Hartmann Pétursson fæddist á Selfossi 4. september 1981. Hann lést 21. júlí síðastliðinn. Foreldrar hans eru Pétur H. Hartmannsson, f. 17.4. 1957, og Jórunn E. Ingimundardóttir, f. 1.1. 1958. Systkini Hartmanns eru Ingimundur Pétursson, f. 6.8. 1976, og Steinunn Jóna Pétursdóttir, f. 4.1. 1984, og hún á soninn Pétur Hartmann Jóhannsson, f. 25.9. 2007. Hartmann á einn son, sólargeislann Anton Óla Hartmannsson, f. 13.9. 2000, en móðir hans er Þóra Ólafsdóttir, f. 30.5. 1983. Hartmann ólst upp á Selfossi og bjó þar alla tíð og gekk þar í skóla. Hartmann stundaði ýmis störf en sjómennskan var hans aðalstarf síðustu ár og síðast á Gnúp GK og líkaði honum sjómennskan mjög vel. Hartmann verður jarðsunginn frá Selfosskirkju í dag, fimmtudaginn 30. júlí, og hefst athöfnin kl. 13.30.

Elsku Harti minn. Mikið er ég glöð að hafa fundið þig á ný fyrir nokkrum vikum síðan, þökk sé netheima. Við áttum yndislegar stundir saman hér í denn, í góðum vinahóp. Ég var að enda við að fletta í gegnum gömlu myndaalbúmin og ég gat ekki annað en brosað og hlegið. Það sem okkur datt í hug! Þú varst alltaf svo góður og hugulsamur, fyndinn og skemmtilegur, hrósaðir manni út í gegn og gullkornin frá þér voru ómetanleg.

Ég gleymi sérstaklega aldrei einu sem þú sagðir við mig, stuttu áður en við fórum svo í sitt hvora áttina. Þú sagðir; Ellen, ef ég mun einhvern daginn gifta mig þá vil ég giftast stelpu eins og þér. Já, þetta var aðeins eitt af því fallega sem þú sagðir og eflaust geta allir sem þekktu þig bætt endalaust við. Minning þín er umvafin gleði og hlýju, þú mun ávallt eiga stað í hjarta mínu.

Hversvegna er leiknum lokið?
Ég leita en finn ekki svar.
Ég finn hjá mér þörf til að þakka
þetta sem eitt sinn var.
(Starri í Garði.)

Minning þín er mér ei gleymd;
mína sál þú gladdir;
innst í hjarta hún er geymd,
þú heilsaðir mér og kvaddir.
(Káinn.)

Ég votta fjölskyldu þinni mína dýpstu samúð.

Þín vinkona,

Ellen María.

Elsku Jórunn , Pétur og fjölskylda,


Það daprast minn hugur er dagurinn hverfur
og dimman á veginn fellur,
er hrímið leggst yfir lönd og voga
og Líkaböng tímans gellur
og herðir á göngunni götuna auða,
göngu frá lífi að dauða.

,

Ég vildi svo gjarnan stöðva þá strauma
er stöðugt hraðara falla,
því vinátta þín sem vorsins ylur
vermdi manns hugsun alla,
vís er ei nokkurra næturstaður,
hann nauðþekkir enginn maður.

,

Nú fylgjum við þér í síðasta sinni
með sorg í viðkvæmu hjarta,
þökkum líf þitt og ljúfar stundir,
ljósa minning og bjarta.
Við óskum þér góðs á æðra sviði,
ástin mín, sofðu í friði.

(KHB.)

Megi allar góðar vættir vaka yfir ykkur, leiða og styrkja í gegnum þessa sorg kæru vinir,

Sólveig Friðrikka og fjölskylda.

Elsku Harti, það er svo ótrúlega sárt að þú ert farinn svo fljótt. Þú varst svo yndislegur og góður maður, einn af þessum fáu sem maður gat treyst á að væri alltaf heiðarlegur og þú varst svo traustur vinur. Þú varst vinur vina þinna og lést þá heyra það við hvert tækifæri að þú elskaðir þá. Það sama gildir um fjölskylduna sem þú elskaðir svo ótrúlega mikið.
Þú varst svo sterkur karakter og lýstir upp dimman hversdagsleikann hvar sem þú varst. Ákveðinn varstu og vissir allveg hvað þú vildir. Ekki er til sá hlutur sem þú gast ekki gert.
Heljarins hraustmenni varstu og það er líklega það sem bjargaði lífi þínu í þessu hræðilega slysi en líka var það viljinn og ákafinn í að ná fyrri styrk og halda áfram með líf þitt og það ekki seinna en strax.
Þín verður sárt saknað og minning þín lifir að eilífu.
Ég votta fjölskyldu þinni mína dýpstu samúð.
Þín vinkona,

Erla Björk Árskóg