Atli Thoroddsen, flugstjóri, fæddist 29. maí 1970. Hann lést á 11E, krabbameinslækningadeild Landsspítalans að morgni 7. júlí. Foreldrar hans eru Þórunn Christiansen og Björn Thoroddsen. Systkini hans eru a) Kristín María, maki Steinarr Bragason. Börn þeirra eru Ingi þór, Arngrímur Bragi, Daníel Freyr og Ásgeir Steinn. b) Hrafn, maki Hrönn Hoe Hinriksdóttir. c) Halla, maki Kjartan Pálmason og dóttir þeirra er Þórunn Bríet. d) Helga, maki James Roche. Systkini samfeðra eru a) Gunnlaugur og dóttir hans er Birta Sif. b) Gestur, og c) Þórdís. Eiginkona Atla er Ásta Hallgrímsdóttir fædd í Reykjavík. Foreldrar hennar eru Hallgrímur Jónsson og Guðríður Þórhallsdóttir. Systkini Ástu eru a) Hrefna, maki Örn Kjartan Valdimarsson. Dætur þeirra eru Fríða og Friðrika. b) Hallgrímur Jón, maki Una Baldvinsdóttir og sonur Hallgríms er Óðinn Ívar. Atli og Ásta eignuðust tvær dætur, Andreu f. 7. júlí 1994 og Júlíönu f. 5. júní 2004. Atli ólst upp í Hafnarfirði og stundaði nám í Lækjarskóla og svo seinna í Fjölbraut í Garðabæ þaðan sem hann varð stúdent í desember 1991. Hann flaug sitt fyrsta einflug aðeins 17 ára gamall og tók einkaflugmannspróf í júlí 1988 og lauk atvinnuflugmannsprófi í september 1992. Hann starfaði hjá hlaðdeild og afgreiðslu Flugleiða innanlands á árunum 1988-1992. Atli hóf störf sem flugþjónn og flugumsjónarmaður hjá flugfélaginu Atlanta 1992 og starfaði þar til 1995. Hann kenndi einnig talsvert fyrir flugskólann Flugtak. Í mars 1995 var hann ráðinn sem flugmaður hjá Flugleiðum. Hann fékk leyfi frá félaginu í nokkra mánuði 2002-3 og flaug fyrir Luxair. Atli varð flugstjóri hjá Flugleiðum 1999 og starfaði sem slíkur þangað til í júlí 2006 þar sem hann þurfti frá að hverfa vegna veikinda. Atli var mjög virkur í einkaflugi og var einn af stofnendum flugklúbbsins Súlunnar og var einnig í Flugklúbbi Mosfellsbæjar, Flugklúbbi Þyts og Þristavinafélaginu. Hann stundaði skíði og æfði sem barn með Skíðadeild Ármanns og varð síðar virkur í foreldrastarfi félagsins þegar dætur hans fóru að æfa skíði. Hann var einnig meðlimur í Vélhjólaíþróttaklúbbnum VÍK. Atli var mikill tónlistarunnandi og var mjög fróður um tónlist. Hann var einn af stofnendum rokkhljómsveitarinnar Belju og sá um sönginn í þeirri hljómsveit. Útför Atla fer fram í Dómkirkjunni í dag, fimmtudaginn 16. júlí kl. 15.00.

Elsku Atli frændi minn. Mikið er erfitt að setjast niður og kveðja svona stórkostlega manneskju í blóma lífsins. Ég var svo heppin að ganga inn í þína fjölskyldu þegar að Ásgeir móðurbróðir þinn og Oddný móðir mín kynntust. Hann Ásgeir átti alltaf mikið í þér og þú í honum enda voruð þið mjög líkir og ekki hefði ég getað óskað eftir betri föður. Lífsgleði þín birti upp heilu herbergin og bjóst þú við þann einstaka hæfileika að laða fólk að þér úr öllum áttum, þú eignaðist marga trausta vini og þegar þeir voru þínir vildu þeir aldrei sleppa þér. Þú varst ekki sá sem talaðir bara um draumana heldur lést þú þá rætast líka og allir vildu fá að taka þátt í því með þér enda sótti fjölskylda þín og vinir í félagsskap þinn.Þú varst jákvæður, heill, sterkur, skemmtilegur og alltaf með glott í augum.

Þegar ég var 11 ára og þú 12 ára þá fluttir þú til L.A. og bjóst hjá okkur í 1 ár. Þá var ég loksins komin með þann stóra bróður sem ég svo þráð, við urðum perluvinir. Þú eignaðist strax stóran vinahóp og stunduðum við fótbolta af miklum krafti og alltaf var Ásgeir með okkur að styðja og hvetja. Þar varst þú tekinn af Cocoa Puffs kúrnum og kennt að borða allan mat eða bara svelta.

Mikill áhugi á tónlist bjó alltaf í þér og ákvaðst þú að læra á saxafón, þá þurfti ég að sjálfsögðu að læra á hljóðfæri líka. Ég hefði viljað læra á saxafón af því mér fannst það mjög flott, en þar sem ég loftaði ekki töskunni ákvað ég að læra á þverflautu í staðin. Ekki hafði ég svo sem mikinn áhuga á hljóðfærum og bjó ég ekki við þá tónlistarhæfileika sem þú hafðir, en ég lét mig nú hafa það til þess að fara í háfaðakeppni við þig þegar við vorum að æfa okkur heima. Svo stofnaður þú nú sennilega þína fyrstu hljómsveit þegar að Laddi kom í heimsókn og varst þú nú ekki lengi að útvega öllum gestunum hljóðfæri þ.e.a.s. potta, pönnur og skeiðar og við spiluðum á sax og flautu.

Ekki var nú mikill peningur á þessum tíma þannig að mamma saumaði á okkur eins föt og ekki fannst mér nú leiðinlegt þegar að fólk hélt að við værum tvíburar. Margar eru þær minningarnar og árið sem þú bjóst úti hjá okkur var eitt af því besta á minni 20 ára dvöl þar. Ég veit að þú ert komin á betri stað þar sem þú getur vakað yfir og verndað fallegu stúlkurnar þínar.

The making of friends,

who are real friends,

is the best token we have

of a   mans success in life.

(Edward Everett Hale.)

Það var sannur heiður að eiga þig sem vin! Guð geymi þig fallegi engill.

Þín,

Sirrý Christiansen