Sigurbjörn Fanndal Þorvalds son fæddist á Blönduósi 5. október 1969. Hann lést í Reykjavík 13. ágúst 2000 og fór útför hans fram frá Víðistaðakirkju 22. ágúst 2000.
Kveðja frá foreldrum
Sonur, við söknum og tregum,
sárt var að missa þig burt,
-áfram á ævinnar vegum
eftir þér verður spurt.
Enginn þér gleymir sem átti
aðgang að sál þinni og mátti
á vegferð í veröld finna
vermingu handanna þinna !
/
Sonur við söknum þín mikið,
sjáum þó lýsandi von,
-minninga blessandi blikið
bundið við ástkæran son.
Þakka þér allt sem þú áttir,
allt sem að gefa þú máttir,
vinum sem vaka og finna
vermingu handanna þinna !
/
Sonur, í sólskini á hæðum
sveipi þig frelsandi mál.
Þú lifir okkur í æðum,
andar í huga og sál.
Strengina sterka þar áttu,
stöðugt því fagnandi máttu,
vita að við munum finna
vermingu handanna þinna !
(Rúnar Kristjánsson.)
Þorvaldur Skaftason, Erna H Sigurbjörnsdóttir.