) Bára Steingrímsdóttir, f. 1943. 3) Bárður Árni, f. 1945. 4) Kristján, f. 1946. 5) Bjarni Jón, f. 1947, d. 1968. 6) Laufey, f. 1948. 7) Erlingur, f. 1949. 8) Steinþór, f. 1951. 9) Kristín Salóme, f. 1954. 10) Gunnar Örn, f. 1956. 11) Hörður, f. 1957, d. 1984. 12) Lilja, f. 1960. Eiginkona Þórhalls er Þorgerður K. Halldórsdóttir, f. 1. nóvember 1958. Foreldrar hennar eru Jóhanna Friðriksdóttir, f. 1923, d. 1992, og Halldór Þ. Bjarnason, f. 1923, d. 1975. Þórhallur og Þorgerður eignuðust fjórar dætur og barnabörnin eru orðin sjö: 1) Þóra Kristín, f. 18. janúar 1979, gift Árna Steinarssyni, f. 29. júlí 1979, þau eiga þrjá syni, Andri Þór, f. 18. febrúar 2002, Jóel Orri, f. 4. ágúst 2005 og Arnar Breki, f. 19. febrúar 2009. 2) Rakel Ósk, f. 7. ágúst 1980, maki Elmar Sigurðsson 8. ágúst 1977, þau eiga Tristan Marra, f. 21. nóvember 2004, Rakel á Þórhall Darra, f. 13. apríl 1998, með Þór Sigurðssyni, f. 18. apríl 1978. 3) Berglind Björk, f. 2. júní 1985, maki Sigurður Árnason, f. 12. mars 1982, þau eiga Viktor Val, f. 18. apríl 2007. 4) Helga María, f. 18. maí 1987 maki Ívar Daníelsson, f. 11. apríl 1986, þau eiga Karitas Klöru, f. 29. júlí 2008. Þórhallur fæddist á Sogaveginum þar sem hann ólst upp og bjó mestan hluta ævinnar. Þórhallur gekk í Breiðagerðisskóla og síðan Réttarholtsskóla. Eftir unglingapróf 1970 gerðist hann vinnumaður á Skarði í Landsveit þar sem hann var m.a. vetrarmaður. Seinna byggði hann sumarhús á næsta bæ, Króktúni. Á næstu árum stundaði Þórhallur ýmis störf til lands og sjávar. Má þar nefna landbúnaðarstörf, steypuvinnu við Sigöldu og sjómennsku, ásamt því að reka fiskbúðina í Grímsbæ um tíma. Á yngri árum var Þórhallur virkur í starfi JC hreyfingarinnar og í ungliðasveit Sjálfstæðisflokksins. og sat m.a. í stjórn Byggung í Reykjavík. Þórhallur var kaupmaður í Matvörubúðinni í Grímsbæ og Plúsmarkaðnum frá 1983 til 1998 og síðan í Bláa turninum við Háaleitisbraut. Hann átti og rak fyrirtækið Catco sem m.a. sá um markaðssetningu á íslensku lambakjöti og bleikju í Bandaríkjunum. Þórhallur gegndi margvíslegum trúnaðarstörfum fyrir matvörukaupmenn, m.a. var hann lengi í stjórn Félags matvörukaupmanna og var formaður um tíma ásamt því að vera formaður IMA um tíma. Þá var hann var lengi í fulltrúarráði Kaupmannasamtakanna og sat í stjórn samtakanna. Hann gaf nafn og stofnsetti ásamt fleiri kaupmönnum samstarfsvettvang matvörukaupmanna Þín verslun. Útför Þórhalls verður gerð frá Bústaðakirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 11. Jarðsett verður frá Skarðskirkju í Landsveit kl. 15.

Á fallegum sumardegi  lagði Þórhallur, Tobbi mágur minn, af stað í sína hinstu ferð. Nánast fyrirvaralaust.Andlát hans  er þungt högg fyrir okkur öll  sem áttum hann að, ekki síst fyrir Toggu, dæturnar og Kristínu móður hans.

Kynni okkar Tobba hófust í kringum 1973, austur í Rangárvallasýslu. Tobbi bjó á Skarði og ég með annan fótinn á Efri Rauðalæk.   Hugurinn leitar aftur til þessara  ára. Við, ásamt Tolla í Holtsmúla, brölluðum ýmislegt og eyddum mikið af frítíma okkar saman. Tobbi var afar hvatvís,  hnyttinn og fljótur í tilsvörum. Hann gat stokkið upp á nef sér en var jafnan fljótur niður aftur. Hann var greiðvikinn með eindæmum og fólki var aldrei í kot vísað sem til hans leitaði.

Fljótlega fórum við að fara í veiðiferðir inn í Veiðivötn. Þær urðu margar og flestar ógleymanlegar. Við  þvældumst yfir kvíslar á vanbúnum bílum, eitthvað sem manni dytti aldrei í hug að gera í dag.

Ófáar voru bíóferðir okkar Tobba, en mér eru sérstaklega minnisstæðar sýningar þar sem atriðin voru gerð til þess að bregða fólki. Hann var mikil tilfinningavera og lifði sig vel inn í söguþráðinn, þannig að eftir er munað.  Á stórslysamynd,  tók óttinn öll völd, svitinn spratt úr öllum holum, svo að jakkinn hans var eigi nothæfur eftir. Á annarri bíómynd var honum verulega brugðið, þegar spenna og tónlist áttu gott samspil og tilgangurinn sennilega  að hræða líftóruna úr fólki. Það skipti engum togum, að Tobbi stökk upp úr stólnum og  lét sig síðan falla ofan í hann aftur, þannig að allur bekkurinn gekk til.

Það var svo í heimsóknum Tobba á Hólatorgið að hann fór að renna hýru auga til yngstu systur minnarToggu. Ekki leið  langur tími, þar til augu hans bræddu hjarta hennar. Og það var eins og við manninn mælt að þau smullu saman og hafa átt afar farsælt líf. Enda tel ég mig eiga meira í dætrum hans, en aðrir í ættinni. Saman eignuðust þau Togga 4 yndislegar dætur. Sem hafa erft það besta frá foreldrum sínum. Þær hafa svo enn bætt í fjölskylduna, því að þegar eru komin 7 barnabörn. Tobbi passaði vel inn í Hólatorgsfjölskylduna og var móður minni og okkur mikill vinur.

Tobbi og Togga reyndust okkur ómetanleg, þegar  Hrönn og Gummi fluttu heim frá Danmörku, og voru húsnæðislaus tímabundið. Af einskærri elsku og gestrisni, opnuðu þau heimili sitt. Þó fjölskyldan væri orðin stór og enn von á fjölgun, því að 4. barnið var þá búin að gera vart við sig, var nóg pláss fyrir húsnæðislausa.  Verður sú umhyggja seint fullþökkuð. Í seinni tíð eyddum við Tobbi allt of fáum stundum saman. Dugnaður hans var mikill og hann vann mikið, sem fisksali, kaupmaður til margra ára í Grímsbæ og nú síðast kaupmaður í Bláa Turninum og nefni ég þá aðeins það helsta.

Við fjölskyldan þökkum honum af alhug fyrir samfylgdina um leið og við vottum Toggu, dætrunum og ástvinum hans öllum okkar innilegustu  samúð. Sorgin er óbærileg núna. En öll eigum við glaðar og góðar minningar um Tobba sem munu ylja okkur um ókomin ár.


Friðrik G. Halldórsson (Denni.)

Elsku Tobbi minn.

Það er mjög erfitt að trúa því að þú ert farinn, en í leiðinni er ég mjög þakklát fyrir að ég hitti þig í Króktúni og fékk að kyssa þig og faðma áður en þú kvaddir þennan heim. Ég er svo heppinn að eiga svo margar yndislegar minningar um ykkur og sú sem stendur mér efst í huga er hvað mér var alltaf tekið sem einni af dætrum ykkar. Það er erfitt að hugsa til þess að ég mun aldrei sjá ykkur Toggu saman aftur. Þið voruð yndisleg heild og ég hef alltaf tekið ykkur til fyrirmyndar.  Til dæmis hvað þið eruð miklir vinir vinkvenna dætra ykkar.

Elsku Togga, Þóra, Rakel, Berglind og Helga, ég votta ykkur mína dýpstu samúð og megi Guð og englar himins vaka yfir ykkur og vernda á þessum erfiðu tímum.

Elsku Tobbi minni, takk fyrir allt saman.

Kveðja,

Dobba Dúbba (Þorbjörg)