Sigrún Höskuldsdóttir fæddist á Hvammstanga 27. september 1938. Hún lést á Landspítalanum við Hringbraut 1. september sl. Foreldrar hennar voru hjónin Guðrún Gísladóttir, f. á Litla Ármóti í Hraungerðishreppi 4. júlí 1910, d. 29. janúar 1986, og Höskuldur Helgason, f. á Syðri-Reykjum í Miðfirði 6. október 1909, d. 7. maí 1999. Bróðir Sigrúnar er Ólafur, f. 15. desember 1939. Eiginmaður Sigrúnar er Garðar Bergendal, f. 19. september 1943. Útför Sigrúnar fór fram frá Fossvogskapellu í Reykjavík 9. september.

Sigrún frænka okkar er fallin frá eftir langa baráttu við krabbameinið. Hún ólst upp í foreldrahúsum á Hvammstanga og vann hin ýmsu störf. Afi hennar og amma, þau Elísabet Sveinsdóttir og Helgi Ögmundsson, bjuggu einnig á heimilinu svo og faðir okkar, Hörður H. Jóhannsson. Sigrún hjálpaði foreldrum sínum í búskapnum. Þau voru með kýr, kindur og hesta eins og títt var í þá daga.
Sigrún gekk í Barnaskóla Hvammstanga sem var til húsa í gamla Þinghúsinu. Hún stundaði nám í  kvennaskóla á Hvammstanga hjá Benný Sigurðardóttur veturinn 1952-1953. Nokkrum árum seinna fór hún í Húsmæðraskóla Reykjavíkur.

Árið 1964  útskrifaðist Sigrún úr Ljósmæðraskóla Íslands og tók þá við ljósmóðurstarfi Hvammstangalæknishéraðs. Hún var farsæl mjög í starfi og vann í sínu heimahéraði allt þar til ljósmóðurembættið þar var lagt niður árið 1988. Flutti Sigrún þá til Reykjavíkur, bjó hjá Garðari sínum og vann á fæðingardeild Landspítalans og síðan við hjúkrun á Hrafnistu í Reykjavík.

Þegar við systur fluttum af loftinu á Suðurlandsbraut 112 í Reykjavík að Jaðri á Hvammstanga, þá fjögurra og fimm ára gamlar, urðum við nágrannar Sigrúnar, Óla, Höskuldar, Guðrúnar, langömmu og langafa á Bjargarsteini. Þar var gestkvæmt og komu ættingjar þangað oft til skemmri eða lengri dvalar. Allir komust fyrir þó að húsakynnin væru ekki stór og vel var hugsað um alla.  Svignuðu borð undan góðgerðum þeirra mæðgna, Sigrúnar og Guðrúnar. Þær mæðgur voru alltaf að. Þær voru að þrífa og þvo þvott, elda mat og steikja kleinur og þá var ekki leiðinlegt að vera á næstu grösum.  Enginn var skilinn útundan, hvorki menn né skepnur. Garðurinn bar vott um natni þeirra. Þær eignuðust gróðurhús og ræktuðu blóm, tómata, gúrkur og jarðarber.

Það var mikill samgangur milli heimilanna og fengu litlu frænkurnar að fara í fjósið með stóru frænku og áttu sérstakar fjósaúlpur við þau tækifæri.

Ógleymanleg er sú stund er við fórum út á Svalbarð, bæinn norðan við Miðtún á Hvammstanga, með Höskuldi frænda og Sigrúnu og fengum sitt lambið hvor að gjöf. Á jóladag fór litla fjölskyldan á Jaðri alltaf í kvöldmatarboð að Bjargarsteini. Við fengum að skoða handavinnuna hennar Sigrúnar og eigum enn fallega heklaða dúkkukjóla frá henni. Stundum sátum við bergnumdar og hlustuðum á plötuspilarann hans Óla þegar hann var nýkominn heim úr siglingu.

Þegar sjónvarpið kom heima hjá Sigrúnu var engu líkara en við værum búin að fá kvikmyndahús í nágrennið. Fjölskyldan þusti heim til Höskuldar frænda  á kvöldin og horfði á Sögu Forsythe-ættarinnar eða Onedin skipafélagið enda Elísabet langamma ekki lengur meðal okkar til að segja okkur söguna af Bláskjá.

Sigrún hugsaði vel um foreldra sína og hún sá líka um föður sinn eftir að hún fór að búa með Garðari í Reykjavík. Hún var stoð okkar og stytta í blíðu og stríðu og þökkum við henni samfylgdina.

Við vottum Óla og Garðari samúð svo og öðrum ættingjum og vinum.

Erla og Elísabet Helga Harðardætur

Mín elskulega frænka, Sigrún Höskuldsdóttir, fæddist í Bjargarsteini, húsi afa okkar og ömmu, Elísabetar Sveinsdóttur og Helga Ögmundssonar.  Þetta draumahús var rifið og annað byggt í staðinn.  Þar voru í heimili foreldrar Sigrúnar ásamt henni og Óla bróður hennar, afi og amma og bróðir minn Hörður Hólm.

Sigrún óx hratt að visku og atgervi, hún var há og grönn falleg stelpa með tvær þykkar og langar fléttur og djúpblá augu.  Mér fannst hún alltaf vera að vinna og hafa lítinn tíma fyrir leik.  Hún var ávallt hjartahlý og góð og mátti ekkert aumt sjá.

Ég naut þeirrar gæfu að vera öll mín æskusumur á heimili Sigrúnar á Hvammstanga, þar var gott að vakna við hanagal á morgnana og anda að sér fersku sjávarlofti.  Gerast síðan kúreki með Sigrúnu og Óla frændsystkinum mínum, en foreldrar Sigrúnar og afi og amma áttu hesta, kýr og kindur og hafði hún sérstakt yndi af hestunum, þeir voru miklir vinir hennar, og komu ávallt hlaupandi þegar þeir sáu hana enda áttu þeir von á góðgæti þegar hún birtist.

Sigrún fór í Húsmæðraskólann í Reykjavík og síðan í Ljósmæðraskólann.  Hún starfaði sem ljósmóðir á Hvammstanga og síðar í Reykjavík eftir að hún hóf sambúð með eftirlifandi manni sínum, Garðari Bergendal.  Síðustu starfsárin vann hún á Hrafnistu og hjúkraði þar gamla fólkinu meðan kraftar leyfðu, en síðustu árin átti hún í mjög erfiðum veikindum.

Algóður faðir ég bið þig nú,

vak yfir frænku minni,

ég trúi að lokum það sért þú,

sem þjáning mannanna linni.

Mínar innilegustu samúðarkveðjur til Garðars Bergendal, Ólafs Höskuldssonar og annarra ættingja.

Sigríður H Jakobsdóttir.