Gísli Guðmundur Ísleifsson hæstaréttarlögmaður fæddist í Reykjavík 18. maí 1926. Hann lést á Kumbaravogi 13. mars 2009. Foreldrar hans voru Ísleifur Árnason prófessor frá Geitaskarði í Langadal og Soffía Gísladóttir Johnsen stórkaupmanns og athafnamanns frá Vestmannaeyjum. Guðmundarnafn Gísla er í höfuð á „Muggi“ hins dáða listamanna og var vitjað í draumi. Systkini Gísla voru Hildur Sólveig og Ásdís, sem báðar eru látnar og Árni. Gísli kvæntist ungur að árum, Ragnhildi Guðrúnu Finnbjörnsdóttur málarameistara frá Ísafirði og eru börn þeirra Ísleifur flugvirki, Finnbjörn kerfisfræðingur, og Sigríður skrifstofumaður. Gísli og Ragnhildur skildu. Síðari kona Gísla var Fjóla Karlsdóttir. Börn þeirra eru Örn Tryggvi vélvirki, Karl blikksmiður, Sigurður Kolbeinn, iðnrekstrarfræðingur og Guðrún Helga verslunarmaður. Gísli og Fjóla skildu. Gísli ólst upp í föðurhúsum og fetaði í fótspor föður sína og gerðist lögfræðingur og um síðir hæstaréttarlögmaður. Starfaði Gísli um alllangt skeið á lögmannsstofu Ágústar Fjeldsted og Benedikts Sigurjónssonar og varð það hans hlutskipti að verja landhelgisbrjótana. Gísli fór til Montreal í Kanada og lærði „flugmálarétt“ og starfaði svo að því loknu hjá Flugmálastjórn. Hann rak einnig um tíma eigin stofu. Í lokin vann hjá Verðlagsstofnun. Útför Gísla fór fram í kyrrþey.
Elsku pabbi, nú er afmælið þitt komið og þú ert ekki með okkur. Nú eru komnir 2 mánuðir síðan að þú yfirgast okkur og er það mikill missir. Ég hugsa á hverjum degi til þín og sakna þess að hringja í þig öðru hvoru og heyra að þú varst að horfa á fótboltann eða þegar þú sagðir mér frá nýjum bókum sem þú hafðir nýverið lesið. Einnig varstu alltaf upprifinn þegar þú fékkst nýjar bókasendingar og allt var að fyllast af bókum í herberginu þínu. Það var svo gaman að koma til þín þegar við vorum á Íslandi, þú ljómaðir allur þegar við duttum inn úr dyrunum, þó að oft stoppuðum við ekki lengi en reyndum þá frekar að koma oftar.
Ólafur Ketill og Perla Líf hafa mikið talað um það, að þegar þau munu vera á Íslandi og fara í ferðalög munu þau ekki stoppa hjá afa Gísla til að fá súkkulaði, sem var alltaf á boðstólnum og auðvitað að skrifa í gestabókina sem var fastur liður eins og venjulega. Þó að þau hittu hann ekki oft á ári þá muna þau vel eftir gamla góða afa.
Pabbi var alltaf glettinn og skemmtilegur, venjulega var mjög stutt í húmorinn og brandara. Hann var góður faðir og mjög klár. Þar sem ég er yngst af mínum systkinum fékk ég að njóta ferðalangsins í honum. Frá unga aldri fékk ég að ferðast með honum og mömmu, þá helst til sólarlanda og einnig Bandaríkjanna. Hann var mikil málamaður og naut sín alltaf mjög í útlöndum, þess vegna reyndi hann að spjalla við fólk, sóla sig og skoða sem mest af stöðum, söfnum og því sem hægt var að sjá og skoða. Í stuttu máli, ná sér í sem mestar upplýsingar um hvern stað, því forvitinn var hann og það gerði það að verkum að hann var mjög vitur og vissi mjög margt á mjög mörgum sviðum.
Ég man alltaf eftir því þegar ég fór með honum í vinnuna á Verðlagsstofnun og hjálpaði honum þar að raða pappírum eða flokka hluti, mér fannst það rosalega gaman.
Eitt var það sem pabba líkaði ekki, það voru miklar breytingar, hann vildi helst hafa hlutina í föstum skorðum og þá sérstaklega eftir því sem árin liðu. Hver hlutur átti sinn stað og því mátti alls ekki breyta. Herbergið hans var mjög hlýlegt, hann var með myndir af okkur börnunum og sem flestum barnabörnum líka, eins og ég hef minnst á áður þá var það orðið drekkhlaðið af bókum og manni leið vel hjá honum.
Þín er sárt saknað af okkur öllum en við vitum að nú líður þér vel og þú lítur eftir okkur.
Þín elskandi dóttir,
Guðrún Helga, barnabörn Ólafur Ketill og Perla Líf.