Emilía Eygló Jónsdóttir fæddist í Vestmannaeyjum, 25. október 1925. Hún lést úr krabameini á heimili dóttur sinnar í Bandaríkjunum 5. júlí sl. Foreldrar hennar voru hjónin Stefanía Einarsdóttir, ættuð frá Hrauntúni í Biskupstungum og Jón Ólafsson, ættaður frá Skarðshlíð, Austur-Eyjafjöllum. Systkini Eyglóar voru Anna Ólafía Jónsdóttir, fósturbróðir Magnús Jónsson, og uppeldissystir Guðrún Sigurðardóttir, þau eru öll látin, en eftirlifandi er bróðir hennar Ólafur Jónsson. Eygló ólst upp í Vestmannaeyjum fram á unglingsár, en fór síðan til náms til Reykjavíkur í Verslunarskóla Íslands, þar sem hún lauk verslunarskólaprófi. Eygló giftist Guðna Kristni Gunnarssyni og fóru þau til Kanada þar sem Guðni stundaði háskólanám. Þau fluttust síðar til Salisbury í Maryland í Bandaríkjunum og bjuggu þar upp frá því, utan fárra ára, sem þau bjuggu hér á Íslandi. Guðni lést 1984 en Eygló bjó áfram í Salisbury. Börn þeirra eru: a) Anna Jóna Pfeiffer, maður Leonard Pfeiffer IV, börn þeirra eru Kristín Emilía Pfeiffer, Leonard Pfeiffer V, Lauren D. Pfeiffer og Jacqueline A. Pfeiffer. b) Gunnar Kristinn Gunnarsson, eiginkona Jennifer Jill Johnston, synir þeirra eru William Brady Gunnarsson og Erik Kristinn Gunnarsson. Eygló vann skrifstofustörf í Kanada meðan Guðni var við sitt nám, annars var hún heimavinnandi, en tók virkan þátt í sjálfboðavinnu tengdri heilbrigðismálum. Hún var meðlimur í Garðyrkjuklúbbi og í Lúthersku kirkjunni í Salisbury. Hún var áhugasamur bridgespilari og tók oft þátt í keppnum. Minningarathöfn um Eygló var í Bethany Lúthersku kirkjunni í Salisbury sunnudaginn 26. júlí sl. Eygló verður jarðsungin frá Landakirkju í Vestmannaeyjum í dag, 10. ágúst og hefst athöfnin klukkan 14.

Elskuleg frænka okkar, Eygló hefur nú kvatt þessa tilveru.

Það er margs að minnast þegar litið er til baka.  Eygló var alltaf fastur punktur í tilveru okkar beggja þótt hún byggi í annarri heimsálfu mest allt sitt líf.

Eygló bjó í Bandaríkjunum ásamt manni sínum Guðna Kristni Gunnarssyni og þegar við vorum litlar stelpur var  spennandi að eiga frænku í Ameríku. Hún sendi okkur reglulega pakka, með ýmsum varningi sem sást ekki hér á landi í þá daga.

Á meðan móðir hennar lifði kom Eygló oftast á hverju ári Íslands og þá oft hingað til Vestmannaeyja ásamt  Guðna. Það var alltaf tilhlökkunarefni að fá þessi glæsilegu hjón í heimsókn og má með sanni segja að þá voru jól á æskuheimili okkar Blátindi hér í Vestmannaeyjum, því aldrei komu þau tómhennt og ekki voru veisluhöldin tilspöruð.

Á unglingsárum okkar nutum við systur báðar góðs að því að dvelja langdvölum á heimili þeirra hjóna í Salisbury í Maryland. Erum við þeim afar þakklátar fyrir umhyggjsemina gagnvart okkur og fjölskyldum okkar fyrr og síðar. Heimili þeirra var opið fjölda mörgum íslendingum og þau með afbrigðum gestrisin og hjálpsöm.

Eygló var mjög sterkur persónuleiki, hrein og bein. Hún vissi hvað hún vildi og hvernig hún átti að fara að því að ná því fram. Hún var glæsileg á velli og það var alltaf stutt í spaugið hjá henni, alveg fram á síðustu stundu þrátt fyrir óskaplega langvarandi og erfið veikindi. Eygló var mikil fjölskyldumanneskja og það var sterkt samband og mikil samstaða milli hennar og barna hennar tveggja, Önnu Jónu og Gunnars, sem og barnabarnanna allra. Sem sést ekki síst á því að banaleguna, sem var löng og erfið, liggur hún á heimili Önnu Jónu og nýtur umönnunar fjölskyldunar allrar þar til yfir lauk.

Það sem Eygló tók að sér tók hún að sér af heilum hug og skilaði ávallt fullkomnu verki.Þrátt fyrir að ná háum aldri var Eygló síung og fylgdist vel með öllum nýjungum, ekki síst þess vegna er missir hennar nánustu svo mikill og sár.  Við systur vottum Önnu Jónu og Gunnari, tengdabörnum hennar og barnabörnum öllum okkar dýpstu samúð.

Elsku Eygló , megi tilvera þín í nýrri vídd verða jafn fögur og þú varst sjálf,

Sigrún og Stefi.

Eftir langvinn og erfið veikindi er Eygló frænka okkar látin. Við systur minnumst hennar sem kraftmikillar, glæsilegrar en jafnframt fíngerðrar konu. Hún bjó nánast allt sitt líf í Bandaríkjunum og því voru dagleg samskipti ekki mikil. Samt sem áður talaði hún alla tíð góða íslensku sem auðveldaði okkur samskipti við hana og gerði sambandið nánara.

Það ríkti alltaf mikil spenna þegar von var á Eygló frænku í heimsókn. Hún hafði húmor fyrir lífinu og það var ávallt gaman að vera í kringum hana. Einnig færði hún okkur einstakar gjafir og lumaði á sjaldséðu sælgæti. Eygló var stór hluti af fjölskyldunni og eru okkur systrum meðal annars mjög minnistæð þau áhrif sem hún hafði á jólahald stórfjölskyldunnar. Gjafirnar frá henni fengum við að opna í hádeginu á aðfangadag, í möndlugrautnum, til þess að stytta okkur stundir yfir daginn.

Eygló var dugleg að halda sambandi við fjölskyldu og vini og var áhugasöm um það sem við tókum okkur fyrir hendur. Hún hafði ákveðnar skoðanir og lagði alla tíð mikla áherslu á menntun.  Henni þótti einnig mikilvægt að hennar börn, Anna Jóna og Gunnar, væri í góðu sambandi við fjölskylduna á Íslandi.

Elsku Eygló, við minnumst þín með þakklæti í huga og vottum fjölskyldu þinni innilega samúð.

Anna Lilja og Elísa.